Wednesday 28 February 2007

Svikinn héri með sætkartöflumús

Ég hef ekki oft gert svikinn héra í minni búskapartíð. Mamma var ansi lúnkinn við þetta og þessi réttur var alltaf frekar vinsæll á mínu heimili. Fljótlega eftir að ég fór að búa var ég farinn að stunda mötuneyti Landspítalans og þar var stundum á boðstólum réttur sem hafði sama nafn, nema hvað ólíkt matnum hennar mömmu var maður illa svikinn af svikna héranum á landspítalanum...þvílíkur a%&# viðbjóður. Landspítala svikni hérinn er ekki heldur bara mjög vondur heldur líka mjög ljótur matur. En nóg um það.

 

Svikinn héri með sætkartöflumús

Svikinn héri er þægilegur matur að elda. Þetta er fljótlegt að undirbúa matinn og yfirleitt heppnast hann vel. Í þetta sinn setti ég 500 gr af nautahakki, 1 smátt skorinn rauðlauk, 5 hvítlauksrif, smá vegis tómatpaste, 1/2 búnt af steinselju, 50 gr af brauðmylsnu, 2 egg, salt, pipar, 1 tsk oregano og 1/4 bolli ristaðar furuhnetur. Þetta er svo hnoðað saman og sett í eldfast mót og mótað eins og brauðhleif. Ég setti 2 þykkar sneiðar af Camenbert osti í miðjuna og lokaði svo með kjötdeiginu. Svo er beikon lagt ofan á og bakað í 180 gráðu heitum ofni 25-mín (kjarnhiti 71 gráða).

Með þessu var gerð sætkartöflumús. Ég átti fimm frekar litlar sætar kartöflur og nokkrar venjulegar kartöflur. Þetta var soðið á hefðbundinn hátt, flysjað og svo maukað með 1 msk af rjómaosti og smávegis salti og pipar. Skreytt með steinselju.

Þetta var borið fram með fersku salati; klettasalat, konfekttómatar, smá paprika, fetaostur og nokkrar radísur. Alveg ágætt.

Ég ætlaði að gera sósu með matnum. Byrjaði ágætlega með lauk, hvítlauk, niðursneiddum sveppum, vatni, krafti - aðeins of mikið af krafti. Ætlaði svo eitthvað að djassa þetta upp með Dijon sinnepi en setti allt of mikið - eftir þetta var þetta tapað stríð - endurlífgun hófst kl 18:56 og var öllu tjaldað til, sultum, rjómaosti, pipar, steinselju, gráðaosti - ekkert gekk - sósan var úrskurðuð látin rétt áður en maturinn var borin á borð - 19:23.

Maturinn bragðist vel - allt nema sósan náttúrulega. Dóttir mín var sérstaklega ánægð að fá beikon með matnum. Beikon hefur aldrei skemmt neitt.

Sunday 25 February 2007

Kjúklinga jógúrt tandori með haldi kartöflum og nanbrauði

Tengdaforeldrar komu í mat. Tengdapabbi minn segist aldrei kunna að meta kjúkling - þetta hefur leitt til þess að ég legg sérstakan metnað í að elda fyrir hann kjúklingamáltíðir. Hann borðar allt á sig gat og ég er farinn að halda að hann segi þetta bara til að storka mér og fá spes kjúklingamáltíðir.

Tandori jógúrt kjúklingur með haldi kartöflum og nan tandori

Jæja-  það var ákveðið að reyna fyrir sig með indverska matargerð. Fór að versla á miðvikudaginn og keypti kjúkling og nokkra kjúklingaleggi. Á miðvikudagskvöldið var ég í einhverju stuði og lagði kjúklinginn í marineringu. Setti 2 dósir af hreinni jógúrt, 2 msk af tandori masala (leiðrétti það sem stóð áðan), 1/2 msk af papriku dufti, 1 tsk af kóríander dufti og 1 tsk af garam masala og hrærði vel saman. Lagði kjúklingin í þessa jógúrt marineringu í 2 daga. Kjúklingurinn var svo færður í eldfast mót, saltaður aðeins, og svo bakaður við 180 gráðu hita í 30 mínútur eða þar til kjarnhiti varð 82 gráður, þá var kveikt á grillinu og yfirborðið ristað. Þegar kjúklingurinn var tilbúinn var ferskum kóríander dreift yfir og borið á borð.

Eina sem ég hefði eftirá viljað breyta væri að sykra aðeins kjúklingamarineringuna þar sem hrein jógúrt er aðeins súr á bragðið - Marineringin var samt mjög góð en ég er sannfærður að kjúklingurinn hefði verið betri ef ég hefði sykrað þetta aðeins.

Með þessu var kartöfluréttur sem flestum líkar mjög vel - kartöflur eru soðnar, þær teknar úr vatninu og flysjaðar. Svo er olía sett í pott og 1 msk af sinnepsfræum sömuleiðis. Sinnepsfræin eru svo poppuð og svo er 1 1/2 tsk Haldi (túrmerik) bætt saman við. Hrært aðeins og svo er kartöflunum bætt saman við og þær þaktar með túrmerik/sinnepsfræa blöndunni. Skreytt með ferskri steinselju.

Einnig var nanbrauð í boði. Ég hef áður birt haldi kartöflur uppskrift af nanbrauði og "copy-paste"yfir í þessa færslu. 500-600 ml af hveiti er sett í skál, smávegis af fínu salti og svo 2 msk af olíu. 3 tsk sykri er leyst upp í volgri mjólk og svo er gerið sett saman við og vakið í mjólkinni. Mjólkurgerblöndunni er svo blandað saman við hveitið og hrært saman. Um 200 ml af Ab mjólk (eða jógúrt, eða fiftyfifty mjólk og Ab mjólk) hrært saman við og smávegis mjólk. Deigið er hnoðað þar til það verður mjúkt og meðfærilegt og hætt að klístrast við hendurnar á manni. Látið hefast í 30 mínútur (lengur ef það er hægt). Smábitar eru svo klippnir af deiginu og flattir út með fingurnum í lófastórar þunnar kökur sem eru pennslaðar með smávegisolíu og saltaðar með Maldon salti og svo þurrsteiktar á heitri grillpönnu. 

 Jafnframt var þessi matur borin fram með fersku salati með klettasalati, tómötum og jarðaberjum. Með þessu var drukkið Tomassi rauðvín. Vel heppnuð máltið. nan


Friday 23 February 2007

Valdísarbrauð

Valdís að baka Dóttur minni finnst ákaflega gaman að hjálpa mér í eldhúsinu. Sérstaklega hefur hún gaman af því að hjálpa mér að baka. Í kvöld á meðan ég var að undirbúa matinn fékk hún að leika sér við baksturinn. Hún er 6 ára gömul og lék sér að þessu - eina sem ég gerði var að segja henni hvað mikið af hinu og þessu átti að fara í brauðið. Við ákváðum saman að gera hvítt formbrauð - gerum kannski næst heilhveitibrauð. En þetta var svo einfalt að hún lék sér að þessu - og brosti út af eyrum.

2 tsk af geri er vakið í 300 ml af volgu vatni. 3 tsk af sykri er bætt saman við og gerið er vakið í sykurvatninu. 500-600 gr af hveiti er sett í skál, 2 tsk af salti og svo 2 msk af olíu. Gerinu er svo bætt hægt og bítandi á meðan hveitinu er hrært. Þegar deigið er orðið fallegt og mjúkt er það látið hefast í 45 mínútur. Svo er deigið lamið niður og flatt aðeins út, rúllað upp og sett í form og látið hefast í 30 mínútur á meðan ofninn er að hitna. Bakað í 30 mínútur við 200 gráðu hita.

Njótið. Valdísarbrauð

 P.s. Þetta brauð heppnaðist alveg rosalega vel. Dóttir mín var ákaflega stolt. Ég rifjaði upp ferð okkar hjóna til Nizza Monferato í Piemonte héraði í Norður Ítalíu. Þar bjó vinafólk okkar og var að reyna fyrir sér í víngerð - við fórum oft á fallegt kaffihús við aðaltorg þessa litla bæjar og ég fékk mér nokkrum sinnum samloku - panini e mozzarella, pomodore, basilico - kalde. Ég reyndi að herma eftir og fékk mér samloku (úr Valdísarbrauði) í grilli með mozzarellasneiðum, tómat og basil, salti og pipar. Eina sem vantaði var Spumante og tvöfaldur expresso. Magnifico


Wednesday 21 February 2007

Gufusoðin bleikja með grænmeti





Þessi uppskrift er að nokkru leiti fengin úr bók Rick Stein - Seafood. Rick Stein er breskur kokkur sem fyrir 30 árum síðan stofnaði fiskveitingahús í Padstow í Bretlandi. Hann varð fljótt afar vinsæll og vinsældir þessa veitingastaðar leiddu til þess að hann opnaði fleiri veitingastaði, gistihús og matreiðsluskóla. Hann byrjaði fyrir nokkrum árum í sjónvarpi og hefur gert nokkrar frábærar sjónvarpsseríur og gefið út nokkrar matreiðslubækur - sem ég á eitthvað af. Hann hefur verið með þætti sem leggja áherslu á sjávarfang en seinustu ár hefur hann verið að ferðast um Bretland og kynna breska matargerð - sem mörgum finnst ansi fátækleg - en er í raun alveg mögnuð. Eins og þið heyrið - þá fíla ég þennan kokk alveg í ræmur.

Bókin Seafood fjallar um hvernig umgangast á sjávarfang - hvernig á að verka það og svo fylgir fjöldinn allur af uppskriftum. Auðvelt er að læra hvernig á að matreiða fisk, ég hef gert nokkrar uppskriftir úr þessari bók og þær eru allar ofboðslega góðar.

Gufusoðin bleikja með grænmeti.

 

Fyrst voru 4 litlar gulrætur flysjaðar og niðursneiddar, svo 2/3 kúrbítur skorinn niður í sneiðar og svo í fernt, 1 rauðlaukur skorinn í sneiðar og svo 3 sellerí stangir í bita. Fyrst voru 5 smátt söxuð hvítlauksrif hituð í 10 gr af smjöri og olívuolíu og þegar hann var farinn að steikjast var grænmetinu skellt útáf. Steikt í smástund þar til það var gljáandi og þá var 1 glasi af góðu hvítvíni (Alsace - Gentil Hugel) sett útá grænmetið og soðið niður. Svo var 500 ml af kjúklingasoði hellt yfir. Saltað og piprað og soðið nær alveg niður - þannig að vökvinn rétt umlyki grænmetið. Svo er fjórum silungsflökum ca 120 gr hvert raðað ofan á. Saltað og piprað og niðurskornum basillaufum dreift yfir. Lækkað undir hitanum og látið malla (simmer) í ca 7-10 mínútur með lokið á - eða þar til bleikjan er tilbúinn. 

Þá er bleikjan lögð á diska og smávegis af ferskum sítrónusafa er kreist yfir. Þvínæst er örlítil smjörklípa (10 gr) sett útí grænmetið/soðið á pönnunni og hitað hratt upp aftur. Við þetta þykkist sósan og verður gljáandi og falleg.

Grænmetinu og sósunni er síðan dreift yfir fiskinn og er þetta borið fram með hrísgrjónum og smábrauðhleif.

Þetta er ákaflega góður réttur - eiginlega það góður að það mætti alveg bera hann fram sem aðalrétt í matarboði og allir væru glaðir.
Njótið vel! 

Monday 19 February 2007

Heimagerðar fiskibollur með heitu vetrarsalati

Maturinn í kvöld var í anda dagsins. Þar sem það er nú bolludagur var málið að gera einhvern bollumat. Ég ákvað að búa til fiskibollur. Ég hef aldrei gert fiskibollur áður en ég hef tvisvar gert fiskbúðing. Það hljómar ekki mjög "glamourous" að gera fiskibollur - ég gat bara ekki hugsað mér að kaupa tilbúnar fiskbollur í dós - þær eru nú varla mannamatur og svo er það er eitthvað við að kaupa svona hálftilbúinn mat úr kjöt og fiskiborðum búðanna. Ég er nú bara þannig að mig langar til að vita hvað er að fara í matinn minn.

 Fékk ráðleggingar frá mömmu...hún er mikill viskubrunnur þegar kemur að heimilismat. Ég fór eftir því sem hún sagði í grunnatriðum - en ég átti ekki allt sem hún nefndi - það má segja að ég hafi hlýtt henni hvað hlutföll snerti en breytti talsvert útaf.

Heimagerðar fiskibollur með heitu vetrarsalati fiskibollur

1 kg af ýsuflökum, 7 hvítlauksrif, 1 rauðlaukur, 1 lítill hvítur laukur eru sett í hakkavél. Við þetta er blandað 2 msk af ólívuolíu, 2 eggjum, 1 kúfuð tsk af Dijon sinnepi, 4 tsk af fersku majoram og 20 blöð af söxuðu basil. Hrært vel saman. 1/2 bolli af hveiti og 1/2 af maizenamjöli er bætt úti og blandað vel saman. Saltað og piprað. Smávegis af smjöri og ólívuolíu er hituð á pönnu og 2 niðursneiddir rauðlaukar eru steiktir þar til þeir eru farnir að taka lit. Lagt til hliðar. Bollurnar eru útbúnar þannig að hver og ein passar í matskeið og steikt þar til gullinbrúnar. Lagt í eldfast mót og lauknum dreift yfir. Sett í 180 gráðu heitan ofn í 10 mínútur.

Tvær niðursneiddar sætar kartöflur, 1 haus af spergilkáli eru soðin í söltuðu vatni. Vatninu hellt frá og grænmetið sett í skál. 1/4 af gullosti er skorinn niður og dreift á heitt grænmetið. Smávegis jómfrúarolíu skvett yfir og saltað vel og piprað. vetrarsalat Gullosturinn á eftir að bráðna og mynda salatdressingu ásamt olíunni - mjög gott.

Með þessu var gerð sýrðrjómasósa; 1 dós af 10% sýrðum rjóma, tæplega 1 msk af hlynsírópi, lauf af þremur greinum af majorami, safa úr hálfri sítrónu og 1 tsk Dijon sinnepi. Hrært vel saman.

 Maturinn heppnaðist vel - fiskibollurnar voru mjög góðar - hugsa að ég muni elda þær einhvern tíma aftur - utan þessa bolludagsumhverfis.


Sunday 18 February 2007

Grófar speltbollur með haframjöli

Það var fátt um fína drætti í mínu eldhúsi um helgina. Unglæknadagurinn var á laugardaginn og hófst um morguninn í húsakynnum Vistor í Hörgatúni og stóð fram eftir degi. Fyrirlestrar voru framúrskarandi. Um kvöldið var svo dinner og mæting var frábær. Stemmingin góð og félagskapurinn meiriháttar. Einhver flensa virðist þó vera að herja á mann í morgunsárið. Vegna þessa hefur lítið verið að ske í eldhúsinu mínu um helgina. Mamma og pabbi buðu okkur í mat í kvöld og það var frábært. Lambaribeye með ofnbökuðu grænmeti og grilluðum portobellosveppum. Meiriháttar. Ég held að pabbi sé að vélrita uppskriftina svo ég geti látið hana á netið.

Í anda þess að það er bolludagur á morgun gerðum við feðginin brauðbollur í dag. Valdís dóttir mín fékk að velja hvaða hráefni fór í bollurnar og þetta varð úr.

Grófar speltbollur með haframjöli grófar speltbollur

300 ml af vatni voru hitaðir í ca 40 gráður. Tvær teskeiðar af geri sett út í og sirka 30 gr af sykri. Við þetta vaknar gerið. 2 bollar speltmjöli, 2 bollar af hvítu hveiti, 1 bolli hveitiklíð, 1/2 bolli bankabygg og 1/2 haframjöl var blandað saman í skál, 2 tsk af salti og 3 msk af jómfrúarolíu var hrært saman við. Gerblöndunni var svo varlega hrært saman við og þegar mjúkur klumpur hafði myndast var því leyft að hefast í rúma eina klukkustund.

Búnar voru til bollur, haframjöli stráð yfir og bakaðar við 180 gráður í rúmar 15 mínútur. Mjög fínar.


Friday 16 February 2007

Sítrónubaka - Crostata di Limone

sítrónubaka Þessi uppskrift er fenginn frá tveimur frábærum kokkum sem reka veitingahús í London sem heitir River Cafe. Hef farið að borða þar tvisvar og aldrei verið svikinn. Fór þangað fyrst með Ólafi Hólm og Elvu Brá konu hans þegar við fórum að heimsækja þau þegar þau bjuggu í London.

The River Cafe er frábært veitingahús - þemað er ítalskt eldhús - rústic og gróft og hráefnið er í lykilhlutverki. Matseðlarnir breytast á hverjum degi - háð því hvaða hráefni leit best út þann morguninn á markaðinum. Veitingahúsið er í eigu Ruth Rogers og Rose Gray og hafa þær stöllur gefið út amk fimm matreiðslubækur auk þess að hafa gert sjónvarpsþætti. Bækurnar og veitingahúsið er meiriháttar - þættirnir fremur mínímalístískir og einhvern vegin í ósamræmi við hið áðurnefnda. Jamie Oliver var kokkur á þessu veitingahúsi og var uppgötvaður af BBC 4 þegar hann var 22 ára.

Á þessu veitingahúsi hef ég smakkað tvær kökur. Önnur þeirra er þessi, ekki bara er hún bragðgóð, heldur ilmar hún svo vel, svo er hún bara svo falleg að horfa á. Maður bara tímir varla að skera hana - en þegar upp í munninn er komið - þá sér maður sko ekki eftir því. Þessi uppskrift er úr bók þeirra - ég held þeirri fyrstu - The River Cafe Cook book.

Sítrónubaka sítrónubökusneið  - Crostata di Limone

350 gr af hveiti, smávegis af salti, 175 gr af ósöltuðu smjöri er blandað saman í matvinnsluvél. Svo er 100 gr af flórsykri og 3 eggjarauður og blandað saman. Þetta er svo vafið í matarfilmu og geymt í ísskáp í allavega 1 klukkustund. Deiginu er síðan rifið niður í eldfast mót sem hefur verið verið pennslað með olíu og pressað niður með fingrunum að botninu og með hliðinum. Bakað í ofni sem hefur verið forhitaður í 180 gráður í 20 mínútur. Tekið út og leyft að kólna. Á meðan botninn kólnar er fyllingin undirbúinn.

350 gr af sykri, 6 egg, 9 eggjarauður, safi af 7 sítrónum og fínt saxaður sítrónubörkur af öllum sjö sítrónum (bara þetta gula - ekkert af þessu hvíta þar sem hann er beyskur og rammur á bragðið og ef hann fer með er kakan ónýt - þekki það af eigin reynslu) er blandað saman í pott, og hrært vandlega saman yfir lágum hita. Því næst er 150 gr af ósöltuðu smjöri bætt saman við og hrært vel saman - fljótlega fer blandan að hitna og þá er 150 gr af ósöltuðu smjöri sett til viðbótar og mikilvægt að halda áfram að hræra svo blandan "curdle-ist" ekki. Þegar þetta er orðið þykkt og gljáandi er blandan tekin af hitanum og haldið áfram að hræra þar til hún verður volg.

Sítrónueggjablandan er hellt yfir skelina sem núna hefur kólnað og bakað við 230 gráður (forhitað) þar til yfirborð bökunnar fer að verða brúnt. Þetta á ekki að taka meira 6-8 mínútur. Mikilvægt að fylgjast vel með bökunni á meðan hún er að bakast þar sem auðvelt er að brenna yfirborðið.

Þessi baka er ansi rich - mikið smjör og mikill sykur - þessa á bara að gera einu sinni á ári - ef maður getur staðist það. Bakan dugar fyrir 10-12 manns og gott er að bera fram með þessu, kannski smávegis rjóma eða jafnvel vanillu ís.


Thursday 15 February 2007

Torta mexicana - mexíkósk tacoterta hlaðin góðgæti!

Þessi réttur er nú eiginlega fengin frá föður mínum. Hann gerði hann fyrst fyrir mörgum árum þegar gömlu hjónin voru að prófa sig áfram í mexíkóskri matargerð - pabbi var ferlegametnaðarfullur í þessu - gerði sínar eigin tortilla kökur sem hann grillaði í ofni eða á grilli. Alveg frábært! Við höfðum að sjálfsögu borðað oft burritos - eitthvað kjöt og blandað grænmeti vafin í tortillur eða taco skeljar. Eitt sinn raðaði hann þessu upp í tertu og bakaði í ofni þannig að osturinn bráðnaði yfir matinn. Úr varð þessi dýrindis góða útfærsla af einföldum burrito - torta mexicana (hann fékk hugmyndina - nafnið er mitt ©). Þessi réttur er einmitt kjörinn til að hreinsa út úr ískápnum, hálftómar krukkur - grænmeti á grensunni, allt má í raun flakka.

Torta mexicana
400 gr af nautahakki er steikt á pönnu og þegar það er steikt er smá season all, oregano, chilli duft, papriku duft, salt og pipar og 100 ml af vatni bætt saman við. Eins mætti nota svona tilbúnar kryddblöndur - þær eru oft ágætar. Blandað saman og vatnið soðið niður.

1 dós af hökkuðum tómötum með grænmeti (til frá Hunts), smávegis spicy salsa sósa og smávegis tómatsósa er blandað á pönnu og hitað upp. Smakkað til. Bragðbætt eftir smekk.

Grænmeti er skorið niður, auðvitað má nota hvaða grænmeti sem er - þetta var sem ég átti til; 1 portobello sveppur, 1/2 avacado, 1 rauðlaukur, smávegis iceberg salat, 1 tómatur, 1/3 kúrbítur, 1/2 lítil dós gulur maís, 1/2 rauð paprika, nokkrar grænar ólífur.

Tortillu kökum er raðað á bökunarpappír og svo er tertan útbúinn, á hverja hæð fer smá sósa, svo kjöt og grænmeti til skiptis. Kökur lagðar á milli hæða - þrjú til fjögur lög. Á efstu hæðina fer svo aftur sósan og litríkt grænmeti og svo niðurrifinn ostur. Þetta er svo sett í 180 gráðu heitan ofn og bakað í 15 mín eða þar til osturinn er bráðinn og girnilegur. Skreytt með ferskum kóríander. 


Bon appetit! 

Wednesday 14 February 2007

Þriggja sveppa risotto með ensku beikoni og basil

Risotto er frábær matur. Ég hef eldað risotto ansi oft síðan að ég byrjaði að búa. Ég kynntist þessari matseld fyrst þegar ég fór til norður Ítalíu fyrir æði mörgum árum síðan. Svo sá ég Jamie Oliver elda þetta í fyrstu sjónvarpsþáttum sínum - the naked chef - og þar sá maður hve einfalt þetta er - eina sem krefst af manni er það að þurfa að hræra stöðugt á meðan eldað er. Eldamennskan tekur frá upphafi til enda um 30 mínútur. Og á köldu vetrarkvöldi er fátt betra en heitt risotto, nóg af parmesan og kannski örlítið hvítvínstár. 
Ég átti aflögu eftir matarboð helgarinnar tvo kjúklinga sem ég hafði að mestu hreinsað kjötið af. Ég ákvað að nota afganginn og búa til kjúklingasoð. Ég gerði þetta á sunnudagskvöldið á meðan ég horfði á sjónvarpið þannig að ekki var fyrirhöfnin mikil. Setti 2 kjúklinga í stóran súpupott, tvær flisjaðar kartöflur, 3 niðursneiddar gulrætur, 2 sneidda lauka, þrjár cellerístangir, 10 piparkorn, 3 lárviðarlauf og salt. Hitað upp að suðu og látið malla í 2-3 klst með lokið á. Svo er lokið tekið af og soðið soðið aðeins niður. Sett í ílát og geymt í ískáp, eða í frysti eftir því hvenær maður ætlar að nota það. 

Þriggja sveppa risotto með ensku beikoni og basil

2 litlir laukar, 1 lítill skarlottu laukur, 5 hvítlauksrif, 1 sellerí stöng eru söxuð niður smátt og steikt á pönnu upp úr 30 gr af smjöri í smá jómfrúarolíu. Þegar grænmetið er búið að svitna aðeins á pönnuni eru 400 gr af Arborio (eða Carneroli) hrísgrjónum sett útí og hituð með grænmetinu. Hrært stöðugt. Þegar grjónin verða aðeins gegnsæ við jaðrana er 1 stóru hvítvínsglasi hellt útá og hvítvínið soðið niður yfir meðalhita. Hrært stöðugt. Lyktin á þessum tímapúnti er dásamlegt. Þarna fara hrísgrjónin að losa út sterkjuna sem er í þeim og við þurfum stöðugt að vera að bæta heitu soði yfir - sjóða svo niður - hræra stöðugt þar til grjónin eru orðin aldente - sem þýðir að það er smá bit í miðjunni á þeim. Þetta tekur um 15-20 mínútur. 

5-7 mínútum áður en risottoið er tilbúið er 3 niðursneiddum portobello sveppum, 5-6 stórum niðursneiddum flúðasveppum og 6-7 niðursneiddum kastaníusveppum bætt saman við. Risottoið mun verða aðeins brúnleit fyrir tilstuðlan sveppana og þeir verða mjúkir og girnilegir. Smakkað til og saltað og piprað ef þarf. Á meðan er 5 sneiðar af ensku beikoni steikt á pönnu þar til það er orðið stökkt og svo tekið til hliðar og skorið í strimla. Þegar risottoið er tilbúið er 70 gr af rifnum parmesanosti og smásmjörklípu hrært saman við og látið standa í 2 mínútur - þetta verður til þess að það þykknar upp vegna ostsins og verður gljáandi af smjörinu. Svo er því hellt í skál - beikoninu dreift yfir og 20 rifnum basillaufum sáldrað yfir. Risotto á að leka á diskinum - það á ekki að halda formi sínu - þá veit maður að það er perfect.

Klettasalat var lagt á flatan disk, 1/2 avacadó var sneitt niður í þunnar sneiðar og lagt ofan á. Nokkur sneidd jarðaber dreift yfir og svo 1/2 mozzarella ostur rifin yfir. Smávegis crema de balsamico dreift yfir. Saltað og piprað.

Borið fram með grófu baguette. Mjög vel heppnuð máltíð. Sveppirnir, risottoið og stökkt beikonið pössuðu ákaflega vel saman.




Monday 12 February 2007

Ferskt og reykt laxacarpaccio með rifsberjum og chilli

Eins og komið hefur fram í færslu frá því í gær var ég með matarboð í gær - var með þríréttað. Er búinn að blogga um aðalréttinn og eftirréttinn. Forrétturinn að þessu sinni var nýr á nálinni. Ég hef verið að fylgjast með tveimur skandinavískum kokkum upp á síðkastið. Þau eru norðmaður að nafni Andreas Viestad og svo sænsk kona að nafni Tina Nordström. Þetta eru þekktir sjónvarpskokkar. Fyrir nokkrum árum hófu þau sjónvarpsseríu sem fjallar um New Scandinavian cooking - fara í nýjar áttir með gömlu góðu hefðirnar. Ég hef séð nokkra af þessum þáttum á BBC food og þeir eru afar áhugaverðir.

 Ég sá Andreas Viestad elda þennan forrétt við bakka einhverrar laxár í Noregi - mjög intressant réttur. Það er talsvert síðan að ég sá þáttinn þannig að ég man ekki alveg hvað hann gerði en ég held að ég sé nokkurn veginn á réttum nótum. Hann notaði Lyngon ber - sem maður getur ekki nálgast nema í sultuformi - ég held að þau séu nokkuð lík ferskum trönuberjum. Hvað um það - ég notaði rifsber í staðinn.

Ferskt og reykt Laxacarpaccio með rifsberjum og chilli

 350 gr af ferskum laxi (helst villtum náttúrulega - en ég keypti sjóalinn eldislax) er skorinn niður í næfurþunnar sneiðar og lagður á flatan disk sem hefur verið pennslaður með jómfrúarolíu og smávegis af Maldon salti dreift yfir. Safi úr 1 sítrónu og 1 limealdin er hrærður saman og laxinn er pennslaður með safanum (sýran eldar í raun fiskinn og maður sér hvernig hann breytir um lit eftir nokkrar mínútur. Reyktum lax (sem tengdafaðir minn veiddi í sumar) var einnig skorinn í þunnar sneiðar og lagður með ferska laxinum. Svo var fínt saxaðri steinselju sáldrað yfir og svo smátt söxuðum chilli. Því næst var rifsberjum dreift yfir.

Borið fram með crema de balsamico og heimagerðu hvítlauksbrauði.

laxaforrétur


Sunday 11 February 2007

Kjúklingur Marbella og fjögurra berja kampavínszabaglione

Bauð gestum í mat í gær. Meiriháttar gaman - þó held ég að við höfum fengið okkur aðeins of mikið rauðvín. En rauðvín er svo gott - það bara refsar manni aðeins daginn eftir en það er ekki varanlegur skaði - þetta jafnar sig allt.

Við hjónun buðum Jóni Þorkatli, Álfhildi eiginkonu hans, Arnfríði kollega mínum og manni hennar Guðmundi. Þetta varð hin besta matarveisla og setið var að sumbli til að verða tvö í nótt. Gott fólk, gott spjall, gott rauðvín, talsverðir timburmenn. 

Ég var með þríréttað. Lax í forrrétt - blogga eitthvað um forréttinn á morgun.


 

Marbella kjúklingur er réttur sem mamma byrjaði að elda fyrir rúmum 10 árum síðan. Mamma hefur eldað þennan rétt mörgum sinnum og hann er alltaf algert success. Ég hef einnig gert hann nokkrum sinnum og hann hefur ekkert síður slegið í gegn í mínu eldhúsi. Þessi réttur er fengin úr matreiðslubók sem heitir The Silver Palate - og er alveg meiriháttar. Ég hef séð útgáfu af þessum rétt í íslenskri matreiðslubók sem heitir Hristist fyrir notkun eftir Guðbjörgu Gissurardóttur - skemmtileg matreiðslubók sem kom út árið 2002.

Best er ef maður getur látið kjúklinginn liggja í marineringunni í sólarhring - þá verður hann bestur en ég hef komist upp með að marinera hann ekki neitt - og hann var samt rosalega bragðgóður - en er betri ef hann fær að marinerast í ískáp yfir nótt.

Ég vík aðeins frá uppskriftinni eins og hún er í bókinni - ekki vegna þess að mín útgáfa er eitthvað betri - heldur vegna þess að ég á ekki bókina ennþá (er búinn að panta hana á amazon.com).

Kjúklingur Marbella og fjögurra berja kampavínszabaglione

2 heilir kjúklingar eru hlutaðir niður og settir í stóra skál. 150 ml af jómfrúarolíu er hellt útí, ásamt 75 ml af hvítvínsediki, 25 ml af balsamic ediki, 1 krukku af góðum grænum ólívum, 1 krukka af góðum svörtum kalamata olífum, helmingin af vökvanum af báðum olífunum, 20 döðlur, 35 niðurskornar sveskjur, 2 glös af hvítvíni, 70 gr af dökkum Muscovado sykri, 1 msk þurrt oregano, 1 búnt af ferskri steinselju og 2 saxaðir hvítlaukar. Látið marinerast í helst 1 sólarhring en ég lét nægja 8 klst í þetta sinn. Bitinum er svo raðað í eldfast mót, vökvanum af marineringunni er hellt með og dökkum Muscovado sykri er sáldrað yfir (húðin af kjúklingum mun aðeins standa upp úr vökvanum og mun karmelliserast í sykrinum). Bæti smá hvítvíni til viðbótar þannig að nógur vökvi sé með kjúklingum. Bakið í ofni við 180 gráður í ca 30-40 mínútur (eða þartil kjúklingur er orðin 82 gráðu heitur og farinn að karmelliserast. Þegar maturinn er tilbúinn er hann skreyttur með smávegis ferskum kóríander og mejoram.





Borið fram með Basmati hrísgrjónum sem eru eldaðar eftir leiðbeiningum og einnig fersku salati sem var útbúið á þann hátt að klettasalat var lagt á flatan disk, steinlaus blá vínber skorinn í tvennt dreift yfir, svo kúrbítsbitum sem hafði verið grillaður, saltaður og pipraður, gullostsbitum voru settir á heitan kúrbítinn, smátt saxaðri rauðri papriku var einnig dreift, ferskt basil skorið í strimla (julienne)yfir og svo muldum pecan hnetum. Í lokinn saltað og piprað og vætt með smá jómfrúarolíu.

Fjögra berja kampavíns Zabaglione

Þetta er frábær eftirréttur - bæði góður og fallegur. Þetta er ítalskur eftirréttur - þar sem hefð er fyrir því að nota Marsala - sem bragðmikið styrkt vín en ég notaði Peter Lehmann freyðivín Chardonnay/Pinot Noir blöndu sem er ákaflega bragðgott.

Það er lítið mál að gera þennan eftirrétt en hann krefst talsverðar fyrirhafnar. 8 eggjarauður og 1 bolli af sykri er blandað saman í skál sem er látin hvíla á vatnsbaði (vatn er soðið í potti og skálinn svo látin ofan - bara passa að skálinn liggi ekki í vatninu. Eggjarauðurnar og sykurinn er hrært vandlega saman þar til orðið glansandi og farið að freyða aðeins, þá er 2/3 bolli freyðivíni bætt útí varlega og 2/3 bolli rjómi. Þetta er svo þeytt stöðugt þar til blandað fer að þykkna talsvert (tekur 15 mínútur eða svo - þeyta stöðugt - annars verður þetta bara að ommilettu).

Fjórum tegundum af berjum; hindberjum, bláberjum, rifsberjum og niðurskornum jarðaberjum eru lagðar í form og eggjablöndunni svo hellt yfir. Látið kólna í um 1 klukkustund. Svo er nokkrum berjum bætt ofan á og perlusykri sáldrað yfir. Perlusykurinn er svo bræddur með logsuðutæki eða undir heitu grilli í eitt augnablik. 





Vesigú -





Friday 9 February 2007

Pavlova - eftirmatur guðanna


Umferðin á síðuna mína hefur aukist svakalega í dag. Mér brá frekar mikið þegar ég sá teljarann á síðunni um hádegisbil - þá höfðu 104 skoðað síðuna - miklu meira en venjulega...ég skildi ekkert í þessu - um kvöldmatarleyti höfðu yfir 300 skoðað hana. Ég átti ekki til orð, svo kom á daginn að það var linkað á mig af forsíðu mbl.is, það hlaut að vera skýring á þessu.

Þegar ég var þrítugur hélt ég stóra afmælisveislu - það komu um 70 manns í heimsókn og um kvöldið þá sameinuðum við nokkrar veislur, þrír kollegar sem áttum afmæli á sama tíma, í félagsheimili Týs í Skógahlíðinni. Nokkrir vinir mínir færðu mér frábæra gjöf, þau höfðu útbúið körfu með hreindýrakjöti, villiberjum, sultu, rjóma, rauðvíni - eiginlega allt til alls til góðrar villibráðarveislu. Mér fannst þetta alveg frábær gjöf - mér fannst ekkert annað koma til greina en að bjóða þessu góða fólki að njóta þessarar veislu með mér. Í því matarboði gerði ég Pavlovu - sem er stórkostlegur eftirréttur. Vinkona mín sem var í þessari veislu sem er að fara gifta sig á vormánuðum fannst hann svo góður að hún bað mig um að gera hann fyrir brúðkaupsveisluna sína! - No problem!!!

Pavlova er desert sem hefur farið sigurför í flestum saumaklúbbum - og miklu víðar - það sem er eiginlega best við hann er að það er nærri ómögulegt að klúðra honum - hann er það einfaldur að hann verður aldrei bragðvondur - eftirréttur guðanna. Ég sá þessa uppskrift fyrst í bók Nigellu Lawson sem heitir how to eat - hún kom út löngu áður en hún varð orðin megasjónvarpskokkur eins og hún er í dag. Frábær bók. Pavlova heitir eftir rússneskum dansara, frægri ballerínu sem fór víða um heim. Á ferð sinni um eyjaálfu árið 1926 var gerð henni til heiðurs þessi kaka - sem sennilega er upprunin frá Nýja Sjálandi - allavega er elsta uppskriftin sem fundist hefur frá 1933 í Ný-sjálenskri matreiðslubók.

Pavlova - eftirréttur guðanna
Þessi eftirréttur dugar fyrir átta manns og vel það - auðvelt er að helminga uppskriftina og þá dugar hún fyrir fjóra. En hún er það bragðgóð að líklega munu fjórir klára uppskrift fyrir átta.

8 eggjahvítur eru þeyttar í skál, með smá salti, þartil þær fara að freyða vel. Þá er 500 gr af sykri bætt útí - ekki allt í einu - gott að setja eins og 100 g í einu, og þeyttar þartil marensinn er orðin stífur og gljáandi. Því næst er 1/2-1 tsk af vanillu dropum, 4 matskeiðar af maizenamjöli, 2 tsk af hvítvínsediki og hrært varlega samanvið. Bökunarpappir er lagður á ofnplötu og marensinum dreift yfir plötuna. Ofn er forhitaður í 180 gráður og þegar marensinn er settur inni er hitinn lækkaður í 150 gráður og marensinn er bakaður í 1 klst 15 mínútur - 1 klst 30 mínútur. Marensinn mun blása út og verða gullinn og fallegur. Þegar marensinn er tilbúinn er marensinn tekinn út og leyft að kólna. Nigella slekkur á ofninum eftir 1 klst og korter og leyfir marensinum að kólna í ofnunum.

500 ml af rjóma er þeyttur og dreift yfir marensinn (marensinn mun aðeins falla saman við þetta - og það er allt í lagi). Því næst er einhverjum fallegum berjum stráð yfir. Ég hef gert þessa köku með ástaraldinum, jarðaberjum, brómberjum, hindberjum og þetta hefur aldrei klikkað. Síðustu 2 skipti hef ég stráð smávegis af perlusykri (eins og er notað í Creme brulee) yfir og brætt með gaslampa þannig að sykurinn karmelliserist. DELISSÍUSS!!!


Thursday 8 February 2007

Gúllas að hætti Snædísar!!!

Eiginkona mín tók að sér eldamennskuna í kvöld - ég og pabbi sáum um frágang. Mun aldrei sjá eftir því að hafa samið um að sjá um eldamennskuna - ekkert eins leiðinlegt og frágangur. Ég hef nefnt það nokkrum sinnum á netinu að Snædís konan mín er ekki mjög framtakssöm í eldhúsinu - en það sem hún eldar gerir hún vel - og gúllas er einn af þeim réttum sem hún gerir vel - það verður ekki frá henni tekið.

Mamma og pabbi komu í mat og ég sá ekki betur en að þau voru afar ánægð með afraksturinn.

500 gr af nautagúllasi, 4 niðursneiddar gulrætur, 1 smátt saxaður rauðlaukur, 250 gr sveppum skornir í fernt steikt á pönnu í ólívuolíu. Á þetta er hellt 1 líter af vatni, 1 lárviðarlaufi og látið malla í 30 mínútur. Svo er 1/2 litla dós af tómatpure, 1 glas af rauðvíní, 5 kartöflur skornar í bita, nautakraftur miðað við vatnmagn (eða bara setja meira kjöt). Kryddað með salti, pipar, hvítlaukssalti, soya sósu. Í lokin var sett hálfur bolli af matreiðslurjóma og látið sjóða áfram í svona 15 mínútur.  

 2 bollar af Basmati hrísgrjónum eða öðrum hrísgrjónum er soðið skv leiðbeiningum í söltuðu vatni og borið fram með gúllasinu.

Salatið var útbúið á flötum disk. 50 gr af klettasalalti var lagt á disk og svo var raðað einum niðurskornum mozzarellaosti ofan á. Einn lítill rauðlaukur var niðursneiddur og dreifður yfir sem og hálfri papriku sem var skorinn í fremur litla bita. Einn tómatur var skorinn í sneiðar og raðaður á salatið. Í lokinn var ferskri steinselju dreift yfir. Smá slettu af jómfrúarolíu var skvett yfir og svo saltað og piprað.

 Þetta var svo borið fram með smá brauðhleif og rauðvíni - Museum Crianza 2001 - spánskt - milt og hæfði matnum vel.


Wednesday 7 February 2007

Heimagerð indversk lambakássa með nanbrauði og haldi-basmati

Er ansi ánægður með afrakstur eldhúsins í kvöld. Eina sem ég þurfti að kaupa inn í dag var 2 dósir af hreinni jógúrt - annað var eldað út úr skápunum...og ég náði að elda þennan mat á 45 mínútum (frágangur mun sennilega taka lengri tíma-dow!!!). Okkur hjónunum þykir indverskur matur ákaflega góður. Elda hann alltof sjaldan - á oft í erfiðleikum með að slíta mig frá ítalska matnum (sem er eiginlega bara ýsa og kartöflur okkar kynslóðar).

Maður þarf að eiga svolítið af kryddi í skápnum til að gera indverskan mat - það er gott að fara í matreiðslubækur og oft á fyrstu síðunum er listi yfir krydd sem gott er að eiga. Þetta eru þó nokkrar krukkur til viðbótar í skápinn en þetta geymist von úr viti - þannig að þetta er góð fjárfesting. En betra er að kaupa fræ - þau munu geymast en lengur en muldar kryddjurtir. Mörg indversk krydd eru kryddblöndur (masala = blanda) og eru mörg hver ansi góð þó fátt sé betra en að búa til sín eigin í morteli.

Indversk innblásin lambabollukássa með nanbrauði og haldi-basmati.

500 gr af lambahakki, 1 brauðsneið, tætt, 1/3 búnt steinselja, 1 tsk kóríander duft, 1 tsk paprikuduft, 1 tsk garam masala, 1/2 tsk túrmerik, salt, pipar, 1 egg, 1 smátt saxaður laukur, 5 söxuð hvítlauksrif er blandað saman og hnoðað í kjötbollur (golfboltastærð).

Olía hituð á pönnu og smávegis túrmerik, kóríanderduft og papríkuduft hitað í olíunni. Bollurnar steiktar báðu megin.

Sósan er útbúin á þann hátt að smávegis olía er hituð í potti og 4 söxuð hvítlauksrif, 1 tsk túrmerik, 1 tsk kóríander duft, 1 tsk paprikuduft, 1/2 tsk kúmenduft og smávegis hvítlauksduft er hitað í olíunni. Svo er 2 niðursneiddum laukum (í laukhringjum) bætt við og þeir steiktir þannig að þeir taki aðeins lit. Svo er einni dós af hökkuðum tómötum, 1 dós af hreinni jógúrt bætt út í. Saltað og piprað eftir smekk. Lambabollunum bætt útí og öllum vökva af pönnunni. Blandað vel saman. Oft verður svona kássa aðeins súr á bragðið vegna niðursoðnu tómatanna og jógúrtarinnar og þarf því að sæta aðeins með annað hvort sykri eða bara smá tómatsósu (maður er ekkert verri kokkur fyrir vikið). Látið malla aðeins á meðan restin af matnum er undirbúinn.

Best er að byrja á nanbrauðinu. 500-600 ml af hveiti er sett í skál, smávegis af fínu salti og svo 2 msk af olíu. 3 tsk sykri er leyst upp í volgri mjólk og svo er gerið sett saman við og vakið í mjólkinni. Mjólkurgerblöndunni er svo blandað saman við hveitið og hrært saman. um 200 ml af Ab mjólk (eða jógúrt, eða fiftyfifty mjólk og Ab mjólk) hrært saman við og smávegis mjólk. Deigið er hnoðað þar til það verður mjúkt og meðfærilegt og hætt að klístrast við hendurnar á manni. Látið hefast í 30 mínútur (lengur ef það er hægt). Smábitar eru svo klippnir af deiginu og flattir út með fingurnum í lófastórar þunnar kökur sem eru pennslaðar með smávegisolíu og saltaðar með Maldon salti og svo þurrsteiktar á heitri grillpönnu. 

Basmati hrísgrjón eru soðin eftir leiðbeiningum. Þegar þau eru til er vatninu hellt frá. Svo er 1-2 tsk af olíu af hituð á pönnu og 1 tsk haldi (túrmerik - aðeins að láta þetta hljóma flottar) og 1/2 tsk paprikuduft hitað á pönnunni og hrísgrjónunum svo skellt á pönnuna. Þau munu öll verða fallega gul. Ég bætti svo handfylli af rúsínum og smávegis af hálfum cashew hnetum saman við og steikti í smástund.

Þessi máltíð heppnaðist afar vel - verður án efa elduð aftur. Kássan var alls ekki sterk á bragðið og dóttir mín, sem er sex ara, og vinkona hennar voru mjög hrifnar af matnum.

 


Tuesday 6 February 2007

Eldað út úr fátkæklegum ískáp - Tagliatelle somethingorother-ara

Þriðjudagskvöld - mikið á hlaupum í dag. Tveir fundir í dag eftir vinnu og því lítill tími að undirbúa - hvað þá elda mat. Gleymdi að taka út úr frystinum í gær og því var ákveðið að improvisera út úr ískápnum.

Það má segja að Spaghetti Carbonara hafi verið lagt til grundvallar að því leiti að gerð var eggjasósa - en í staðinn fyrir beikon (sem ég átti mjög lítið af) var sett sitt lítið af hverju. Resúltatið var alveg ágæt - en ekki þannig spes að ég kem til með að gera þetta aftur - orginallinn er náttla alltaf bestur.

4 hvítlauksrif, 1 lítill smátt skorinn laukur eru hituð í olíu á pönnu, smávegis (50 gr) af niðurskornu beikoni, 1 púrrulaukur, 150 gr af kastaníusveppum eru svo steikt á pönnunni. Í lokin er handfylli af furuhnetum sett útí. Saltað aðeins og piprað.

4 egg, 50 gr af rifnum parmesanosti, salti, pipar er hrært saman. Pastað, í þetta sinn Tagliatelle, soðið skv leiðbeiningum - al dente. Þegar pastað er soðið er vatninu hellt af og pastað sett svo aftur í pottinn og gumsinu af pönnunni og eggjablöndunni hellt yfir pastað, hrært vel saman. Þetta er látið standa í 2 mín í lokuðum potti. Fann nokkur fjólublá basillauf inní ískáp sem var hrært saman í lokin, ásamt smá steinselju.

Borið fram með smá salati og brauði. Þetta var alltílagi svona vikudagsmatur. Tók ekki nema 15 mínútur að undirbúa - eiginlega bara þann tíma sem pastað var eldað.


Sunday 4 February 2007

Purusteik með eplum, ofnbökuðum kartöflum og soðsósu

purusteik Búinn að eiga meiriháttar dag. Dóttir mín gisti hjá ömmu sinni í nótt - sonur minn svaf til klukkan tíu, við fengum því að sofa út - dásamlegt - alltof sjaldan sem það gerist. Fór í skvass um hádegið - kollegi minn Tómas Guðbjartsson hjartalæknir lamdi mig sundur og saman - aftur meiriháttar - alltaf gaman að skvassa - meirisegja þó að maður tapi. Náði að vinna aðeins seinnipartinn á meðan ég undirbjó matinn.

 Tengdamóðir mín, Hrafnhildur, Mágkona mín, Kolbrún, og svilkona mín hún Inga Dóra, Marteinn sonur þeirra og Petra frænka voru í mat.

Fékk ráðleggingar frá tveimur sálfræðingum um hvernig ætti að elda purusteikina, bæði frá manni frænku minnar, Andrési Magnússyni og hinsvegar Magnús F Ólafsyni kunningja okkar. Uppástungur að aðferðafræði voru algerlega ólíkar - Magnús vildi steikja svínabóginn fyrst á pönnu - puruna niður, pressa hana alveg á pönnuna - Andrés ráðlagði að leggja steikina í sjóðandi vatn með krafti, puruna niður, í 20 mínútur í 200 gráðu heitan ofn - báðir vildu svo salta, pipra og spekka með negul og baka síðan í ofni á hefðbundinn hátt.

Ég ákvað að þiggja ráðlegginar Andrésar - hann hefur eldað svínalæri á gamlárskvöld fyrir fjölskylduna undanfarin tuttugu ár - og hverju ári hefur steikin verið perfekt - ég meina perfekt!!! Þannig að ég gat ekki annað en farið að hans ráðum - maður er þá að byggja á 20 ára reynslu - sem maður hefur smakkað öll nema 4 af þessum 20 árum.

 Svínabógurinn (2,6 kg) var skoruð af starfmanni í Kjötborði Nóatúns - ég nennti því ekki sjálfur. Fyrst 2 L vatni soðnir og hellt útí ofnpott - svo var 2 teningum af krafti leyst upp í vatninu sem var saltað lítillega. Svínabógurinn var svo settur útí puran ofan í vatninu og bakað í 200 gráðu heitum ofni í 25 mínútur. Svo var hann tekin út og salti nuddað vandlega ofan í puruna, einnig piprað aðeins. Í staðinn fyrir negul spekkaði ég bóginn með fersku rósmaríni. Svo var steikin bökuð í 180 gráðu heitum ofni þar til kjarnhiti varð 77 gráður - tók um 2 klst. Steikin er sett á grind fyrir ofan fat sem inniheldur vatnið úr ofnpottinum auk 1 tening af svínakrafi,  20 piparkorn og 2 lárviðarlauf - sem grípur allt sem rennur af steikinni. Þegar 1 klst var liðin af eldunartímanum bætti ég 1/2 líter af vatni útí til viðbótar. Síðustu mínúturnar er yfirhiti/eða grillið sett í gang og þannig "poppast" puran, og verður svona eins og pura á að vera. Þarna verður að passa steikina vel því að það er stutt á milli vel heppnaðar puru og brunarústa.

Þegar 45 mínútur voru eftir af eldunartímanum á purusteikinni raðaði ég 10 kartöflum skornar í 8 skífur með hýðinu á, 2 rauðlauka í 8 bitum, 150 gr af kastaníusveppum, 4 skarlottulaukar og heilan hvítlaukur í rifjum í eldfast mót. 5 msk af hvítlauksolíu hellt yfir og hrært vel saman. Sett í 180 gráðu heitan ofn í 45 mínútur.

 Fjögur græn epli voru flysjuð og skorinn í þunna báta og lögð í sítrónuvatn (þannig verða þau ekki brún). 50 gr af smjöri voru brædd á pönnu og ferskt rósmarín, eins og af 4 greinum, sett útí þegar smjörið var tilbúið. Steikt í smá stund - lyktin gýs á móti vitum manns - eplinn sett útí og steikt þar til þau karmelliserast. Smá dash af Cognac Frapin skvett yfir og soðið niður.

Konan mín bjó til ferskt salat, 1/5 haus iceberg, 1/4 poki klettasalat, 2 plómutómatar, 1/2 rauð paprika, 15 lauf af ferskri myntu, ristuð graskersfræ og smá fetaostur var raðað á disk.

Sósan heppnast vonum framar - Þegar steikin var að ná réttum kjarnhita var hún tekin út úr ofninum (á meðan var kveikt á grillinu og ofnin hitaður í 250 gráður). Vatninu hellt af í stálkönnu. Smjörbolla var undirbúinn í potti  - 40 gr af smjöri brætt og hveiti bætt útí þar til orðið að mjúkum leir - Soðinu svo hellt varlega saman við (í gengum sigti svo piparinn eða lárviðarlaufinn færu ekki með) og hrært stöðugt. Sósan verður fallega gljáandi. Bætti svo við 50 ml af matreiðslurjóma til að fá fallegri lit á sósuna - suðan fékk að koma upp á þá var hún tilbúinn.

Borið fram með Val Sotillo crianza rauðvíni frá 2001. Frábært.

 Í desert var Vanilluís með muldu Nóakroppi (tætti það með töfrasprota) þannig að það varð að grófu dufti. Einnig var útbúinn heimagerð súkkulaðisósa, nokkrir tobleronebitar leystur upp í smá matreiðslurjóma - namminamm.


Saturday 3 February 2007

Fjögurraosta pizza, kartöflupizza og rauðvínssopi

Var á 10 ára endurfundapartíi MHinga í gærkvöldi. Ætlaði rétt að skreppa með Sverri vini mínum og vera kominn snemma heim. Það fór nú annan veg - svona er það þegar maður hittir mikið af skemmtilegu fólki. Vorum fyrst á stúdentakjallaranum og svo á Celtic cross - þetta var alveg ekta djamm, bara svo eins og í gamla daga - hörkugaman og skemmtilegt að sjá öll þessi andlit aftur, mér fannst eiginlega enginn hafa breyst. Var seint á ferðinni í nótt og með smá samkvæmisflensu í morgun - en lét það ekkert aftra mér að eiga góðan laugardag. Maður verður að vera góður við sig á dögum þar sem maður er aðeins framlágur og ákváðum við því að gera heimagerðapitsu - dóttir mín er alltaf hrifinn af því að fá pitsu - sérstaklega þar hún hjálpar mér alltaf að gera deigið og raða á pitsuna.

Hef áður birt uppskrift af pitsubotni og geri eiginlega bara copy/paste - breyti þessu bara aðeins.

Útí 250 ml af ylvolgu vatni er sett 2 tsk þurrger og 30 g af sykur eða hunangi . Blanda saman vatninu, gerinu og sykri (eða hunangi) saman og leyfi gerinu að vakna - þá freyðir svona ofan á vatninu - tekur svona 10-15 mín. 500-700 gr. hveiti er er sett í skál og saltið og olían blandað saman við. Mikilvægt er að leyfa gerinu að vakna vel og rækilega og ekki setja saltið þarna úti - þar sem saltið hamlar aðeins gerjunarferlinu. Blanda vatninu svo hægt saman við hveitið þar til það verður að góðum deigklump. Það er mikilvægt að hræra deigið vel - þannig hefast það mikið betur og bragðast líka betur. Ég vil að deigið dúi vel undan fingri og þegar áferðin er þannig að deigið jafnar sig hratt þegar maður ýtir fingri í það breiði ég viskastykki yfir skálina og leyfi að hefast - eins lengi og maður hefur tíma. Deigið er nóg í tvær pizzur.

Ég er eiginlega alveg hættur að nenna að gera mínar eigin tómatsósur fyrir pitsur - þó að það sé nú eins einfalt og huxast getur - núna nota ég eiginlega bara Hunt roasted garlic tomato sauce. Hún er afar bragðgóð - milt og alls ekki súr.

Fjögurra osta pitsa.

Á fyrstu pitsuna setti ég fyrst smá gouda ost - niðurrifinn. Svo mozzarellaost sem ég skar í kubba. rjómaostur var settur á alla pitsuna. Á annan helminginn setti ég gullgráðaost og á hinn helmingin bláan kastalaost. Parmesan ostur var svo rifinn yfir allt saman.

Það kemur kannski spánskt fyrir sjónir en ég bar ostapitsuna fram með smávegis chillihlaupi sem Þorbjörg hjúkrunarfræðingur á St. Jósefspítala færði mér - hún gaf mér líka uppskriftina, sem ég því miður týndi. Alveg frábær sulta. Hún gaf mér líka chilli og sólberjasultu sem var líka alveg meiriháttar.

Kartöflupitsa - afgangar nýttir fram í ystu æsar. 

Hin pitsan var meira svona afgangapitsa. Ég átti kartöflur frá því í matnum í gær - skar þær niður í sneiðar og raðaði á pitsuna - chillipipar sem var með þeim var einnig dreift yfir. Svo setti ég ferska niðurskorna sveppi og einnig sveppina sem voru afgangs úr kartöfluréttinum í gær. Því næst dreifði þistilhjörtum yfir, svo rifnum osti og í lokinn smávegis af beikoni. Alveg meiriháttar góð - mjög svona - hvað ætti maður að segja... rustico!

Þetta var bakað í ofni í 15-20 mínútur við 180 gráðu hita. Með þessu var drukkið Laderas de El Segui frá 2005 sem er spánskt rauðvín sem Kristinn Grétarson færði mér um daginn. Gott vín - bragðmikið, þurrt og með góðu eftirbragði - passaði vel með matnum.

 


Friday 2 February 2007

Nautasteik á nýjan máta með salsasósu

steik með salsa 2 Núna er verið að reyna að koma sér í gírinn fyrir 31 ára afmælið. Afmá þarf syndirnar. Þegar við hjónin höfum viljað gera vel við okkur er alltaf steik með bernaise en núna var aðeins breytt útaf.

Nautasteik á nýjan máta með salsasósu.

Nautasteikin var að þessu sinni 800 gr af framparti í tveimur sneiðum. 4 msk jómfrúarolíu hellt yfir, 6 maukuðum hvítlauksrifjum, 5 greinar af söxuðum timian, 2 sneiðar söxuðum rósmarín, saltað og piprað. Látið standa í 60 mínútur. Steikt á heitri pönnu í 3 mínútur á hvorri hlið þar til miðju hiti er um 63 gráður. Sett í 100 gráðu heitan ofn í 10 mínútur að jafna sig.

Átta kartöflur, ein flysjuð niðurskorinn sæt kartafla var forsoðinn í 10 mínútur. Kartöflurnar voru skornar í báta og sett í eldfast mót. 250 gr af sveppum voru skornir í fernt og sett með. Vætt með olívuolíu, úrfræjaður chillipipar niðurskorinn sem og 20 niðurskorin salvíulauf dreift saman við. Saltað og piprað. Bakað í 20 mínútur í 200 gráðu heitum ofni.

Sósan með steikinni var með einfaldasta móti og ákveðið að hafa þetta kalda og holla sósu. Einn avocado, 3 plómutómatar, 2 litlir rauðlaukar, 5 hvítlauksrif, 1/2 búnt steinselja er söxuð niður með töfrasprota. Hellt í skál og hrært saman með 3 msk jómfrúarolíu, salti og pipar. Þá er sósan tilbúinn með steikinni.

Salatið var matreitt á þann hátt að klettasalat er lagt á disk. Fersku rauðu basil var rifið yfir. Radísur er skornar í sneiðar og þeim svo raðað á salatið. Því næst er kastalaostur skorinn í sneiðar og hann einnig raðaður yfir salatið. Svo er kúrbítur skorinn í sneiðar á lengdina, panna er hituð, kúrbíturinn er pennslaður með olíu salti og pipar og steiktur á heitri grillpönnu. Tekinn af pönnunni og látinn kólna, því næst skorinn í sneiðar og honum raðað á salatið.

Borið fram með Alejandro Fernadez Dehesa  La Granja 2001 - frábært vín með vel heppnuðum mat.