Wednesday 17 September 2014

Kantonískir andaleggir með hoisin sósu, vorlauk, gúrku á mandarínpönnukökum

Snædís, eiginkona mín, átti afmæli s.l. föstudag og í tilefni þessa lofaði ég að elda eitthvað gott handa henni um helgina. Hún bað mig um að elda önd með asísku sniði og það var nú lítið vandamál að verða við þeirri bón...hélt ég. Hugmyndin var að heilsteikja önd og bera hana fram í mandarin-pönnukökum. Mér láðist þó að undirbúa þetta almennilega. Var nefnilega á vakt allan laugardaginn og gleymdi að kaupa öndina. Dreif mig út í búð á sunnudagsmorguninn og fann eina frosna. Best að bretta upp ermarnar!

Ég hafði lesið margar svona uppskriftir fyrir löngu síðan en augljóslega búinn að gleyma því að þetta er heldur tímafrekt verkefni. Ef vel á að vera tekur þetta að minnsta kosti 12 tíma, helst einn og hálfan sólarhring. Þetta var því alveg vonlaust mál - öndin mín var ennþá frosin! Því voru góð ráð dýr. Dreif mig í aðra verslun og fann ófrosna andaleggi! Þessu varð að bjarga.

Auðvitað væri líka hægt að nota kjúklingaleggi eða þá gæsaleggi, sem margir íslenskir veiðimenn geta nálgast um þessar mundir!

Kantonískir andaleggir með hoisin sósu, vorlauk og gúrku á mandarínpönnukökum

Fyrir sex

6 andaleggir
1 krukka hoisinsósa
4 msk hunang
50 ml hrísgrjónaedik
100 ml soyasósa
4 msk jómfrúarolía
2 kanilstangir
2 stjörnuanísar
1 tsk sichuan piparkorn
1 msk kínversk fimmkryddablanda
5 vorlaukar

Meðlæti

Mandarín-pönnukökur
2 gulrætur
8 vorlaukar
1 papríka
1 púrrulaukur
hrísgrjón (val)
1/2 agúrka
1/2 krukka hoisinsósa

Það er auðvitað hægt að gera sína eigin hoisin sósu - það eru til óteljandi uppskriftir á netinu og nær allar eru þær verulega frábrugðnar því sem maður kaupir út í búð (eins og ég gerði núna). Ætli sé ekki best að skoða hversu mikinn tíma maður hefur úr að spila!


Skola leggina vel og vandlega í köldu vatni. 
  

Ég notaði kínverska fimmkryddablöndu sem inniheldur blöndu af stjörnuanís, negul, kanil, svörtum pipar og fennelfræjum. Og til að skerpa á þessari blöndu bætti ég við tveimur kanilstöngum, tveimur stjörnuanísum og sichuan piparkornum. 


Svo er bara að skella hvítlauknum og engifernum í matvinnsluvél!


Og hakka smátt!


Svo þarf maður bara að átta sig á því að þessi skál er hreinlega of lítil fyrir allan þennan mat! 


Leggirnir voru færðir yfir í stóran bala og soyasósunni, olíunni og vorlauknum hellt yfir. Blandað vel saman. Látið í ísskáp og leyft að marinerast í 4-6 tíma. Líklega væri þó best að láta þetta marinerast yfir nótt!


Lagt á ofnskúffu klædda með álpappír. Svo penslaði ég marineringunni ofan á áður en andaleggirnir voru settir inn í ofninn. Bakaði þá fyrst í klukkustund við 180 gráður með álpappír ofan á. Tók svo álpappírinn af og jók hitann í 225 gráður til að fá húðina stökka!


Á meðan andaleggirnir voru í ofninum skar ég niður grænmetið í þunna strimla og sneiðar. 


Fallega glansandi og stökkt að sjá, ekki satt?


Með matnum voru borin fram hrísgrjón fyrir þá sem það vildu!


Eða í mandarínpönnuköku, sem eru hitaðar áður en þær eru bornar fram!


Við nutum víns frá Chile með matnum - Trapiche oak cask Malbec frá því 2012. Þetta er kröftugt vín með miklu berjabragði - kirsuber. Og jafnvel ögn reykt eftirbragð. Gott eftirbragð sem hentaði einkar vel með matnum!

Það er alltaf tími til að njóta!

No comments:

Post a Comment