Sunday 4 January 2015

Ríkulega fylltir sveppir, kartöflugratín og salat - grænmetismánuður heldur áfram!

Fylltir sveppur er réttur sem er sóttur í hugmyndasmiðju föður míns. Ég man ekki alveg hvenær hann gerði fyllta sveppi í fyrsta sinn en ég man vel eftir því þegar hann eldaði þá á grillinu skömmu eftir
að foreldrar mínir eignuðust sumarbústað við Meðalfellsvatn í Kjósinni sumarið 2001. Við urðum svöng einhvern tíma um kvöldið og faðir minn gerði sveppina sem náttverð. Þá notuðum við Flúðasveppi sem eru auðvitað góðir til síns brúks. Það er líka gott að nota skógarsveppi sem hafa í sér aðeins meiri hnetukeim þegar þeir eru eldaðir. Þetta er réttur sem kemur fyllilega í stað kjötmáltíðar.

Kartöflugratín hefur lengi verið mikið eftirlæti okkar bræðranna. Áður fyrr var ég alltaf að flækja uppskriftina með því að bæta við lauk, kryddi, sjóða rjómann upp með krafti og raða osti á milli laga – allt með það að markmiði að gera gratínið betra. Og auðvitað varð þetta mjög ljúffengt. En það er samt svo að hið upprunalega gratín, bara með rjóma, bragðbætt með salti og pipar, kryddað með nýmöluðu múskati og rifnum osti ofan á, er það besta. Oft er einfaldleikinn bestur. 

Það er kannski kjánalegt að para saman tveimur ofnbökuðum réttum en þið verðið bara að fyrirgefa mér - ég að stíga mín fyrstu spor sem grænmetisæta! 

Ríkulega fylltir sveppir, kartöflugratín og salat - grænmetismánuður heldur áfram!

Þegar ég eldaði þennan rétt í fyrsta sinn notaði ég venjulega sveppi en núna nota ég nær einvörðungu portobello-sveppi sem eru mun stærri og matarmeiri.

4 stórir portobello-sveppir
4 msk hvítlauksolía 
1/4 rauð papríka
1/4 gul papríka
1/2 eggaldin
1/2 rauðlaukur 
2 msk brauðmylsna 
4 msk parmaostur (eða einhver annar ostur) steinselja og chili-pipar til skrauts
salt og pipar


1. Hreinsið stilka af sveppunum og skerið stilkana smátt.
2. Skerið grænmetið smátt.
3. Steikið grænmetið á pönnunni þangað til að það er mjúkt
4. Bætið brauðmylsnunni við og steikið þar til hún brúnast. 5. Saltið og piprið.
6. Fyllið sveppina og raspið parmaostinn yfir.
7. Bakið við 180 gráður í forhituðum ofni í þrjú kortér.
8. Skreytið með steinselju og smátt söxuðum chili-pipar.


Ótrúlega ljúffengt. Hver þarf kjöt? ;) 

Ég gerði einnig kartöflugratín með matnum. 

1,2 kg kartöflur 
2 msk hvítlauksolía 
500 ml rjómi 
salt og pipar 
nýmalað múskat –1/3 til 1/2 hneta 
250 g nýrifinn ostur sem bráðnar vel (gruyère eða góður cheddar)


1. Flysjið kartöflurnar og skerið þunnt niður með mandólíni (eða matvinnsluvél/hníf).
2. Raðið kartöflunum í eldfast mót smurt með hvítlauksolíu. Saltið og piprið á milli laga.
3. Hellið svo rjómanum yfir gratínið og raspið múskatið yfir.
4. Raspið svo ostinn yfir gratínið. Látið standa í 15-20 mínútur áður en gratínið fer í ofninn, þannig dregst sterkjan aðeins úr kartöflunum sem þykkir gratínið.
5. Bakið í fjögur eða fimm kortér við 180 gráður í forhituðum ofni þangað til kartöflurnar eru mjúkar og osturinn gullin- brúnn. 


Ég elska kartöflugratín!



Með matnum drukkum við Casillero Del Diablo Reserva Privado frá 2012. Þetta er vín frá Chile gert mestmegnis úr Cabernet þrúgum með smáræði af Shyraz blandað saman við. Fallega dökkrautt í glasi, mikið berjabragð, eikað og ljúft!

Grænmetismánuður hefst með látum! 


No comments:

Post a Comment