Thursday 22 January 2015

Dásamlegt chili sin carne með nachos, rifnum osti, gulum baunum og rifnum osti

Um síðustu helgi var okkur hjónum boðið í matarboð til Önnu Margrétar og Tomma, eigenda Sagna, sem gefa út bækurnar mínar. Og þar var aldeilis fín veisla. Anna hafði fengið veður af því að við hjónin værum í grænmetismánuði og gerði handa okkur frábæra rétti byggða á nýútkominni bók Önnu Jones; A modern way to eat! Við fengum þríréttaða veislu. Fyrst ljúffenga rústik tómatsúpu, svo spaghetti með avacadó, sítrónu og steinselju (geðveikt) og svo hráköku með rjóma í dessert. Ég var svo hrifinn af þessum réttum að Anna gaf mér bókina sína (ekki slæmt það). Hvet ykkur til að eignast þessa bók - með öllum þessum girnilegu réttum. Þið getið smellt beint á myndina til að komast á Amazon.




Alltént, daginn eftir var ég að lesa í gegnum hana og sá þá þessa uppskrift; Proper chili, á blaðsíðu 182. Getur grænmetischili slegið kjötréttinum við ... varla. Og það var bara ein leið til að komast að því - með því að prófa. Og svei mér þá, þetta er eitt besta chili sem ég hef fengið. Ég breytti eilítið út af leiðbeiningum hennar með því að bæta við kanelstöng og svo breytti ég hlutföllunum í baunum og korni þar sem ég átti ekki alveg það sem hún ráðlagði. Svona er þetta alltaf með uppskriftir, þær taka alltaf breytingum. Og niðurstaðan var algert dúndur. Þetta reyndist svo góður réttur að Snædís klappaði af ánægju. Ég hefði ekki átt að segja henni að uppskriftin hafi verið að mestu stolin, þá hefði heiðurinn verið allur minn!


Að öðru. Ég sá aðallista Eymundsson fyrir síðustu viku. Og mikið óskaplega var gaman að sjá að bókin mín gengur ennþá ljómandi vel og það eftir jólin. Þið vitið ekki hvað þetta fyllir mann mikilli gleði! Ég er fullur þakklæti! Takk fyrir frábærar móttökur, allar athugasemdirnar ... meiriháttar.

Dásamlegt chili sin carne með nachos, rifnum osti, gulum baunum og rifnum osti 


Hráefnalisti

Fyrir 8-10

1 rauðlaukur
4 hvítlauksrif
5 cm engifer
1 rauður chili
jómfrúarolía
2 tsk chiliduft
2 tsk broddkúmen
1 tsk kóríander
1 kanelstöng
3 lárviðarlauf
1 msk chipotlemauk
2 dósir niðursoðnir tómatar
150 g Puy linsur
150 g bulgur
200 g quino tricolore (blandað)
400 g blandaðar baunir í dós (t.d. nýrnabaunir, augnbaunir og brúnar baunir)
1,5 l kjúklingasoð
2 tsk kakóduft
salt og pipar

Meðlæti

Nachosflögur (eða tortilla)
1 niðurskorið chili
gular baunir
rifinn ostur
ferskur kóríander


Fyrsta skref var að skera laukinn, hvítlaukinn, engiferið og chili og steikja í heitri olíu þangað til mjúkt. Lét kanelstöngina og lárviðarlaufin vera með strax frá upphafi. Saltað og piprað. 


Næst var að bæta við öllu kryddi; chilidufti, broddkúmeni, kóríander, chipotlemauki, kakódufti og blanda vel saman og steikja í nokkrar mínútur. Næst var að hella tómtötunum saman við og hita að suðu. 


Svo þarf að skella linsunum saman við. Þær þurfa 30 mínútna suðu. 


Svo bulgur og quinoa. 


Þegar 10 mínútur eru eftir af suðunni þarf bara að skola af baununum og blanda saman við kássuna. 


Kássan þarf ekki nema 35-45 mínútna suðu. 


Með matnum nutum við þessa ljómandi góða rauðvíns. Rosemount Shiraz frá 2013. Þetta er ástralskt vín sem ég hafði ekki bragðað áður. Vínið er ferskt með ágætri berjafyllingu sem mér fannst passa vel með kraftmiklum mat eins og þeim sem við vorum að bera fram. Gaf ekkert eftir. 



Svo er bara að raða á disk. Nachos, chili, ostur, ferskt chili, kóríander. Og svo bara njóta.

Grænmetisveislan virðist endalaus.



No comments:

Post a Comment