Sunday 18 January 2015

Fylltar crepes með sveppum og púrru - gratineraðar með västerbotten osti og ofnbakaðar papríkur með geitaosti

Lífið sem grænmetisæta er einfaldara en ég hélt að það yrði. Nú eru tvær vikur liðnar og ótrúlegt en satt, þá saknar þessi kjötæta kjöts bara ekki hætishót. Í vikunni gerðum við grænmetiskarrírétt með hrísgrjónum, kartöflurétt með strengjabaunum og linsoðnum eggjum, pasta með eggaldintómatsósu og svo þennan ljúffenga rétt - fylltar crepes. Þessum rétti svipar aðeins til annars sem ég gerði hér um árið, sjá hérna, þar sem ég gerði sjálfur ríkottaostinn. Sem er í raun ofureinfalt!

Þetta er dálítið "rich" réttur sem ég held að sé allt í lagi þar sem ekkert kjöt er á boðstólunum. Alla jafna er líka óþarfi að hafa tvo ofnbakaða rétti saman - hvað þá báða með osti - en stundum er maður bara fullur löngunar sem verður að sinna, og svo var geitaosturinn kominn á tíma! 

Fylltar crepes með sveppum og púrru - gratineraðar með västerbotten osti og ofnbakaðar papríkur með geitaosti

Hráefnalisti

Fyrir pönnukökurnar

1 bolli hveiti
1/2 tsk salt
1/2 lyftiduft
1 msk jómfrúarolía
1 egg
1 bolli mjólk
salt 

Fyrir fyllinguna

200 g sveppir
4 púrrulaukar
3 hvítlauksrif
2 msk smjör
250 g ríkottaostur
salt og pipar

Fyrir bechamélsósuna

500 ml mjólk
30 g smjör
30 g hveiti
salt og pipar
100 g västerbottenostur

Byrjið á því að hræra í pönnukökurnar. Betra er að vinna með þunnt deig. 


Steikið síðan kökurnar og leggið til hliðar. 


Skerið púrruna í sneiðar. 


Steikið með smátt skornum lauk, niðurskornum sveppum og hvítlauk þangað til þetta fer að mýkjast. 


Setjið grænmetið í skál ásamt ríkottaostinum og blandið vel saman. 


Smyrjið á pönnukökurnar og rúllið upp. 


Leggið í ofnskúffu.


Næst er að huga að bechamélsósunni. Hitið mjólkina í potti. Bræðið smjör í öðrum potti og hrærið hveitið saman við. Hellið mjólkinni varlega saman við smjörbolluna og hitið að suðu. Sósan þykknar fljótlega eftir að það fer að krauma varlega í henni.  Raspið niður ost og hrærið saman við bechamélsósuna. 


Hellið yfir pönnukökurnar. 


Það er aldrei rangt að raspa yfir meiri ost. 


Bakið í 25-30 mínútur við 180 gráður þangað til að osturinn verður fallega brúnn. 


Papríkurnar eru eins einfaldar og hugsast getur. Skerið í helminga, penslið með hvítlauksolíu og kryddið með salti og pipar. Myljið geitaostinn yfir. 


Bakið í 30 mínútur við 180 gráður.


Með matnum fékk ég mér tár af þessari ágætu búkollu. Vina Maipo Cabernet Sauvignion sem er vín frá Chile. Að mestu unnið úr Cabernet þrúgum með smá viðbót af Merlot (15%). Þetta er berjaríkt vín - létt og með milda sýru. Prýðissopi!



Veislan heldur áfram!

No comments:

Post a Comment