Saturday 3 February 2007

Fjögurraosta pizza, kartöflupizza og rauðvínssopi

Var á 10 ára endurfundapartíi MHinga í gærkvöldi. Ætlaði rétt að skreppa með Sverri vini mínum og vera kominn snemma heim. Það fór nú annan veg - svona er það þegar maður hittir mikið af skemmtilegu fólki. Vorum fyrst á stúdentakjallaranum og svo á Celtic cross - þetta var alveg ekta djamm, bara svo eins og í gamla daga - hörkugaman og skemmtilegt að sjá öll þessi andlit aftur, mér fannst eiginlega enginn hafa breyst. Var seint á ferðinni í nótt og með smá samkvæmisflensu í morgun - en lét það ekkert aftra mér að eiga góðan laugardag. Maður verður að vera góður við sig á dögum þar sem maður er aðeins framlágur og ákváðum við því að gera heimagerðapitsu - dóttir mín er alltaf hrifinn af því að fá pitsu - sérstaklega þar hún hjálpar mér alltaf að gera deigið og raða á pitsuna.

Hef áður birt uppskrift af pitsubotni og geri eiginlega bara copy/paste - breyti þessu bara aðeins.

Útí 250 ml af ylvolgu vatni er sett 2 tsk þurrger og 30 g af sykur eða hunangi . Blanda saman vatninu, gerinu og sykri (eða hunangi) saman og leyfi gerinu að vakna - þá freyðir svona ofan á vatninu - tekur svona 10-15 mín. 500-700 gr. hveiti er er sett í skál og saltið og olían blandað saman við. Mikilvægt er að leyfa gerinu að vakna vel og rækilega og ekki setja saltið þarna úti - þar sem saltið hamlar aðeins gerjunarferlinu. Blanda vatninu svo hægt saman við hveitið þar til það verður að góðum deigklump. Það er mikilvægt að hræra deigið vel - þannig hefast það mikið betur og bragðast líka betur. Ég vil að deigið dúi vel undan fingri og þegar áferðin er þannig að deigið jafnar sig hratt þegar maður ýtir fingri í það breiði ég viskastykki yfir skálina og leyfi að hefast - eins lengi og maður hefur tíma. Deigið er nóg í tvær pizzur.

Ég er eiginlega alveg hættur að nenna að gera mínar eigin tómatsósur fyrir pitsur - þó að það sé nú eins einfalt og huxast getur - núna nota ég eiginlega bara Hunt roasted garlic tomato sauce. Hún er afar bragðgóð - milt og alls ekki súr.

Fjögurra osta pitsa.

Á fyrstu pitsuna setti ég fyrst smá gouda ost - niðurrifinn. Svo mozzarellaost sem ég skar í kubba. rjómaostur var settur á alla pitsuna. Á annan helminginn setti ég gullgráðaost og á hinn helmingin bláan kastalaost. Parmesan ostur var svo rifinn yfir allt saman.

Það kemur kannski spánskt fyrir sjónir en ég bar ostapitsuna fram með smávegis chillihlaupi sem Þorbjörg hjúkrunarfræðingur á St. Jósefspítala færði mér - hún gaf mér líka uppskriftina, sem ég því miður týndi. Alveg frábær sulta. Hún gaf mér líka chilli og sólberjasultu sem var líka alveg meiriháttar.

Kartöflupitsa - afgangar nýttir fram í ystu æsar. 

Hin pitsan var meira svona afgangapitsa. Ég átti kartöflur frá því í matnum í gær - skar þær niður í sneiðar og raðaði á pitsuna - chillipipar sem var með þeim var einnig dreift yfir. Svo setti ég ferska niðurskorna sveppi og einnig sveppina sem voru afgangs úr kartöfluréttinum í gær. Því næst dreifði þistilhjörtum yfir, svo rifnum osti og í lokinn smávegis af beikoni. Alveg meiriháttar góð - mjög svona - hvað ætti maður að segja... rustico!

Þetta var bakað í ofni í 15-20 mínútur við 180 gráðu hita. Með þessu var drukkið Laderas de El Segui frá 2005 sem er spánskt rauðvín sem Kristinn Grétarson færði mér um daginn. Gott vín - bragðmikið, þurrt og með góðu eftirbragði - passaði vel með matnum.

 


No comments:

Post a Comment