Sunday 1 December 2013

Langelduð lambasíða með smjörsteiktum sykurbaunum, gulrótum og einföldu salati að hætti Villa


Þetta er búið að vera einkar ljúf helgi - eins og þær oft eru. Trúi því varla að desember sé þegar kominn. Stundum er það fráleitt hvað tíminn líður hratt - stundum finnst mér bara að það sé alltaf föstudagur. Við erum búinn að hafa í nógu að snúast um helgina, jólainnkaupin eru að fara af stað svo að hægt sé að senda það til Íslands í tæka tíð. Fórum í frábært matarboð til útgefandanna minna, sem voru afar ánægð - tvær bækur á þeirra vegum tilnefndar til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Frábært! Svo skutumst við feðgar í sund í dag áður en komið var heim undir kvöld og lagt í þessa máltíð. 

Lambasíða er ekki vanalegur matur. En fyrir þá sem taka lamb á haustinn og mylja ekki niður síðuna í kæfu eða útbúa rúllupylsu eins og oft eru örlög síðunnar þá væri hægt að spreyta sig á þessum rétti. Þarna breytir maður ódýrasta hráefni sem völ er á í algera veislumáltíð með nokkrum handtökum. 
Lambasíður eru feitar - en bróðurpartur fitunnar eldast burt og skilur kjötið eftir dásamlega meyrt. 

Haustið hefur verið milt hérna á Skáni. Kryddjurtirnar mínar hafa það gott út á palli og ég tók eftir því að steinseljan mín var óvænt að spretta upp síðustu daga! Það er ansi ljúft að rölta út á pall og sækja sér ferskar kryddjurtir í desember! 

Langelduð lambasíða með smjörsteiktum sykurbaunum, gulrótum og einföldu salati að hætti Villa


Innihaldslýsing

2 lambasíður
4 gulrætur
2 rauðir laukar
3 sellerísstangir
6 hvítlauksrif
5 msk jómfrúarolía
1/3 flaska rauðvín
Nokkrar greinar rósmarín, timian og salvía
Salt og pipar

Smjörbaunir

300 gr sykurbaunir
1 msk hvítlauksolía
1 msk smjör
salt og pipar

Fyrir sósuna

30 gr hveiti
30 gr smjör
allt soð af kjötinu síað
1 lambateningur
200 ml vatn
100 ml rjómi
Soya/worchestershire sósa eftir smekk
salt og piparFlysjið og skerið niður sellerí, gulrætur, lauk og þrjú hvítlauksrif. Makið upp úr olíu og saltið og piprið.


Lemjið þrjú hvílauksrif í mortéli með salti og pipar ásamt 2/3 hlutum af fersku kryddjurtunum.


Nuddið síðurnar upp úr jómfrúarolíu.


Svo upp úr skvettu af rauðvíni.


Því næst nuddið þið hvítlauks og kryddjurtamaukinu við síðurnar.


Rúllið upp og bindið með snæri


Nuddið ytra byrðið af lambasíðunum með meira af olíu - saltið og piprið. 


Þræðið svo restina af kryddjurtunum undir snærið. 


Raðið grænmetinu undir. Og bakið í 170 gráðu heitum ofni í tvær og hálfa klukkustund. 


Látið eitt af börnunum ykkar gera salat.


Þegar kjötið er tilbúið setjið það til hliðar undir álpappír og útbúið sósuna. Bætið vatni og lambateningi í ofnskúffuna og sjóðið upp og skrapið botninn til að ná upp öllum kraftinum. Síið síðan soðið í könnu. Útbúið smjörbollu og hellið soðinu saman við og hrærið af krafti. Bragðbætið með rjóma, soya, salti og pipar eins og við á. Látið krauma á meðan meðlætið er undirbúið. 


Hitið hvítlauksolíu/smjör á pönnu og steikið sykurbaunirnar. Saltið og piprið. 


Sneiðið síðan rúlluna niður. 


Staldrið við í eitt augnablik og dáist að því hvernig ódýrasti matur sem völ er á verður að veislumáltið. 


Farið út í garð (1. des - mont, mont) og sækið ferska steinselju. Saxið hana niður og dreifið yfir lambasíðusneiðarnar.


Bjútífúl!


Raðið á disk og njótið! 


Með matnum drukkum við þetta ljómandi góða ástralska rauðvín sem er í miklu uppáhaldi hjá móður minni og ég tók með í íslenska tollinum á leiðinni til Svíþjóðar (verðið er svo déskoti gott). Peter Lehmann Futures Shiraz frá því 2009 er kraftmikið, kirsuberjadumbrautt vín. Með góðri ávaxtaríkri fyllingu - örlítið eikað jafnvel kryddað vín! 


Núna loksins er kominn tími til að njóta! No comments:

Post a Comment