Sunday 15 December 2013

Ofnristaður þorskur með ansjósu, ólívu, kapers og chillismjöri

Hérna er komið þriðja myndbandið sem við gerðum til að kynna bókina mína! 



Ég man ekki hvaðan þessi uppskrift er komin. Síðastliðið sumar var ég mikið að prófa mig áfram með að nota ansjósur í mat og læra hvernig þær geta lyft bragðinu af eiginlega hvaða mat sem er upp á æðra stig. Betur, kröftugar og á heilsusamlegri hátt en til dæmis arómat eða mónósódíum glútamat gerir!

Best er að bræða ansjósur í smjöri eða olíu við lágan hita þangað til þær hverfa inn í fituna. Síðan er bara að velja hvað þú vilt nota grunninn í. Á sumrin sækja áhrif Miðjarðarhafsins á mig; kapers, ólífur, sítrónusafi og steinselja. Þetta eru dásamleg hráefni til að para við eitt af því besta úr íslensku sjávarfangi – þykk þorskhnakkaflök!

Ofnristaður þorskur með ansjósu, ólívu, kapers og chillismjöri
Innihaldslýsing
100 g smjör
50 ml jómfrúarolía
6 ansjósuflök
2 msk kapers
15 kalamata-ólífur
1/2 chili-pipar
1 kg þorskhnakki
salt og pipar

Setjið olíuna og smjörið í pott og bræðið smjörið.

Lækkið hitann eilítið og setjið svo smátt söxuð ansjósuflökin út í. Látið malla við vægan hita í fimm til sjö mínútur þangað til ansjósurnar hafa bráðnað saman við smjörið.

Bætið svo við kapers, smátt söxuðum chili-pipar og ólífum og eldið áfram í 10 mínútur.

Skerið þorskhnakkann niður í skammtastærðir og penslið með smávegis af smjörinu. Saltið og piprið.

Grillið þorskhnakkann undir ofngrillinu – setjið fiskinn rétt ofan við miðjan ofninn. Hann ætti að verða tilbúinn á sjö til tíu mínútum.

Raðið svo þorskhnakkanum á disk og hellið smjöri yfir fiskinn.

Spíntakartöflumús

Að blanda spínati í kartöflumús lífgar verulega upp á hana og gerir hana léttari og jafnvel mildari. Spínatið þarf ekki að elda ef það er sett út í rjúkandi heitar kartöflurnar, það dugir einfaldlega að hræra því saman við og blöðin munu skreppa saman og eldast í gegn.

Verið ófeimin við að auka spínatmagnið í uppskriftinni, músin verður ekkert síðri. Kreistur hvítlaukur hefur heldur aldrei eyðilagt neitt í þessu samhengi.

1 kg kartöflur (helst mjölmiklar)
salt og pipar
1 dl nýmjólk
100 gr smjör
200 g spínat

Flysjið og sjóðið kartöflur í ríkulega söltuðu vatni.

Þegar hægt er að stinga í gegnum þær með hníf án mótstöðu eru þær tilbúnar.

Hellið kartöflunum í sigti og látið renna vel af þeim.

Setjið aftur í pottinn og maukið með stappara.

Bætið salti, pipar, mjólk og smjöri við og hrærið vel saman.

Skolið spínatið og þurrkið, gjarnan í salatvindu, áður en því er blandað saman við kartöflumúsina.

No comments:

Post a Comment