Tuesday 13 March 2007

Einfalt tómatpasta fyrir vakt

Vaktavika framundan. Alltaf frekar gaman á vöktunum - mánudagar eru alltaf ansi hektískir á bráðamóttökum. Fólk virðist bíða fram yfir helgina og koma svo á mánudegi - það gerir mánudagsvaktir ansi stífar en á sama tíma mjög skemmtilegar. Unglæknar fá frí fyrir vaktirnar sem byrja kl 1530 og standa yfir nóttina. Náði að bregða mér í ræktina og elda mér svo síðdeigismat til að vera nú vel undirbúinn fyrir fjörið á hjartamóttökunni.

Einfalt tómatpasta

Gott pasta (Fabrizza di Rustichella) er soðið í miklu söltuðu vatni og smá olíu skv leiðbeiningum.

Á meðan pastað sýður er sósan undirbúin. 4 hvítlauksrif smátt skorin og hituð í olíu á pönnu. Þegar þau fara að steikjast er 1 dós af niðursoðnum söxuðum tómötum sett út á og hitað upp. Við þetta er bætt 1/2 dós af tómatpuré. Saltað og piprað. 1/6 búnt af saxaðri steinselju, 1/2 tsk af þurrkuðu óreganó, og eins og hnífsoddur af chilli dufti. Ef sósan er of súr má ná góðu jafnvægi með því að bæta tómatsósu útí.

Þegar pastað er orðið al dente er vatninu hellt frá og sósan sett í staðinn og hrært vel og látinn standa í 2 mínútur.

 Borið fram með nýrifnum parmesanosti og saltað og piprað eftir smekk. Einfaldur en góður réttur og ekki sakar að hann er mjög fljótlegur.

 


No comments:

Post a Comment