Friday 2 March 2007

Pasta með gorganzola, spergilkáli, kúrbít og ferskum kryddjurtum

Við hjónin fengum boð á frumsýningu Killer Joe í Borgarleikhúsinu - frábær sýning, mæli hiklaust með henni. Konan mín dobblaði tvær skólasystur sínar úr sálfræðináminu til að koma að passa börnin á meðan við fórum í leikhúsið og bað mig um að elda eitthvað frambærilegt fyrir þær. Það var sjálfsagt.

 Pasta með gorganzola, spergilkáli, kúrbít og ferskum kryddjurtum

Þessi réttur er ákaflega einfaldur (ég er alltaf að segja þetta - en það er satt, þessi er einfaldari en flestir aðrir réttir). Fyrst er kúrbítur skorinn í sneiðar og þurrgrillaður á grillpönnu með salti og pipar. Svo gorgansólaostur ca 120 gr og ca. 40 gr af hreinum rjómaosti sett í skál og leyft að ná herbergishita. 1/2 haus af spergilkáli er soðinn í söltuðu vatni í 7 mínútur - vatninu hellt frá og sett saman við ostinn ásamt kúrbítnum. Við þetta fer osturinn að bráðna. 1/2 búnt af smátt saxaðri steinselju, 30 lauf af smátt skorinni ferskri basil er bætt útí. Saltað með Maldon salti og einnig nýmöluðum pipar. Gott pasta - eins og fabirizza di rustichella (afsaka stafsetningu - pokinn í ruslinu) er soðið skv. leiðbeiningum í söltuðu vatni og þegar tilbúið er vatninu hellt frá og heitu pastanu sett saman við ostinn, grænmetið og kryddið. Heitt pastað mun bræða allan ostinn þannig að hann mun hjúpa pastað. salat 3

Með þessu var salat sem var ekki flókið. Fékk salatþeyti í afmælisgjöf núna á laugardaginn frá mömmu og pabba sem var vígt núna í kvöld. 1/2 poki af laufum (klettasalat, baby leaf og lollo rosso) þeytt vindunni þar til þurrt og sett í skál. Svo var dressing útbúinn - 2 msk af mjög góðri Toscana jómfrúarolíu er sett í litla skál, og við þetta blandað safa út hálfri sítrónu, smá salti og pipar og svo hellt yfir laufinn og þau þakin vel með dressingunni. Laufunum raðað á disk og niðursneiddum mozzarella osti dreift yfir, niðursneiddum jarðaberjum, muldum valhnetum og rifnum basillaufum. Tilbúið.

Með þessu var borið fram foccacia (ítalskt flatbrauð) með olívum og rauðlauk. Brauðið var búið til á svipaðan hátt og Valdísarbrauðið í fyrri færslu. 2 tsk af geri er vakið í 300 ml af volgu vatni. 3 tsk af sykri er bætt saman við og gerið er vakið í sykurvatninu. 500-600 gr af hveiti er sett í skál, 2 tsk af salti og svo 2 msk af góðri olíu. Gerinu er svo bætt hægt og bítandi á meðan hveitinu er hrært. Þegar deigið er orðið fallegt og mjúkt er það látið hefast í 30 mínútur. Deigið er svo flatt út á plötu og svo er fingrunum stungið í þykkt deigið þannig að brunnar verði til. Góðri jómfrúarolíu er svo hellt yfir og dreift jafnt yfir deigið. Saltað og piprað. Ólívum dreift yfir helminginn og niðursneiddum rauðlauk yfir hinn. foccacia Leyft að hefast í ca 15-20 mínútur í viðbót, svo að það rísi aðeins. Þannig drekkur flatbrauðið olíuna í sig og gefur því þetta frábæra bragð. Svo er það bakað í 180 gráðu heitum ofni í ca 15 mínútur.

Borið fram með ágætu rauðvíni - Katnook Flounder's rock - Coonawarra/cab. sauv frá 2002 - afar gott vín með matnum. Ég sá ekki betur en að dömurnar voru ánægðar með matinn - alltént var sonur minn himinlifandi og úðaði í sig pastanu með bestu lyst.

 


No comments:

Post a Comment