Thursday 1 September 2011

Fantagóðar "franskar" lambarifjur með bökuðu tómatsalati og sætumkartöflum að hætti Bryndísar





Eins og fram hefur komið á heimsíðunni minni þá fórum við fjölskyldan í heimsókn til Íslands núna í júlí síðastliðinn. Við vorum í langþráðu frí og okkur gafst auðvitað tækifæri að hitta vini og vandamenn. Ísland er best á sumrin. Er ekki íslenska sumarið að lengjast? Svo virðist sem hlýnun jarðar hafi þessar jákvæðu aukaverkanir! Og kannski veitir ekki af, fyrir Frónbúa - sólin lyftir manni upp og lætur manni líða betur. Þegar heim var komið til Svíþjóðar vorum síðan heldur óheppin með veður, skýjað og rigning samfleytt í þrjár vikur með einstaka undantekningum. En maður lætur svoleiðis ekkert svekkja sig.

Við náðum að hitta bestu vini okkar í heimsókninni og þar á meðal æskuvin minn, Sverri Norðfjörð, og eiginkonu hans Bryndísi og strákana þeirra, Hákon og Pétur. Þetta var einkar ljúft kvöld. Bryndís sá um matargerðina og Sverrir sá um að fylla á glösin. Ég hef oft nefnt það hversu góður kokkur Bryndís er - og við vorum alls ekki svikin í þetta skiptið - aldeilis ekki! Þetta var svo góður réttur að ég reyndi að leika hann eftir eins vel og ég gat fyrir mömmu og pabba þegar þau komu síðan í heimsókn til okkar til Lundar í byrjun ágúst.

Þessi meðferð á rifjunum er almennt kölluð frönsk aðferð til að meðhöndla lambahrygg. Þá varðveitir maður meira af sjálfum rifjunum. Maður sker burtu hluta af síðunni af og hreinsar síðan kjötleifar af rifjunum þannig að beinin standi út.

Þetta hefur ekki mikil áhrif á lokaniðurstöðuna - kannski verður hryggurinn safaríkari? Eitt er nokkuð víst að rétturinn verður ansi tignarlegur fyrir vikið. Myndbandið hérna fyrir neðan, í boði www.cooking.com, sýnir ágætlega hvernig maður ber sig að - nema það myndi aldrei hvarfla að mér að skera svona mikið af fitunni frá - enda hefur fitan mikil áhrif á bragðið. Að mínu mati væri það skynsamlegra að hreinsa fituna frá eftir að maður hefur eldað lambið, þá hefur hún að minnsta kosti þjónað tilgangi sínum ... maður á svo við samvisku sína hvort maður ákveður að gæða sér á henni. Það þyrfti allavegana ekki að spyrja móður mína tvisvar sinnum hvort maður ætti að kasta fitunni eða borða hana!

[embed]http://www.youtube.com/watch?v=D3H3hbqYcEk[/embed]

Fantagóðar "franskar" lambarifjur með bökuðu tómatsalati og sætum kartöflum að hætti Bryndísar
Eins og kom fram í innganginum þá var það Bryndís sem eldaði þennan rétt - og ég kom hvergi nærri. Ég stóð hliðina á Sverri þegar hann skar niður kjötið og horfði á með aðdáunaraugum þegar maturinn var undirbúinn. Ég passaði einna helst upp á að verða ekki þurrbrjósta á meðan aðrir unnu hörðum höndum í eldhúsinu.



Fyrst voru rifjurnar þrifnar og þurrkaðar. Þá voru þær saltaðar og pipraðar og síðan brúnaðar að utan á heitri pönnu, rétt til þess að loka kjötinu. Þá voru þær settar til hliðar á meðan næstu skref voru undirbúin.



Kryddblandan var búin til úr handfylli af nýrifnum parmaosti, hvítlauksrifi, handfylli af brauðmylsnu, handfylli af steinselju, basil og fersku timian og svo salti og pipar sem var allt hakkað saman í matvinnsluvél þangað til að það varð að fallegri heiðgrænni mylsnu sem ilmaði dásamlega.



Næst var síðan að smyrja lambarifjurnar með sinnepi.



Og síðan velta þeim upp úr mylsnunni.



Þá var þeim raðað í eldfast mót og þær bakaðar við 200 gráðu hita þangað til að kjarnhitinn náði um 65 gráðum.



Með matnum bar Bryndís fram þetta ljómandi góða bakaða tómatsalat, sem var heit útgáfa af ítalska tricolore, þykkar sneiðar af tómat, lauk, mozzarellaosti, salt, pipar, basillauf og nokkrar greinar af timian. Þá var hún einnig með ofnbakaðar sætar kartöflur sem hafði verið velt upp úr jómfrúaroliu, saltaðar og pipraðar og svo bakaðar í ofni þangað til mjúkar.



Svo gerði hún einfalda hvíta sósu úr sýrðum rjóma, muldu hvítlauksrifi, skvettu af sírópi, niðurskornum gúrkubitum, salti og pipar. Ljúffengt.



Með matnum drukkum við meðal annars þetta prýðisgóða Trivento Tribu Pinot Noir frá því 2010. Ég varð nánast heilaþveginn af myndinni Sideways sem var vinsæl hér um árið - en aðalpersóna þeirrar myndar, Miles, hélt mikið upp á Pinot vín en fyrirleit Merlot, af einhverri einkennilegri ástæðu. Þetta vín er dökk rúbinrautt í glasi. Léttur ilmur af plómum og berjum. Ágætt fylling og aðeins eikað í lokin. Þetta er ágætis vín og mér fannst það passa ljómandi vel með matnum.



Tími til að njóta!

3 comments:

  1. Kona mín er snilldarkokkur og verið gestakokkur á fyrsta flokk veitingastöðum og sér um eldamennskuna heima hjá okkur með mikul sóma. Hún sér líka um að kaupa og lesa allar kokkabærur heimsins.

    Einu mataruppskriftir sem ég les eru á vefsíðu þinni og það geri ég af áhuga.

    Enda vel skrifaðar um frábæran mat með dassi af prívatlífi þínu.

    Þakka fyrir mig.

    ReplyDelete
  2. Nýbúinn að uppgötva síðuna þína, hún er bara snilld. Ætla að prófa rifjurnar í kvöld. Hafðu þökk fyrir.

    ReplyDelete
  3. Guðríður Kristinsdóttir4 September 2011 at 21:27

    Líst mjög vel á þessa uppskrift - ætla að prófa hana á næstu dögum. Ég er að velta fyrir mér hvort þú lumir á einhverri hugmynd að rétti úr öllum afskurðinum. Finnst hann dálítið mikill sérstaklega með tilliti til hvað lambakjöt er orðið dýrt á Íslandi. Gamla góða kæfa er ekki spennandi valkostur þó svona hráefni sé notað í hana.

    Takk fyrir frábæra síðu.

    ReplyDelete