Sunday 25 March 2007

Hreindýrahamborgarar með basil-aioli, sæt kartöflufrönskum og fylltum sveppum

Konan mín fór út að skemmta sér í gærkvöldi með systrum sínum og frænkum, ég var því heima og fékk foreldra mína og tvo vini og kollega í mat. Mamma og pabbi fóru heim í fyrra fallinu og við gaurarnir sátum og ræddum um daginn og veginn yfir ölsopa - ljúft og gott kvöld.

Ég er búinn að vera lengi á leiðinni að búa til aioli - sem er svona flott nafn yfir mayonaise. Jónas kollegi minn spurði mig þegar ég sagði honum frá því hvað væri í matinn akkuru ég væri að standa í því að búa þetta til - það væri til maður útí í bæ sem héti Gunnar og gerði ágætis mayonaise. Eftir að Jónas smakkaði aioliið þá held ég að hann viti af hverju maður er að standa í þessu...allt verður betra ef maður gerir hlutina frá grunni.

Hráefnið sem notað var í hamborgarana er kannski ekki innan seilingar fyrir alla en ég er viss um að þeir verði alveg jafngóðir þó að maður myndi nota nautahakk, jafnvel lambahakk.

Hreindýrahamborgarar með basil-aioli, sæt kartöflufrönskum og fylltum sveppum.

800 gr af hreindýrahakki eru sett í skál. Við það er bætt 1/2 smátt skornum stórum rauðlauk, 6 smátt skornum hvítlauksrifjum, 1/2 búnt af saxaðri steinselju, 4 tsk af smátt skornu fersku timian, 2 tsk af þurrkuðu oregano, 2 egg, 3 msk af ristuðum, svo söxuðum, furuhnetum, 3 tsk Maldon salt og ríflega af nýmöluðum pipar. Þetta var svo hrært vandlega saman þar til að það var orðið að fínu hakk deigi. Þurfti að setja aðeins af brauðmylsnu - þar sem það var pínublautt til að byrja með. Látið standa í ískáp í 2-3 klst. Deiginu var svo skipt niður og pressað í hamborgara. Grillað eins og lög gera ráð fyrir - medium rare.

Ég var með heimagert hamborgarabrauð með þessu. Maður tjaldaði öllu til þar sem ég var með svo gott hráefni í hamborgarana. Ég studdist við mjög dæmigerða brauð uppskrift sem ég hef nokkrum sinnum bloggað áður. Eina sem var frábrugðuð var að ég leyfði deiginu að hefast tvisvar og aðeins lengur en venjulega. Þannig varð deigið létt og loftkennt - og jafnvel myndaðist smá holrúm í brauðinu svo hægt var að koma hamborgurunum fyrir.

2 tsk af geri var sett í 300 ml af volgu vatni. 3 tsk af sykri er bætt saman við og gerið er vakið í sykurvatninu. Vökvinn fer fljóttlega að freyða - þá veit maður að gerið er tilbúið. 500-600 gr af hveiti er sett í skál, 2 tsk af salti og svo 2 msk af olíu. Gerinu er svo bætt hægt og bítandi á meðan hveitinu er hrært. Þegar deigið er orðið fallegt og mjúkt er það látið hefast í 2 klukkustundir. Það mun hefast það vel að það fyllir skálina. Svo er deigið lamið niður og hlutað niður í 9-10 bollur. Pennslað með jómfrúarolíu og nokkrum Nigella fræjum stráð yfir.  Nigella fræ eru aðallega notuð í indverska matargerð - notað í líkjöra eða sælgæti, einnig er því stráð yfir Peshawari naan brauð. Ég átti þau til og ákvað að prófa þau. Bollurnar voru svo látnar hefast í í 30 mínútur á meðan ofninn er að hitna. Bakað í 20 mínútur við 200 gráðu hita.

Aioli er skemmtilegt að gera - en það er erfitt - ég ætlaði að handþeyta þetta saman en gafst fljótt upp og sótti töfrasprota með þeytaraframleggingu...alger aumingi. Eitt stórt hvítlauksrif er maukað í morteli og sett í skál með 2 eggjarauðum og vænni teskeið af Dijon sinnepi. Þetta er þeytt saman. Svo er extra jómfrúarolíu hellt saman við jafnt og þétt í lítilli bunu - alls um 250 ml af olíu. Mikilvægt er að þeyta standlaust - annars mun þetta skilja sig og verða ólystugt. Við þetta var svo blandað 15 laufum af smátt söxuðu basil og 1/6 búnt af smátt saxaðri steinselju. Saltað og piprað og leyft að standa í 45 mínútur.

Fylltir sveppir er mjög einfaldur réttur sem hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Pabbi hefur verið mjög lunkinn við að gera þennan rétt. Hann breyttist alltaf - og er það háð því hvað er til hverju sinni. 12 stórir sveppir og hreinsaðir og stilkurinn og mesta af innvolsinu hreinsað út. Innvolsið var svo saxað niður ásamt 1/2 rauðlauk. Steikt á pönnu með smá hvítlauksolíu. 1/2 glasi af hvítvíni er sett út á og soðið niður, svo er 2 msk af rjómaosti bætt saman við. Hrært vel saman. Saltað og piprað og svo eru sveppirnir fylltir með þessari sveppa, lauk og rjómaostsfyllingu. Smá flís af gráðaosti er svo sett ofaná og bakað í ofni í 20 mínútur.

Sæt kartöflufranskarnar voru ljúffengar. Sætar kartöflur voru flysjaðar og skornar niður í svona klassískt útlítandi franskar. Sett í eldfast mót. Dash af jómfrúarolíu hellt yfir og svo saltað og piprað. Bakað í ofni í 30 mínútur - eða þar til þær verða mjúkar og fallegar.

Með þessu er borið fram rauðvín og bjór - alveg frábært!!!No comments:

Post a Comment