Friday 23 March 2007

Chillihlaup Þorbjargar hjúkku á St. Jósefs

Ég var að vinna á St. Jósefsspítala frá nóvember byrjun fram til áramóta. Þetta var hluti af framhaldsnámi mínu í lyflækningum á Landspítalanum. Það var ánægjulegt að breyta um umhverfi og koma í annað og léttara andrúmsloft eins og oft ríkir á minni stofnunum. Það er alveg frábært starfsfólk sem vinnur á þessum stað og ég held að þeir sjúklingar sem leggist inn á spítalann finni það að þarna er gott að safna kröftum og jafna sig á veikindum.

Eins og víða annars staðar finna áhugamenn um mat og matseld annað fólk sem hefur sama áhugamál. Þorbjörg hjúkrunarfræðingur er ekki bara góð hjúkka heldur er hún líka frábær í sultugerð - hún kynnti mér fyrir þessu ljúfenga hlaupi - gaf mér tvær krukkur - annars vegar hreint chillihlaup og svo sólberja- og chillihlaup. Bæði ofboðslega góð.

Ég hef verið að nota þetta chillihlaup bæði með villibráð og núna í gær með kjúkling með rjómaosti - ljúffengt.

Chillihlaup Þorbjargar

Þrjár rauðar papríkur eru kjarnhreinsaðar og 15 rauðir Blue Dragon hot chilli piprar (sem lagðir hafa verið í bleyti í sjóðandi vatn í nokkrar mínútur (fiskaðir svo upp úr vatninu)) eru maukaðir í matvinnsluvél. Svo er maukið sett í pott með 1/2 bolla borðediki og 5 1/2 bolla af sykri og hitað af suðu og soðið í 10 mínútur. Svo er 5 tsk sultuhleypi bætt saman við og soðið í mínútu og hrært á meðan. Sett í hreinar krukkur og lokað og kælt. Ef notaður er ferskur chilli - er hann kjarnhreinsaður eins og papríkan - í staðinn fyrir 15 þurra eru 10-11 stk af ferskum notaðir í staðinn.

Einnig er gott að bæta tilbúnu sólberja eða rifsberjahlaupi saman við þegar chillihlaupið er tilbúið. Eins mætti sjá fyrir sér ýmsa ferska ávexti fara saman við eins og jarðaber, hindber eða ferskt rifs.

Bon appetit.


No comments:

Post a Comment