Sunday 18 February 2007

Grófar speltbollur með haframjöli

Það var fátt um fína drætti í mínu eldhúsi um helgina. Unglæknadagurinn var á laugardaginn og hófst um morguninn í húsakynnum Vistor í Hörgatúni og stóð fram eftir degi. Fyrirlestrar voru framúrskarandi. Um kvöldið var svo dinner og mæting var frábær. Stemmingin góð og félagskapurinn meiriháttar. Einhver flensa virðist þó vera að herja á mann í morgunsárið. Vegna þessa hefur lítið verið að ske í eldhúsinu mínu um helgina. Mamma og pabbi buðu okkur í mat í kvöld og það var frábært. Lambaribeye með ofnbökuðu grænmeti og grilluðum portobellosveppum. Meiriháttar. Ég held að pabbi sé að vélrita uppskriftina svo ég geti látið hana á netið.

Í anda þess að það er bolludagur á morgun gerðum við feðginin brauðbollur í dag. Valdís dóttir mín fékk að velja hvaða hráefni fór í bollurnar og þetta varð úr.

Grófar speltbollur með haframjöli grófar speltbollur

300 ml af vatni voru hitaðir í ca 40 gráður. Tvær teskeiðar af geri sett út í og sirka 30 gr af sykri. Við þetta vaknar gerið. 2 bollar speltmjöli, 2 bollar af hvítu hveiti, 1 bolli hveitiklíð, 1/2 bolli bankabygg og 1/2 haframjöl var blandað saman í skál, 2 tsk af salti og 3 msk af jómfrúarolíu var hrært saman við. Gerblöndunni var svo varlega hrært saman við og þegar mjúkur klumpur hafði myndast var því leyft að hefast í rúma eina klukkustund.

Búnar voru til bollur, haframjöli stráð yfir og bakaðar við 180 gráður í rúmar 15 mínútur. Mjög fínar.


No comments:

Post a Comment