Thursday 26 December 2013

Besta samloka allra tíma og svo nokkrar svipmyndir frá jólunum 2013

Jólin eru ljúfur tími í faðmi fjölskyldu og vina. Og það er gott að hafa það náðugt yfir hátíðarnar. Ég var reyndar á bakvakt bæði á aðfangadag og jóladag. Og það var rólegt á deildinni og notalegt að ganga stofugang um hátíðirnar. Það er svo stóískt yfirbragð yfir öllum - meira segja þeim sem liggja inni yfir hátíðarnar. Þannig að ég get eiginlega ekki kvartað vaktabyrðinni! 

Ég fór óvænta ferð til Íslands í síðustu viku þegar mér bauðst að koma fram í sjónvarpsþætti Loga Bergmann - Logi í beinni sem var sendur út núna á föstudaginn 20. desember. Ég bauð Valdísi, dóttur minni, með mér og því gat hún haldið upp á afmælið sitt með því að hitta frænku sína og bestu vinkonu og fá að koma með mér í sjónvarpssal - hún var himinlifandi með þessa jólagjöf. Ég gat því nálgast það sem mig vantaði fyrir hátíðirnar eins og svínahamborgarahrygg, smjör og fleira! 

Það var nú samt eiginlega mest að gera í eldhúsinu hjá mér. En allt var þó með hefðbundnu sniði. Þá hefur íhaldssemin tögl og hagldir í öllum siðum og venjum. Ég gerði svínhamborgarhrygginn á aðfangadag og svo kalkún í gærkvöldi og í dag bauð bróðir minn upp á bestu samloku allra tíma! 

Besta samloka allra tíma og svo nokkrar svipmyndir frá jólunum 2013



Hamborgarahryggurinn var gerður með hefðbundu sniði - hægt er að sjá meira um hann hérna. Ég bætti nokkrum einiberjum við rauðvínssoðið sem ég sauð hrygginn í. Ætli ég hafi ekki líka verið ögn örlátari á rauðvínið að þessu sinni!


Fékk vel fitusprendan hrygg að þessu sinni og hann var mjög ljúffengur! Ótrúlega safaríkur og góður!


Og auðvitað var graflax í forrétt - makalaust hvað það er einfalt að gera graflax. Fyrir uppskrift er hægt að kíkja í bókina mína - eða hérna!


Við hjálpuðumst að í eldhúsinu eins og vant er. Móðir mín er þarna að verma rauðkálið sem hún hafði gert kvöldið áður. Það er ekki að sjá á þessari dömu að hún verði 64 ára eftir nokkrar vikur! Hún afkastaði því á árinu sem er að líða að verja doktorsritgerðina sína! 


Undirritaður var ákaflega ánægður með jólagjöfina í ár frá eiginkonu sinni - en ég datt í lukkupottinn og fékk leðursvuntu. Fregnir af þessari svuntu hafa þegar borist til nágrannanna og hefur Jónas kollegi minn þegar óskað eftir mjög sérstakri mynd af mér í þessari svuntu. Það gæti þurft nokkra snafsa til að verða við þeirri bón! 


Uppáhalds jólamaturinn minn er eiginlega kalkúninn! Hérna er ýtarleg uppskrift um hann - en svo er hana líka að finna í bókinni minni! 


Smjörið leikur lykilhlutverk í minni uppskrift og er fuglinn bæði sprautaður og ...



... og svo er hann hjúpaður með smjöri og meira að segja læt ég viskastykki liggja á honum sem hefur verið drekkt í smjöri og olíu!


Með matnum drukkum við eitt af mínum uppáhaldsvínum, Spánverja að nafni RODA frá 2008. Vínið er unnið úr 100 prósent Tempranillo þrúgum sem kemur af rúmlega 30 ára gömlum vínvið. Þetta er kraftmikið vín og gott vín - ljúffengt á bragðið - með ilm og bragð af dökkum berjum og næstum brenndri eik. Good stuff!

Og daginn eftir var svo besta samloka allra tíma - hún er svo góð að við hlökkum til að borða hana allt árið! Það er Kjartan, bróðir minn, sem hefur verið að þróa þessa samloku, nánast árum saman. Hún verður stöðugt betri!


Fyrst er að skera kalkúnin niður. 


Raða brauði á ofnskúffu og smyrja með blöndu af sultu og mayonaisi. Síðan er ostur settur yfir. 


Næsta skref er að setja sósu á hina sneiðina. Svo ljúffengu fyllinguna og svo er brauðsneiðunum hent undir grillið í eitt augnablik. 


Næsta skref er að setja rauðlauk í þunnum sneiðum.


Svo tómata og salat.


Og að loka - og mikilvægast af öllu - eins mikinn kalkúnn og brauðsneiðin ber!


Svo er bara að tylla sér niður með smávegis af jólaöli eða malti og appelsíni! 

Núna er sko tími til að njóta!

3 comments:

  1. Sæll, kærar þakkir fyrir þessa æðislegu síðu!!

    Ætlaði að athuga hvort það mæti koma með smá frekjubón fyrir árið 2014 ? 'eg hef nefnilega verið svo hrifin af lang/hæg elduðu uppskriftunum sem þú hefur sett inn og var að spá hvort það mæti kanski biða um fleiri í þeim dúr á nýja árinu ? :)

    Bestu kveðjur,

    ReplyDelete
    Replies
    1. Sæl Guðrún Rósa

      Þetta er engin frekjubón! heldur frábær uppástunga! Það verður án efa meira í þessum dúr á komandi mánuðum. Hef hafið vinnu við bók nr. 2, sjónvarpsþætti og svo þarf náttúrulega að halda þessu bloggi lifandi.

      mbk,
      Ragnar

      Delete
    2. 2014 verður svo sannarlega spennandi ár hjá þér verður gaman að fylgjast með ;)

      En takk fyrir að taka svona vel í hugmyndina í þessu veðurfari sem hefur verið hér á Íslandi undanfarið er ekkert notanlegra en að skella hráefnunum í ofnin og láta malla þar í nokkra tíma meðan eldhúsið fyllist að notalegum ilm :)

      Delete