Sunday 25 January 2015

Ljúffengt sveppa-stroganoff með ofnfrönskum og salati



Það var í nóvember 2011 að ég var að leika mér að því að gera Stroganoff. Og ég var alveg sérstaklega hrifinn af þessum rétti, svo mjög að ég lét mína útgáfu af honum fljóta með í fyrstu bókinni minni; Tími til að njóta! 

Þessi réttur á rætur sínar að rekja til Rússlands. Fyrstu heimildir um þennan rétt má finna í frægri rússneskri matreiðslubók frá árinu 1861. Uppskriftin hefur breyst talsvert frá því hún var fyrst kynnt fyrir nautnaseggjum. Þá var hún gerð með sinnepi og nautakrafti og með lítilræði af sýrðum rjóma - en núna er sinnepið og krafturinn fjarri góðu gamni. Á næstu árum þar á eftir fór að bera á nokkrum útgáfum af þessum rétti en hann mun hafa fengið nafn sitt sitt þegar kokkur að nafni Charles Briere sendi inn uppskrift sína í uppskriftakeppni, L'Art Culinarie, árið 1891.

Samkvæmt eldri uppskriftum á að nota kjötbita sem þarfnast talsverðrar eldunar en sjónvarpskokkurinn Rick Stein heldur því fram að maður eigi að nota bita sem eru snöggir í eldun. Hann telur að þessi réttur sé nánast tilvalinn til að elda fyrir framan fólk á veitingastöðum og segir að bitarnir eigi að vera ögn rauðir að innan.

En núna er grænmetismánuður hjá okkur og því er kjötið útilokað. En mig langaði samt í stroganoff! Því tók ég á það ráð að kaupa portobellosveppi og nota þá í stað kjötsins en elda réttinn að öðru leyti eins og áður. Kjötinu var því bara skipt út! Og það er ekki alltaf sem slíkt heppnast en það gerði það svo sannarlega í þetta skipið!


Ljúffengt sveppa-stroganoff með ofnbökuðum frönskum og salati - Наибольшее Бефстроганов известно слишкомчеловек 

Hráefnalisti

Fyrir fjóra til sex

250 g portobellosveppir
250 g skógarsveppir
2 gulir laukar
3 hvítlauksrif
1-2 msk papríkuduft
500 ml sýrður rjómi
salt & pipar

Meðlæti

Franskar
Djúsí salat - blönduð lauf, tómatar, papríka, avacadó, fetaostur og frönsk dressing



Byrjið á því að sneiða portobellosveppina niður í heldur þykkar sneiðar og steikið upp úr smjöri þangað til að þeir fara að brúnast. Setjið til hliðar. 


Sneiðið laukinn og steikið þangað til að hann verður mjúkur. Saltið og piprið og bætið paprikuduftinu saman við. Steikið í smástund. 


Næst er að sneiða skógarsveppina niður þunnt og steikja með lauknum.


Þá er að bæta sýrða rjómanum saman við ásamt portobellosveppunum og blanda vel saman. 


Handfylli af steinselju er stráð yfir réttinn áður en hann er borinn fram. 




Eins og oft áður gæddum við okkur á þessum klassíker með matnum. Montes Alpha Cabernet Sauvignion frá því 2011. Þetta er vín frá Chile sem hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér og ég hef greint frá margoft hér á blogginu mínu. Þetta er kröftugt vín, þétt, bragðmikið með miklum ávexti og ljúfu eftirbragði. Þeir sem hafa ekki smakkað þetta vín ættu að sjálfsögðu að prófa!




Þetta varð alveg ótrúlega ljúffengt! 

Thursday 22 January 2015

Dásamlegt chili sin carne með nachos, rifnum osti, gulum baunum og rifnum osti

Um síðustu helgi var okkur hjónum boðið í matarboð til Önnu Margrétar og Tomma, eigenda Sagna, sem gefa út bækurnar mínar. Og þar var aldeilis fín veisla. Anna hafði fengið veður af því að við hjónin værum í grænmetismánuði og gerði handa okkur frábæra rétti byggða á nýútkominni bók Önnu Jones; A modern way to eat! Við fengum þríréttaða veislu. Fyrst ljúffenga rústik tómatsúpu, svo spaghetti með avacadó, sítrónu og steinselju (geðveikt) og svo hráköku með rjóma í dessert. Ég var svo hrifinn af þessum réttum að Anna gaf mér bókina sína (ekki slæmt það). Hvet ykkur til að eignast þessa bók - með öllum þessum girnilegu réttum. Þið getið smellt beint á myndina til að komast á Amazon.




Alltént, daginn eftir var ég að lesa í gegnum hana og sá þá þessa uppskrift; Proper chili, á blaðsíðu 182. Getur grænmetischili slegið kjötréttinum við ... varla. Og það var bara ein leið til að komast að því - með því að prófa. Og svei mér þá, þetta er eitt besta chili sem ég hef fengið. Ég breytti eilítið út af leiðbeiningum hennar með því að bæta við kanelstöng og svo breytti ég hlutföllunum í baunum og korni þar sem ég átti ekki alveg það sem hún ráðlagði. Svona er þetta alltaf með uppskriftir, þær taka alltaf breytingum. Og niðurstaðan var algert dúndur. Þetta reyndist svo góður réttur að Snædís klappaði af ánægju. Ég hefði ekki átt að segja henni að uppskriftin hafi verið að mestu stolin, þá hefði heiðurinn verið allur minn!


Að öðru. Ég sá aðallista Eymundsson fyrir síðustu viku. Og mikið óskaplega var gaman að sjá að bókin mín gengur ennþá ljómandi vel og það eftir jólin. Þið vitið ekki hvað þetta fyllir mann mikilli gleði! Ég er fullur þakklæti! Takk fyrir frábærar móttökur, allar athugasemdirnar ... meiriháttar.

Dásamlegt chili sin carne með nachos, rifnum osti, gulum baunum og rifnum osti 


Hráefnalisti

Fyrir 8-10

1 rauðlaukur
4 hvítlauksrif
5 cm engifer
1 rauður chili
jómfrúarolía
2 tsk chiliduft
2 tsk broddkúmen
1 tsk kóríander
1 kanelstöng
3 lárviðarlauf
1 msk chipotlemauk
2 dósir niðursoðnir tómatar
150 g Puy linsur
150 g bulgur
200 g quino tricolore (blandað)
400 g blandaðar baunir í dós (t.d. nýrnabaunir, augnbaunir og brúnar baunir)
1,5 l kjúklingasoð
2 tsk kakóduft
salt og pipar

Meðlæti

Nachosflögur (eða tortilla)
1 niðurskorið chili
gular baunir
rifinn ostur
ferskur kóríander


Fyrsta skref var að skera laukinn, hvítlaukinn, engiferið og chili og steikja í heitri olíu þangað til mjúkt. Lét kanelstöngina og lárviðarlaufin vera með strax frá upphafi. Saltað og piprað. 


Næst var að bæta við öllu kryddi; chilidufti, broddkúmeni, kóríander, chipotlemauki, kakódufti og blanda vel saman og steikja í nokkrar mínútur. Næst var að hella tómtötunum saman við og hita að suðu. 


Svo þarf að skella linsunum saman við. Þær þurfa 30 mínútna suðu. 


Svo bulgur og quinoa. 


Þegar 10 mínútur eru eftir af suðunni þarf bara að skola af baununum og blanda saman við kássuna. 


Kássan þarf ekki nema 35-45 mínútna suðu. 


Með matnum nutum við þessa ljómandi góða rauðvíns. Rosemount Shiraz frá 2013. Þetta er ástralskt vín sem ég hafði ekki bragðað áður. Vínið er ferskt með ágætri berjafyllingu sem mér fannst passa vel með kraftmiklum mat eins og þeim sem við vorum að bera fram. Gaf ekkert eftir. 



Svo er bara að raða á disk. Nachos, chili, ostur, ferskt chili, kóríander. Og svo bara njóta.

Grænmetisveislan virðist endalaus.



Sunday 18 January 2015

Fylltar crepes með sveppum og púrru - gratineraðar með västerbotten osti og ofnbakaðar papríkur með geitaosti

Lífið sem grænmetisæta er einfaldara en ég hélt að það yrði. Nú eru tvær vikur liðnar og ótrúlegt en satt, þá saknar þessi kjötæta kjöts bara ekki hætishót. Í vikunni gerðum við grænmetiskarrírétt með hrísgrjónum, kartöflurétt með strengjabaunum og linsoðnum eggjum, pasta með eggaldintómatsósu og svo þennan ljúffenga rétt - fylltar crepes. Þessum rétti svipar aðeins til annars sem ég gerði hér um árið, sjá hérna, þar sem ég gerði sjálfur ríkottaostinn. Sem er í raun ofureinfalt!

Þetta er dálítið "rich" réttur sem ég held að sé allt í lagi þar sem ekkert kjöt er á boðstólunum. Alla jafna er líka óþarfi að hafa tvo ofnbakaða rétti saman - hvað þá báða með osti - en stundum er maður bara fullur löngunar sem verður að sinna, og svo var geitaosturinn kominn á tíma! 

Fylltar crepes með sveppum og púrru - gratineraðar með västerbotten osti og ofnbakaðar papríkur með geitaosti

Hráefnalisti

Fyrir pönnukökurnar

1 bolli hveiti
1/2 tsk salt
1/2 lyftiduft
1 msk jómfrúarolía
1 egg
1 bolli mjólk
salt 

Fyrir fyllinguna

200 g sveppir
4 púrrulaukar
3 hvítlauksrif
2 msk smjör
250 g ríkottaostur
salt og pipar

Fyrir bechamélsósuna

500 ml mjólk
30 g smjör
30 g hveiti
salt og pipar
100 g västerbottenostur

Byrjið á því að hræra í pönnukökurnar. Betra er að vinna með þunnt deig. 


Steikið síðan kökurnar og leggið til hliðar. 


Skerið púrruna í sneiðar. 


Steikið með smátt skornum lauk, niðurskornum sveppum og hvítlauk þangað til þetta fer að mýkjast. 


Setjið grænmetið í skál ásamt ríkottaostinum og blandið vel saman. 


Smyrjið á pönnukökurnar og rúllið upp. 


Leggið í ofnskúffu.


Næst er að huga að bechamélsósunni. Hitið mjólkina í potti. Bræðið smjör í öðrum potti og hrærið hveitið saman við. Hellið mjólkinni varlega saman við smjörbolluna og hitið að suðu. Sósan þykknar fljótlega eftir að það fer að krauma varlega í henni.  Raspið niður ost og hrærið saman við bechamélsósuna. 


Hellið yfir pönnukökurnar. 


Það er aldrei rangt að raspa yfir meiri ost. 


Bakið í 25-30 mínútur við 180 gráður þangað til að osturinn verður fallega brúnn. 


Papríkurnar eru eins einfaldar og hugsast getur. Skerið í helminga, penslið með hvítlauksolíu og kryddið með salti og pipar. Myljið geitaostinn yfir. 


Bakið í 30 mínútur við 180 gráður.


Með matnum fékk ég mér tár af þessari ágætu búkollu. Vina Maipo Cabernet Sauvignion sem er vín frá Chile. Að mestu unnið úr Cabernet þrúgum með smá viðbót af Merlot (15%). Þetta er berjaríkt vín - létt og með milda sýru. Prýðissopi!



Veislan heldur áfram!

Sunday 11 January 2015

Tacóveisla - heimagert guacamole, steiktar nýrnabaunir og heitar kjúklingabaunir og fullt af grænmeti

Líf grænmetisætunnar heldur áfram. Nú erum við búin að borða grænmetismat í vikutíma og það er auðveldara en mörg kjötætan myndi halda. Ein vika er náttúrulega ekki langur tími! Ég þekki nógu margar uppskriftir til að hafa getið klárað fyrstu viku án þess að rembast mikið en mig grunar að það komi fljótlega að leiðarenda. Sjáum hvað setur.

Á föstudagskvöldum er gjarnan elduð flatbaka, hamborgarar grillaðir eða að við gerum tacó. Nú ákváðum við að gera það síðastnefnda - sem er í miklu uppáhaldi hjá börnunum. Þau eru svo sannarlega með okkur í liði í grænmetisveislunni. Villi ætlar meira að segja að óska eftir grænmetismat í hádeginu í skólanum sínum og ég held að Valdís ætli að gera það líka. Ragga Lára  fær auðvitað það sem hún vill!

Og þetta er fljótlegur matur - eitthvað sem er ljómandi á föstudagskvöldi þegar maður er þreyttur eftir vinnuvikuna.

Tacóveisla - heimagert guacamole, steiktar nýrnabaunir og heitar kjúklingabaunir og fullt af grænmeti

Byrjum á guacamóle-inu.

2 þroskuð avacadó
1/2 laukur
2 hvítlauksrif
1/2 rauður chili
safi úr hálfu lime
1 tómatur
handfylli af kóríander
salt og pipar




Byrjið á því að opna avakadóið og veiða steininn úr. Leggið avókadóið á brettið - skerið í það og snúið því svo í hring. Höggvið svo varlega í steininn með hnífnum og snúið - þannig losnar steinninn auðveldlega frá. 


Setjið tómatinn, hálfan kjarnhreinsaðan chili, hálfan lauk, hvítlauksrifin og svo tvö avókadó í matvinnsluvél. Bætið við safa úr hálfri límónu.


Setjið handfylli af kóríander saman við. 


Maukið rækilega með sprotanum. 


Smakkið til með salti og pipar! 


Namminamm!

Næst er að vinda sér í steiktu baunirnar (Refried beans).

50 g smjör
1 dós svartar nýrnabaunir
1/2 laukur
2 hvítlauksrif
1 tsk kóríander
1 tsk broddkúmen


Setjið eina teskeið af broddkúmeni og kóríander í mortél og lemjið rækilega, þannig að úr verði fínt duft. 


Bræðið smjör á pönnu og steikið laukinn og hvítlaukinn þangað til að hann er mjúkur og ilmar. Bætið þá við nýrnabaununum og steikið í stutta stund. Bætið kryddinu saman við.


Maukið baunirnar með spaða og steikið áfram í nokkrar mínútur. 


Delish! 

Lokahnykkurinn eftir. Spæsí kjúklingabaunir! 

1 dós kjúklingabaunir
1 tsk broddkúmen
1 tsk kóríander
hnífsoddur cheyenne
1 tsk paprikuduft
2 tsk tómatpúre
1 msk jómfrúarolía
basil og kóríander til skreytingar


Hitið jómfrúarolíuna á pönnu og skellið svo kjúklingabaununum út á. Bætið muldum kóríander, broddkúmeni og papríkudufti saman við. Steikið um stund. 


Setjið svo cheyenne pipar saman við ásamt tómatpúreinu. Steikið áfram þangað til að baunirnar eru eldaðar í gegn.


Berið fram með límónu og skreytið með blöndu af basil og kóríander. 


Svo vorum við líka með heilmikið af fersku grænmeti; papríkur, iceberg salat, rauðlauk, agúrku, tómata og svo maísbaunir. 


Með matnum drukkum við svo þetta vín sem var nýverið að fá "bestu kaupin" stimpil frá Vinótek. Þetta vín er líka á góðu verði í Svíþjóð.  Þetta er La Baume la Jeunesse Syrah frá því 2013 og er frá Languedoc í Frakklandi. Þetta er eins og kemur fram í titlinu Syrah vín. Þetta er þurrt rauðvín með ágætri fyllingu með góðri berjasætu. Ljómandi sopi.

Líf grænmetisætunnar heldur áfram! 

Sunday 4 January 2015

Ríkulega fylltir sveppir, kartöflugratín og salat - grænmetismánuður heldur áfram!

Fylltir sveppur er réttur sem er sóttur í hugmyndasmiðju föður míns. Ég man ekki alveg hvenær hann gerði fyllta sveppi í fyrsta sinn en ég man vel eftir því þegar hann eldaði þá á grillinu skömmu eftir
að foreldrar mínir eignuðust sumarbústað við Meðalfellsvatn í Kjósinni sumarið 2001. Við urðum svöng einhvern tíma um kvöldið og faðir minn gerði sveppina sem náttverð. Þá notuðum við Flúðasveppi sem eru auðvitað góðir til síns brúks. Það er líka gott að nota skógarsveppi sem hafa í sér aðeins meiri hnetukeim þegar þeir eru eldaðir. Þetta er réttur sem kemur fyllilega í stað kjötmáltíðar.

Kartöflugratín hefur lengi verið mikið eftirlæti okkar bræðranna. Áður fyrr var ég alltaf að flækja uppskriftina með því að bæta við lauk, kryddi, sjóða rjómann upp með krafti og raða osti á milli laga – allt með það að markmiði að gera gratínið betra. Og auðvitað varð þetta mjög ljúffengt. En það er samt svo að hið upprunalega gratín, bara með rjóma, bragðbætt með salti og pipar, kryddað með nýmöluðu múskati og rifnum osti ofan á, er það besta. Oft er einfaldleikinn bestur. 

Það er kannski kjánalegt að para saman tveimur ofnbökuðum réttum en þið verðið bara að fyrirgefa mér - ég að stíga mín fyrstu spor sem grænmetisæta! 

Ríkulega fylltir sveppir, kartöflugratín og salat - grænmetismánuður heldur áfram!

Þegar ég eldaði þennan rétt í fyrsta sinn notaði ég venjulega sveppi en núna nota ég nær einvörðungu portobello-sveppi sem eru mun stærri og matarmeiri.

4 stórir portobello-sveppir
4 msk hvítlauksolía 
1/4 rauð papríka
1/4 gul papríka
1/2 eggaldin
1/2 rauðlaukur 
2 msk brauðmylsna 
4 msk parmaostur (eða einhver annar ostur) steinselja og chili-pipar til skrauts
salt og pipar


1. Hreinsið stilka af sveppunum og skerið stilkana smátt.
2. Skerið grænmetið smátt.
3. Steikið grænmetið á pönnunni þangað til að það er mjúkt
4. Bætið brauðmylsnunni við og steikið þar til hún brúnast. 5. Saltið og piprið.
6. Fyllið sveppina og raspið parmaostinn yfir.
7. Bakið við 180 gráður í forhituðum ofni í þrjú kortér.
8. Skreytið með steinselju og smátt söxuðum chili-pipar.


Ótrúlega ljúffengt. Hver þarf kjöt? ;) 

Ég gerði einnig kartöflugratín með matnum. 

1,2 kg kartöflur 
2 msk hvítlauksolía 
500 ml rjómi 
salt og pipar 
nýmalað múskat –1/3 til 1/2 hneta 
250 g nýrifinn ostur sem bráðnar vel (gruyère eða góður cheddar)


1. Flysjið kartöflurnar og skerið þunnt niður með mandólíni (eða matvinnsluvél/hníf).
2. Raðið kartöflunum í eldfast mót smurt með hvítlauksolíu. Saltið og piprið á milli laga.
3. Hellið svo rjómanum yfir gratínið og raspið múskatið yfir.
4. Raspið svo ostinn yfir gratínið. Látið standa í 15-20 mínútur áður en gratínið fer í ofninn, þannig dregst sterkjan aðeins úr kartöflunum sem þykkir gratínið.
5. Bakið í fjögur eða fimm kortér við 180 gráður í forhituðum ofni þangað til kartöflurnar eru mjúkar og osturinn gullin- brúnn. 


Ég elska kartöflugratín!



Með matnum drukkum við Casillero Del Diablo Reserva Privado frá 2012. Þetta er vín frá Chile gert mestmegnis úr Cabernet þrúgum með smáræði af Shyraz blandað saman við. Fallega dökkrautt í glasi, mikið berjabragð, eikað og ljúft!

Grænmetismánuður hefst með látum!