Sunday 8 December 2013

Dásamlegt súkkulaði fondant með þeyttum rjóma í afmælisveislu Valdísar



Frábæra dóttir mín, Valdís Eik, verður 13 ára 20. desember næstkomandi. Hún óskaði sérstaklega eftir því að afmælið sitt yrði haldið aðeins fyrr þar sem henni finnst sá tuttugasti vera óþægilega nálægt jólunum! Hún hefur ýmislegt fyrir sér í þeim efnum. Og það var auðvitað ekkert mál að gera svo. Hún bauð öllum bekkjarsystrum sínum í kvöldverð og vildi hafa veitingahúsastemmingu. Hún hafði óskað eftir sínum uppáhaldsmat. 

Við hjónin klæddum okkur upp og þjónuðum til borðs. Ég stóð vaktina í eldhúsinu ásamt Vilhjálmi syni mínum sem aðstoðarkokki. 

Á matseðlinum var í forrétt hvítlauksristuð brúsketta með tómötum og basil. Í aðalrétt vildi dóttir mín bjóða upp á upphaldsmatinn sinn - steik og bernaisesósu sem ég eldaði nýlega með þessum hætti, sjá hérna! Í eftirrétt óskaði hún síðan eftir því að fá þennan ljúffenga eftirrétt!

Dásamlegt súkkulaði fondant með þeyttum rjóma í afmælisveislu Valdísar

Innihaldslýsing

200 g smjör
200 g dökkt súkkulaði
200 g sykur
200 g hveiti
4 egg
4 eggjarauður
50 g smjör til að smyrja mótin
8 tsk kakóduft



Bræðið smjörið í potti og penslið síðan kökumótin. Setjið í frysti í 30 mínútur. Takið út og penslið aftur. Setjið skeið af kakódufti í mótið og veltið mótinu þannig að það hjúpist að innan. Hellið því sem er umfram. Setjið aftur í  frystinn og undirbúið fyllinguna. 


Tyllið stálskál yfir vatnsbað og bræðið smjörið og súkkulaðið saman. Hrærið vel og setjið til hliðar í nokkrar mínútur. Í annarri skál hrærið þið saman eggin, eggjarauðurnar og sykurinn þangað til blandan er þykk og pískurinn skilur eftir far í henni.

Sigtið hveitið yfir eggjablönduna og hrærið saman. Blandið súkkulaðinu við, þriðjungi í senn, og hrærið saman í þykkt deig.

Takið mótin úr frystinum og hellið deiginu í þau. Gætið þess að fylla ekki mótin meira en að 3/4 þar sem kakan á eftir að lyfta sér. 



Bakið í 180 gráðu heitum blástursofni í 10-12 mínútur þangað til kakan fer að losna aðeins frá kantinum og yfirborðið hefur harðnað. Bíðið í nokkrar mínútur áður en þið reynið að ná kökunni úr formunum. Berið fram með ís eða rjóma.


Tími til að njóta!

Þessa uppskrift er finna í bókinni minni - Læknirinn í Eldhúsinu, Tími til að njóta.
Bókin, sem er uppseld hjá forlaginu, hefur greint mér frá því að ný sending af bókinni sé væntanlega í búðir strax í næstu viku!


No comments:

Post a Comment