Friday 16 March 2007

Frábær kjúklingaréttur að hætti mömmu

Ég er á vöktum alla þessa viku og því er fátt um fína drætti í eldhúsinu. Hef eiginlega ekkert náð að elda síðan að ég kom heim frá Austurríki. Hins vegar hef ég verið duglegur við að borða ristað brauð með osti í vinnunni. Varla neitt til þess að tala um. Datt í hug að fá uppskriftir frá mömmu á meðan ég væri svona lítið að elda - en mamma er meiriháttar kokkur - hún og pabbi eru mínar fyrirmyndir í eldhúsinu.

Ég hef áður birt mína útgáfu af þessum rétt kjúklingarétt - það var mín útgáfa og mamma var alls ekkert sátt hvernig ég fór með uppskriftina. Þetta er einn af hennar bestu réttum og hún var nýlega matgæðingur Vikunnar og þar birti hún þessa uppskrift. Ég held samt að ég hafi ekkert vikið mikið frá hennar uppskrift - en hún hefur ýmislegt til síns máls, hennar réttur er alltaf mikið betri en minn.

Bað mömmu um að senda mér þetta og þetta er bréfið sem hún sendi mér...mamma best í heimi!

Kjúklingur Knabrostræde
Þetta er kjúklingaréttur, kenndur við Knabrostræde sem er gata sem gengur niður af Stikinu í Kaupmannahöfn, en þar bjuggum við hjónin um skeið fyrir nokkrum árum þegar maðurinn minn var í rannsóknarleyfi. Á ítölsku veitingahúsi í borginni pantaði ég mér kjúklingarétt sem var SVO góður að ég skrifaði hjá mér það sem ég taldi vera í honum og hóf tilraunir daginn eftir meðan bragðið var enn á tungunni! Þessi réttur varð mikill uppáhaldsréttur á heimilinu og hefur oft verið á borðum. Ég steiki úr blöndu af smjöri og olíu ef ég kemst upp með það, mér finnst smjörið einfaldlega bragðbæta matinn.

Kjúklingaréttur úr Knabrostræde (fyrir 4)
4 kjúklingabringur
Smjör og olía til steikingar
Salt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk
Kjúklingabringurnar steiktar á pönnu í blöndu af smjöri og olíu. Kryddaðar eftir smekk. Á meðan þær eru að steikjast er sósan útbúin.

Sósan
1 laukur, smátt skorinn
3-4 hvítlauksrif
Nokkrir sveppir, þunnt sneiddir
Nokkrar steinseljugreinar, saxaðar
Smjör og olía til steikingar
Lítil dós tómatpuree
Matreiðslurjómi


Salt, nýmalaður svartur pipar og kjúklingabullion eftir smekk
Laukurinn látinn malla (má taka smá lit, gefur aukabragð) í blöndu af smjöri og olíu. Svo eru sveppirnir settir saman við, þeir mega einnig taka smá lit. Pressaður hvítlaukurinn er settur út í, þá söxuð steinselja og hitinn lækkaður. Látið malla aðeins áfram. Tómatpuree og rjóma blandað saman við. Best er að byrja á að nota hálfa dósina og helminginn af rjómanum og bæta svo við eftir smekk.
Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er hann tekinn af pönnunni, vatni bætt á hana, hitinn hækkaður, soðið upp og vökvanum hellt í sósuna.
Klippa steinselju yfir réttinn. Borið fram með katalónskum kartöflum og léttsoðnum gulrótum og broccoli í stórum bitum.

Mér þykja kartöflur mjög góðar og vil helst borða mikið af þeim. Þegar við vorum í Barcelona fyrir mörgum árum fengum við kartöflurétt sem var svo góður að ég ákvað að reyna að ná bragðinu og áferðinni. Ég er ekki viss um að viðkomandi kokkur muni kannast við þær en þær urðu mjög vinsælar á heimilinu og þetta nafn festist á þeim:

Katalónskar kartöflur

Nokkrar meðalstórar kartöflur afhýddar og skornar í báta. Ólífuolía hituð á pönnu og kartöflubátarnir steiktir þar til þeir byrja að taka lit. Salti stráð yfir, tæpum 1 dl af vatni hellt í pönnuna, lok sett á og hitinn lækkaður. Það þarf að gæta þess að snúa kartöflunum tvisvar, þrisvar sinnum og vatnið á alveg að gufa upp. Þegar þær eru tilbúnar eiga þær að vera gullnar á litinn og fremur stökkar!
No comments:

Post a Comment