Thursday 15 September 2011

Hreinasta hollusta: Petits Pois súpa með heimagerðu heilhveitibrauði





Það eru augljós teikn um að það sé komið haust. Og mun fyrr en oft áður - hér blæs kröftuglega og rignir hressilega. Og það er í sjálfu sér í fínu lagi! Mér finnst haustin vera frábær tími, nema á morgnanna og ég er að hjóla í vinnuna og það er mótvindur og það rignir - þá er maður enginn sérstakur aðdáandi. En á haustin fær maður alla þessa meiriháttar uppskeru - allt dásamlega grænmetið og auðvitað sveppina. Þeir sem lesa bloggið mitt ættu að vera ljóst hversu mikil aðdáandi ég er.

Á haustin er líka tækifæri til að snúa aðeins við blaðinu og prófa nýja hluti. Á næstu mánuðum verður mun meira af grænmetisréttum á mínum borðum en oft áður. Ekki að ég sé að gefa kjöt upp á bátinn, því fer fjarri. Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt. En það er ekki bara nýjungagirni sem knýr mig áfram. Það eru tvær ástæður fyrir þessu - sú fyrsta er fengin frá Michael Pollan sem hefur skrifað fjölda frábærra bóka um matarmenningu okkar á Vesturlöndum (eða matarÓmenningu öllu heldur) og hans niðurstaða er þessi; Eat food, not too much. Mostly plants - fyrir þessu hefur hann óteljandi rök og í stað þess að rekja þau hér get ég bent á bækur hans: t.d. Omnivore's dilemma auk fleiri bóka. Síðan benti Jón Þorkell, kollegi minn og nágranni, á grein eftir Hugh Fearnley Whittingstall (einn af mínum uppáhaldssjónvarpskokkum og matreiðslubókahöfundur) sem birtist nýlega í The Guardian þar sem hann skrifar um umhverfisáhrif þeirrar matarmenningar sem við búum við og hvernig við förum með dýrin sem við leggjum okkur til munns.

Niðurstaða mín eftir allan þennan lestur var að borða meira grænmeti og borða síðan vandað, vel upp alið, jafnvel líffrænt ræktað kjöt. Þetta kjöt er auðvitað aðeins dýrara en það vegur á móti að á Suður Skáni er grænmeti heldur ódýrt. Þetta er nú landbúnaðarhérað! En grunnhugmyndin er eitthvað á þessa leið; kjötlausir mánudagar, fiskréttur á þriðjudögum, grænmetissúpa einu sinni í viku með heimagerðu brauði - svo fá kjötréttir að njóta sín þegar nær dregur helginni. Sjáum hversu vel okkur gengur að halda kúrsinn. Það er allaveganna ekkert að því að reyna, eða hvað?

Hreinasta Hollusta: Petits Pois súpa með heimagerðu heilhveitibrauði



Hráefnalisti

1 laukur
3-4 gulrætur 
2-3 sellerístangir 
2-3 hvítlauksrif 
1 púrrulaukur 
2 L vatn 
600 gr frosnar grænar baunir
knippi af steinselju og
myntulaufum
50 ml af matreiðslurjóma

Súpa eins og þessi er bragðgóð, frískandi og holl. Svo er hún líka ákaflega einföld (segi ég þetta ekki alltaf?). Alltént byrjaði ég á því að skera niður heilan, hvítan lauk, nokkrar gulrætur, 2-3 sellerísstangir, nokkur hvítlauksrif og svo einn púrrulauk. Hitaði jómfrúarolíu í potti og steikti síðan grænmetið við heldur lágan hita í 10 mínútur, muna að salta og pipra. Síðan setti ég 2 lítra af vatni, hækkaði undir pottinum, setti lokið á og sauð af krafti í 45 mínútur (á meðan var ég að sinna brauði - meira af því síðar). Þarna er maður kominn með ágætis grænmetissoð. Smakkað til.



Þá setti ég saman við 600 gr af frosnum grænum baunum (Petits Pois), knippi af steinselju og svo nokkur myntulauf og sauð í 20 mínútur í viðbót. Síðan sótti ég töfrasprota og hakkaði allt niður í fallega grænsúpu. Núna þarf að smakka til, salta, pipra - ég bætti við 50 ml af matreiðslurjóma til að jafna aðeins út bragðið af púrrulauknum sem var aðeins rammt. En annars þurfti ekki að gera mikið.



Þá er ekkert annað að gera en að vinda sér í brauðgerðina.

Fyrst vakti ég 25 gr af geri í 600 ml af ylvolgu vatni sykruðu vatni (30 gr af sykri) og lét standa í 10 mínútur eða þar til það var farið að freyða vel.


Næst var að huga að brauðinu (ég lýg því nú - ég gerði það að hálfu leyti á undan). Blandaði saman 500 gr af grahamsmjöli, 250 gr af heilhveitimjöli og svo 250 gr af hvítu hveiti í skál. Bætti saman við kannski 30 gr af grófu salti, 3 msk af jómfrúarolíu.



Þá var vökvanum blandað varlega saman við á meðan deigið hnoðaðist í hrærivélinni. Stundum þarf maður að bæta við meira mjöli/vatni eftir því hvernig deigið er. Þegar það er orðið fallegt og mjúkt og dúar undan fingri þarf maður ekki að bæta neinu meira við, bara hnoða það vel og rækilega í 10 mínútur. Klútur breiddur yfir og deigið látið hefast þangað til að það hefur að minnsta kosti tvöfaldast í stærð.



Þegar það er lokið þá er deigið lamið niður og brauðhleifurinn formaður á plötu. Skar smá mynstur í deigið - en það hefur líka praktíska þýðingu þar sem deigið á eftir að hefast aftur og jafnvel rísa en meir í ofninum - þá heldur það lögun sinni betur og rifnar síður. Deigið látið hefast aftur í tæpan hálftíma og síðan bakað í 180 gráðu heitum ofni í 40 mínútur.




Borið fram með smjöri, ostum og einföldu tómata-, mozzarella- og basilsalati. Sælgæti!

Bon appetit

3 comments:

  1. Ragnar, ég gæti ekki verið meira sammála þér um ómenninguna. Sérstaklega hvernig factory farming í Bandaríkjunum er. Það lætur mann skammast sín fyrir að vera maður! Við erum btw ömurleg dýrategund.

    ReplyDelete
  2. Líst vel á þetta hjá þér. Þetta er einmitt ein af (mörgum) ástæðunum fyrir því að ég borða ekki kjöt og Jóhannes hefur einungis fengið hamingjusama kjúklinga síðan árið 2001 þegar við fluttum fyrst til UK. Þeir fást ekki á Íslandi og því fær hann ekki kjúklingakjöt á Fróni :) Ég nota einungis hamingjusöm egg í alla matargerð og verð voðalega glöð að heyra ef aðrir gera slíkt hið sama.

    Myndirnar eru líka orðnar ansi fínar hjá þér....birtan góð og litirnir skýrir og fallegir.

    Kv. til Snædísar :)

    ReplyDelete
  3. Mér líst ljómandi vel á uppskriftina og þetta er góð leið til að nýta grænmeti sem komið er að "síðasta söludegi". Nægjusemi er dyggð!

    ReplyDelete