Friday 5 September 2014

Ofnbakaður sírópsgljáður sítrónulax með heitu rótarsalati og kaldri hvítlaukssósu


Við erum á leiðinni til Íslands núna á fimmtudaginn. Skjár einn var svo almennilegur við mig að bjóða mér og frúnni til Íslands til að taka þátt í haustkynningunni sem verður fimmtudagskvöldið 4. september. Við ákváðum að taka barnskarann með okkur og náum að auki nokkrum dögum uppí bústað í afslöppun. Þetta verður svona löng helgi - og eru þær ekki bara það besta sem til er!

Svo er líka verið að skipuleggja haustið. Nýja bókin mín er komin í prentsmiðju og verður gefin út 1. nóvember næstkomandi. Ég hlakka óskaplega mikið til að sýna ykkur afraksturinn. Ég mun koma heim til Íslands aftur í tilefni þessa! Svo ætla ég að vera aftur á ferðinni á bókamessunni í Reykjavík sem verður haldin 22. og 23. nóvember í Ráðhúsinu. Það var ótrúlega gaman að vera þarna í fyrra og ég hlakka til að vera aftur innan um allar bókaútgáfurnar og allar bækurnar sem gefnar eru út. Þvílík gróska!

Snædís tók forskot á sæluna og fór til Íslands um síðustu helgi og náði að skella sér í veiðitúr með föður sínum og systur í Álftá. Það var lítil veiðin að þessu sinni en samt fannst mér ekki annað hægt en að elda lax til heiðurs tilrauninni til að veiða einn slíkan. Þar sem þetta var bara ég og börnin var uppskriftin aðeins smærri í sniðum en oft áður.

Ofnbakaður sírópsgljáður sítrónulax með heitu rótarsalati og kaldri hvítlaukssósu

Fyrir fjóra (1 fullorðinn og 3 börn)

700 g lax
1 fennel
1/2 rauð papríka
200 g kirsuberjatómatar
1 rauðlaukur
100 g strengjabaunir
5 vorlaukar
4 msk hvítlauksolía
2 tsk hlynsíróp
1 sítróna
salt og pipar

fyrir sósuna;

5 msk sýrður rjómi
1 msk hvítlauksolía
1 tsk hlynsíróp
salt og pipar



Skerið grænmetið gróflega.

Leggið grænmetið í eldfast mót og blandið því vel saman.

 
Hellið hvítlauksolíunni yfir, saltið og piprið ríkulega. Setjið inn í 180 gráðu heitan ofn og bakið í 20 mínútur og rótið í grænmetinu að minnsta kosti einu sinni á meðan það er að bakast.


Penslið laxinn með sírópi og raðið sítrónusneiðum ofan á hann.


Setjið svo laxinn ofan á grænmetið og setjið það svo aftur inn í ofn í 20-25 mínútur þangað til að hann er eldaður í gegn.



Þessi mynd er nú bara þarna að því mér finnst hún falleg. Eldhúsið ilmaði dásamlega!


Færið laxinn yfir á fat.



Setjið grænmetið við hliðina á laxinum og ausið olíunni yfir grænmetið. Skreytið með ferskri steinselju!

Sósan er ofureinföld. Blandið saman sýrðum rjóma, hvítlauksolíu, sírópi og hrærið vel saman. Saltið og piprið eftir smekk.

Berið fram með hrísgrjónum og kannski örlitlu hvítvínstári úr einhverri góðri búkollu úr ísskápnum. Ég var með þessa ágætis búkollu sem ég fann í Systeminu (Ríkinu okkar í Svíþjóð) um daginn. Ég hafði smakkað vínið áður, en þá í flösku - og búkollan var líka alveg ljómandi. Þetta er létt chardonnay, með góðum ávexti, smá smjörkeim og fínu eftirbragði sem passaði vel með laxinum.

Það er alltaf tími til að njóta! 

No comments:

Post a Comment