Wednesday 14 February 2007

Þriggja sveppa risotto með ensku beikoni og basil

Risotto er frábær matur. Ég hef eldað risotto ansi oft síðan að ég byrjaði að búa. Ég kynntist þessari matseld fyrst þegar ég fór til norður Ítalíu fyrir æði mörgum árum síðan. Svo sá ég Jamie Oliver elda þetta í fyrstu sjónvarpsþáttum sínum - the naked chef - og þar sá maður hve einfalt þetta er - eina sem krefst af manni er það að þurfa að hræra stöðugt á meðan eldað er. Eldamennskan tekur frá upphafi til enda um 30 mínútur. Og á köldu vetrarkvöldi er fátt betra en heitt risotto, nóg af parmesan og kannski örlítið hvítvínstár. 
Ég átti aflögu eftir matarboð helgarinnar tvo kjúklinga sem ég hafði að mestu hreinsað kjötið af. Ég ákvað að nota afganginn og búa til kjúklingasoð. Ég gerði þetta á sunnudagskvöldið á meðan ég horfði á sjónvarpið þannig að ekki var fyrirhöfnin mikil. Setti 2 kjúklinga í stóran súpupott, tvær flisjaðar kartöflur, 3 niðursneiddar gulrætur, 2 sneidda lauka, þrjár cellerístangir, 10 piparkorn, 3 lárviðarlauf og salt. Hitað upp að suðu og látið malla í 2-3 klst með lokið á. Svo er lokið tekið af og soðið soðið aðeins niður. Sett í ílát og geymt í ískáp, eða í frysti eftir því hvenær maður ætlar að nota það. 

Þriggja sveppa risotto með ensku beikoni og basil

2 litlir laukar, 1 lítill skarlottu laukur, 5 hvítlauksrif, 1 sellerí stöng eru söxuð niður smátt og steikt á pönnu upp úr 30 gr af smjöri í smá jómfrúarolíu. Þegar grænmetið er búið að svitna aðeins á pönnuni eru 400 gr af Arborio (eða Carneroli) hrísgrjónum sett útí og hituð með grænmetinu. Hrært stöðugt. Þegar grjónin verða aðeins gegnsæ við jaðrana er 1 stóru hvítvínsglasi hellt útá og hvítvínið soðið niður yfir meðalhita. Hrært stöðugt. Lyktin á þessum tímapúnti er dásamlegt. Þarna fara hrísgrjónin að losa út sterkjuna sem er í þeim og við þurfum stöðugt að vera að bæta heitu soði yfir - sjóða svo niður - hræra stöðugt þar til grjónin eru orðin aldente - sem þýðir að það er smá bit í miðjunni á þeim. Þetta tekur um 15-20 mínútur. 

5-7 mínútum áður en risottoið er tilbúið er 3 niðursneiddum portobello sveppum, 5-6 stórum niðursneiddum flúðasveppum og 6-7 niðursneiddum kastaníusveppum bætt saman við. Risottoið mun verða aðeins brúnleit fyrir tilstuðlan sveppana og þeir verða mjúkir og girnilegir. Smakkað til og saltað og piprað ef þarf. Á meðan er 5 sneiðar af ensku beikoni steikt á pönnu þar til það er orðið stökkt og svo tekið til hliðar og skorið í strimla. Þegar risottoið er tilbúið er 70 gr af rifnum parmesanosti og smásmjörklípu hrært saman við og látið standa í 2 mínútur - þetta verður til þess að það þykknar upp vegna ostsins og verður gljáandi af smjörinu. Svo er því hellt í skál - beikoninu dreift yfir og 20 rifnum basillaufum sáldrað yfir. Risotto á að leka á diskinum - það á ekki að halda formi sínu - þá veit maður að það er perfect.

Klettasalat var lagt á flatan disk, 1/2 avacadó var sneitt niður í þunnar sneiðar og lagt ofan á. Nokkur sneidd jarðaber dreift yfir og svo 1/2 mozzarella ostur rifin yfir. Smávegis crema de balsamico dreift yfir. Saltað og piprað.

Borið fram með grófu baguette. Mjög vel heppnuð máltíð. Sveppirnir, risottoið og stökkt beikonið pössuðu ákaflega vel saman.




No comments:

Post a Comment