Sunday 11 February 2007

Kjúklingur Marbella og fjögurra berja kampavínszabaglione

Bauð gestum í mat í gær. Meiriháttar gaman - þó held ég að við höfum fengið okkur aðeins of mikið rauðvín. En rauðvín er svo gott - það bara refsar manni aðeins daginn eftir en það er ekki varanlegur skaði - þetta jafnar sig allt.

Við hjónun buðum Jóni Þorkatli, Álfhildi eiginkonu hans, Arnfríði kollega mínum og manni hennar Guðmundi. Þetta varð hin besta matarveisla og setið var að sumbli til að verða tvö í nótt. Gott fólk, gott spjall, gott rauðvín, talsverðir timburmenn. 

Ég var með þríréttað. Lax í forrrétt - blogga eitthvað um forréttinn á morgun.


 

Marbella kjúklingur er réttur sem mamma byrjaði að elda fyrir rúmum 10 árum síðan. Mamma hefur eldað þennan rétt mörgum sinnum og hann er alltaf algert success. Ég hef einnig gert hann nokkrum sinnum og hann hefur ekkert síður slegið í gegn í mínu eldhúsi. Þessi réttur er fengin úr matreiðslubók sem heitir The Silver Palate - og er alveg meiriháttar. Ég hef séð útgáfu af þessum rétt í íslenskri matreiðslubók sem heitir Hristist fyrir notkun eftir Guðbjörgu Gissurardóttur - skemmtileg matreiðslubók sem kom út árið 2002.

Best er ef maður getur látið kjúklinginn liggja í marineringunni í sólarhring - þá verður hann bestur en ég hef komist upp með að marinera hann ekki neitt - og hann var samt rosalega bragðgóður - en er betri ef hann fær að marinerast í ískáp yfir nótt.

Ég vík aðeins frá uppskriftinni eins og hún er í bókinni - ekki vegna þess að mín útgáfa er eitthvað betri - heldur vegna þess að ég á ekki bókina ennþá (er búinn að panta hana á amazon.com).

Kjúklingur Marbella og fjögurra berja kampavínszabaglione

2 heilir kjúklingar eru hlutaðir niður og settir í stóra skál. 150 ml af jómfrúarolíu er hellt útí, ásamt 75 ml af hvítvínsediki, 25 ml af balsamic ediki, 1 krukku af góðum grænum ólívum, 1 krukka af góðum svörtum kalamata olífum, helmingin af vökvanum af báðum olífunum, 20 döðlur, 35 niðurskornar sveskjur, 2 glös af hvítvíni, 70 gr af dökkum Muscovado sykri, 1 msk þurrt oregano, 1 búnt af ferskri steinselju og 2 saxaðir hvítlaukar. Látið marinerast í helst 1 sólarhring en ég lét nægja 8 klst í þetta sinn. Bitinum er svo raðað í eldfast mót, vökvanum af marineringunni er hellt með og dökkum Muscovado sykri er sáldrað yfir (húðin af kjúklingum mun aðeins standa upp úr vökvanum og mun karmelliserast í sykrinum). Bæti smá hvítvíni til viðbótar þannig að nógur vökvi sé með kjúklingum. Bakið í ofni við 180 gráður í ca 30-40 mínútur (eða þartil kjúklingur er orðin 82 gráðu heitur og farinn að karmelliserast. Þegar maturinn er tilbúinn er hann skreyttur með smávegis ferskum kóríander og mejoram.





Borið fram með Basmati hrísgrjónum sem eru eldaðar eftir leiðbeiningum og einnig fersku salati sem var útbúið á þann hátt að klettasalat var lagt á flatan disk, steinlaus blá vínber skorinn í tvennt dreift yfir, svo kúrbítsbitum sem hafði verið grillaður, saltaður og pipraður, gullostsbitum voru settir á heitan kúrbítinn, smátt saxaðri rauðri papriku var einnig dreift, ferskt basil skorið í strimla (julienne)yfir og svo muldum pecan hnetum. Í lokinn saltað og piprað og vætt með smá jómfrúarolíu.

Fjögra berja kampavíns Zabaglione

Þetta er frábær eftirréttur - bæði góður og fallegur. Þetta er ítalskur eftirréttur - þar sem hefð er fyrir því að nota Marsala - sem bragðmikið styrkt vín en ég notaði Peter Lehmann freyðivín Chardonnay/Pinot Noir blöndu sem er ákaflega bragðgott.

Það er lítið mál að gera þennan eftirrétt en hann krefst talsverðar fyrirhafnar. 8 eggjarauður og 1 bolli af sykri er blandað saman í skál sem er látin hvíla á vatnsbaði (vatn er soðið í potti og skálinn svo látin ofan - bara passa að skálinn liggi ekki í vatninu. Eggjarauðurnar og sykurinn er hrært vandlega saman þar til orðið glansandi og farið að freyða aðeins, þá er 2/3 bolli freyðivíni bætt útí varlega og 2/3 bolli rjómi. Þetta er svo þeytt stöðugt þar til blandað fer að þykkna talsvert (tekur 15 mínútur eða svo - þeyta stöðugt - annars verður þetta bara að ommilettu).

Fjórum tegundum af berjum; hindberjum, bláberjum, rifsberjum og niðurskornum jarðaberjum eru lagðar í form og eggjablöndunni svo hellt yfir. Látið kólna í um 1 klukkustund. Svo er nokkrum berjum bætt ofan á og perlusykri sáldrað yfir. Perlusykurinn er svo bræddur með logsuðutæki eða undir heitu grilli í eitt augnablik. 





Vesigú -





No comments:

Post a Comment