Wednesday 24 August 2011

Kraftmikið pasta penne með ljúfengri eggaldin- og tómatsósu

Það hefur verið erfitt að byrja að vinna aftur eftir langt sumarfrí. Ég er búinn að vera í heilar fimm vikur í leyfi. Ég hef aldrei tekið svona langt frí áður. Venjuega hef ég notað tækifærið og unnið einhvers staðar annars staðar, út í sveit, svona rétt til að hysja upp tekjurnar aðeins - og eiga fyrir lífsins lystisemdum. En að þessu sinni ákvað ég að núna muni maður njóta sumarsins. Og maður er aldeilis búinn að hafa það gott - alltof lengi. Og ég held að það sé þess vegna sem maður hefur verið heldur lúinn síðastliðna daga. Ég veit hreinlega ekki hvort að ég muni leggja í að fara í svona langt frí aftur, ætli ég taki mér ekki styttri frí næsta sumar í nokkrum lotum.

Jæja, að matnum. Þessi réttur var innblásinn úr einni af matreiðslubókum Marcellu Hazan, sem oft hefur verið eignað að hafa kynnt alvöru ítalska matargerð fyrir Bretum og Bandaríkjamönnum. Hún gaf út nokkrar bækur en bókin sem við eigum heitir, Essentials of Classical Italian Cooking, og kom út árið 1992. Þessi bók er auðvitað alger klassíker. Besta Spaghetti Bolognase sem eldað hefur verið á þessu heimili var elduð af bróður mínum upp úr þessari biblíu ítalskrar matargerðar.

Þessi uppskrift, sem er til umfjöllunar að þessu sinni, er lítið annað en tómatsósa "with a twist". En þessi snúningur sem verður til við að bæta steiktu eggaldini við réttinn kúvendir honum algerlega. Ég hef í gegnum tíðina aldrei verið neitt sérstakur aðdáandi eggaldins. En eftir að hafa lesið aðeins meira um þetta einkennilega bjúglaga fyrirbæri hefur skoðun mín á því líka breyst. Ég hafði augljóslega ekki kunnað að elda eggaldin - alltént ekki þannig að mig langaði til að borða það aftur. En eftir að ég fór að steikja hann í ríkulegu magni af olíu þangað til að það verður gullin brúnt, þá umbreytist eggaldinið algerlega. Það fær djúpt, ríkulegt og jafnvel dálítið heitt bragð. Ég hvet alla til að prófa þessa sáraeinföldu uppskrift, hún er algerlega gómsæt.

heimagerður serviettuhringur

Á meðan við föndruðum í eldhúsinu bjó Valdís, dóttir mín, til nokkra laglega servíettuhringi.

Kraftmikið Pasta penne með steiktu eggaldin- og tómatsósu

eggaldin

Fyrst er að huga að því að gera tómatsósuna. Eins og kom fram þá er hún afar einföld. Fyrst er að skera niður smátt heilan hvítan lauk, nokkur hvítlauksrif og steikja í 3-4 msk jómfrúarolíu við lágan til miðlungs hita þangað til hann er lungamjúkur og ljúffengur (þarna væri möguleiki að skvetta smá rauðvíni á pönnuna óski maður þess - en ég gerði það ekki). Svo setti ég tvær dósir af góðum ítölskum niðursoðnum tómötum saman við og leyfði hitanum að koma rólega upp. Auðvitað er saltað og piprað ríkulega. Niðursoðnir tómatar eru auðvitað misjafnir að gæðum - sumir súrir og aðrir sætir. Fyrir þá sem lenda í því að vera bara með súra tómata er auðvitað lítið mál að redda því með því að setja smá sykur saman við sósuna. Við bættum síðan handfylli af basillaufum við í lokin og leyfðum sósunni að malla á lágum hita á meðan hugað var að eggaldinum.

DSC_0507

Eggaldinið var skorið niður í sneiðar og lagt á pappír. Salti var sáldrað yfir og svo fékk eggaldinið að svitna talsvert áður en það fór á pönnuna. Vökvinn dregst í eldhúsbréfin. Panna er sett á eld og kannski hálfum sentimetra af olíu sett á pönnuna - hérna má nota bara venjulega jómfrúarolíu. Eggaldinið er síðan steikt á báðum hliðum þangað til gullinbrúnt.

gullinneggaldin

Það er dáldið gaman að fylgjast með þessu steikjast á pönnunni (ég veit, I am a foodnerd!). Fyrst tekur maður eftir því hvernig eggaldinið sogar í sig olíuna (og maður fær mórall) en svo tekur maður gleði sína á nýjan leik þegar maður sér að það lætur frá sér olíuna á nýjan leik þegar það er tilbúið. Þannig að þegar það er jafnmikið af olíu á pönnunni og þegar maður byrjaði - þá er eggaldinið tilbúið. Tekið af pönnunni og lagt á eldhúsbréf. Skorið niður í heldur smáa bita og blandað saman við tómatsósuna.

eggaldinstómatsósa

a mano
Með matnum vorum við með einfalt salat; bara grænt salat úr garðinum, papríka, gúrka, steinselja og nokkrar svartar kalamata olífur - smávegis af brauði og svo auðvitað penne sem var bara soðið eftir leiðbeiningum í söltu vatni þangað til "al dente". Þegar pastað er tilbúið er sósunni hrært saman við og svo reif ég nóg af parmaosti yfir.

Með matnum fengum við okkur bara smáræði af þessi ágæta ítalska víni. A Mano Primitivo frá því 2007. Þetta vín er á góðu verði hérna í Svíþjóð. Þetta vín er frá Apulien sem er rétt fyrir utan Taranto, sem er á skaga rétt sunnan við miðju Ítalíu. Þetta er ágætt vín - kraftmikið - mjög dökkt í glasi, ilmar af miklum ávexti. Ljúft á bragðið, tannín og með löngu eftirbragði.

meðpasta

Bon appetit!

2 comments:

  1. Valdís, matur HVAÐ!! Þetta er allt í umbúðunum!

    ReplyDelete
  2. hólímólí hvað þetta er girnilegt!

    ég myndi ekkert fara að gráta ef þú hentir inn Spag Bol uppskriftinni líka ;)

    takk annars fyrir dásamlegt matarblogg sem ég nota heilmikið í eigin eldhúsi :)

    ReplyDelete