Monday 19 February 2007

Heimagerðar fiskibollur með heitu vetrarsalati

Maturinn í kvöld var í anda dagsins. Þar sem það er nú bolludagur var málið að gera einhvern bollumat. Ég ákvað að búa til fiskibollur. Ég hef aldrei gert fiskibollur áður en ég hef tvisvar gert fiskbúðing. Það hljómar ekki mjög "glamourous" að gera fiskibollur - ég gat bara ekki hugsað mér að kaupa tilbúnar fiskbollur í dós - þær eru nú varla mannamatur og svo er það er eitthvað við að kaupa svona hálftilbúinn mat úr kjöt og fiskiborðum búðanna. Ég er nú bara þannig að mig langar til að vita hvað er að fara í matinn minn.

 Fékk ráðleggingar frá mömmu...hún er mikill viskubrunnur þegar kemur að heimilismat. Ég fór eftir því sem hún sagði í grunnatriðum - en ég átti ekki allt sem hún nefndi - það má segja að ég hafi hlýtt henni hvað hlutföll snerti en breytti talsvert útaf.

Heimagerðar fiskibollur með heitu vetrarsalati fiskibollur

1 kg af ýsuflökum, 7 hvítlauksrif, 1 rauðlaukur, 1 lítill hvítur laukur eru sett í hakkavél. Við þetta er blandað 2 msk af ólívuolíu, 2 eggjum, 1 kúfuð tsk af Dijon sinnepi, 4 tsk af fersku majoram og 20 blöð af söxuðu basil. Hrært vel saman. 1/2 bolli af hveiti og 1/2 af maizenamjöli er bætt úti og blandað vel saman. Saltað og piprað. Smávegis af smjöri og ólívuolíu er hituð á pönnu og 2 niðursneiddir rauðlaukar eru steiktir þar til þeir eru farnir að taka lit. Lagt til hliðar. Bollurnar eru útbúnar þannig að hver og ein passar í matskeið og steikt þar til gullinbrúnar. Lagt í eldfast mót og lauknum dreift yfir. Sett í 180 gráðu heitan ofn í 10 mínútur.

Tvær niðursneiddar sætar kartöflur, 1 haus af spergilkáli eru soðin í söltuðu vatni. Vatninu hellt frá og grænmetið sett í skál. 1/4 af gullosti er skorinn niður og dreift á heitt grænmetið. Smávegis jómfrúarolíu skvett yfir og saltað vel og piprað. vetrarsalat Gullosturinn á eftir að bráðna og mynda salatdressingu ásamt olíunni - mjög gott.

Með þessu var gerð sýrðrjómasósa; 1 dós af 10% sýrðum rjóma, tæplega 1 msk af hlynsírópi, lauf af þremur greinum af majorami, safa úr hálfri sítrónu og 1 tsk Dijon sinnepi. Hrært vel saman.

 Maturinn heppnaðist vel - fiskibollurnar voru mjög góðar - hugsa að ég muni elda þær einhvern tíma aftur - utan þessa bolludagsumhverfis.


No comments:

Post a Comment