Tuesday 29 September 2015

Nýr (og kannski ekki) rækjukokteill ala mode


Núna erum við búin að vera einn mánuð í Englandi. Ég er búinn að vera í fríi svona að mestu ef frí skal kalla. Hef reynt að sinna skrifum þar sem ég er að undirbúa bók sem á að koma út á næsta ári þannig að ég hef verið að reyna að skrifa eins vel og mikið og ég get. Ég er líka að reyna drattast áfram með rannsóknarverkefnið mitt af afar veikum mætti.

Ég flaug fyrir skemmstu til Svíþjóðar þar sem ég mun vinna á gigtarmóttöku í Halmstad áður en ég fer til Íslands til að elda fyrir brúðkaup kærra vina okkar hjónanna, Hafdísar og Magnúsar. Síðustu helgi prufukeyrðum við matseðilinn. Þetta var einn af forréttunum sem við prófuðum - hann var með í fyrstu bókinni minni - Tími til að njóta.

Ég fékk góða aðstoð frá föður mínum, bróður og svo vini okkar allra við að framreiða máltíðina. Restin af fjölskyldunni og gestir voru í dómnefnd - og samþykktu matseðilinn.

Nýr (og kannski ekki) rækjukokteill ala mode

Þessi réttur varð til eftir minni þegar ég hafði smakkað líkan rétt í matarboði hjá vinafólki okkar. Hann var ferskur og safaríkur með ljúffengri sósu. – Svo ljúffengur að Snædís stakk upp á því að kannski myndi hann sóma sér vel í bókinni. Og það gerir hann svo sannarlega.

500 g rækjur
½ rauðlaukur
1 hvítlauksrif
½ græn paprika
½ gul paprika
½ rauð paprika
safi úr einni sítrónu
handfylli steinselja eða kóríander
1/2 rauður chili
1 mangó

200 ml sýrður rjómi
2 msk taílensk chili-sósa
heill chili-pipar
salt og pipar

Gerið svona;


Skerið laukinn, hvítlaukinn og paprikurnar og chili piparinn í litla bita og setjið í skál.

Saltið og piprið og setjið saman við safa úr heilli sítrónu.

Flysjið mangó og skerið aldinkjötið í litla bita og bætið í skálina ásamt handfylli af smátt skorinni steinselju (eða kóríander).

Skolið rækjurnar og bætið út á grænmetið og mangóið. Hrærið vel saman og látið standa í ísskáp til að bragðið nái að blandast vel saman.

Sósan er einföld. Hrærið saman öll hráefnin – hugaðir hafa fræin úr chili-piparnum með en þeir sem vilja hafa sósuna mildari fjarlægja þau ásamt hvíta þræðinum sem þau hanga á.




Tuesday 15 September 2015

Dásamlegur bláberjaskyrbúðingur með ferskum bláberjum

Það er búið að vera mikið um að vera hjá fjölskyldunni síðastliðnar vikur. Ég fór í leyfi frá gigtardeildinni í Lundi í lok júni og hóf störf sem íhlaupagigtarlæknir í Halmstad. Fór síðan í síðbúið sumarleyfi (ef leyfi skyldi kalla) og við pökkuðum niður húsinu okkar í snarhasti og sendum til Brighton í Suður-Englandi þar sem konan mín, Snædís, er að fara hefja framhaldsnám í sálfræði nú í haust. Ég finn mér vonandi einhverja vinnu á meðan! 

Annars hef ég í nógu að snúast. Það er að ótrúlega mörgu að hyggja þegar verið er að flytja á milli landa en með góðu skipulagi, smá kaos og og miklum vilja hefst þetta allt saman! Yngsta dóttirinn, Ragnhildur Lára, er komin inn á leikskóla. Vilhjálmur Bjarki í grunnskóla og táningurinn, Valdís Eik einnig. Ég sit ennþá heima, er kominn með lækningaleyfi - búinn að sækja um nokkur störf - en það liggur ekkert á þar sem ég er líka byrjaður að skrifa þriðju matreiðslubókina sem verður gefinn út á næsta ári. Meira um það síðar!

Nú er farið að hausta og þá fara margir í berjamó. Og þó svo að krækiberin sé góð þá er fátt betra en að komast í almennilegt bláberjalyng. Og þetta er ein uppástunga.

Dásamlegur bláberjaskyrbúðingur með ferskum bláberjum 

Þetta er ótrúlega einföld uppskrift og tekur engan tíma að undirbúa! 

Fyrir 8-10

800 gr skyr
500 ml rjómi
6-8 msk ósykruð bláberjasulta 
4 gelatínblöð (4 tsk gelatín)
150-200 gr fersk bláber

Hrærið sultunni saman við skyrið og blandið því saman við þeyttan róma. Leysið síðan gelatínið upp í köldu vatni og þegar það er að fullu uppleyst hrærið þið það vandlega saman við rjómaskyrsblönduna. 

Næst er að setja rjómaskyrsblönduna í viðeigandi form og láta stífna í kæli í 3-4 klukkustundir. Áður en búðingurinn er borinn fram er hann skreyttur með hrúgu af bláberjum!