Tuesday 9 August 2011

Allt í steik! Kolagrilluð langhangin nautasteik með kryddsmjöri, heitusveppasalati og kartöflugratíni





Ég var í gærkvöldi við það að birta færslu um kantarellur og nýfundna ást mína á þessum dásamlega svepp þegar að vinnutölvan mín lagði upp laupana. Bara dó - bar fyrir sig að hún gæti ekki fundið harða diskinn. Déskotans tölvur. Ég flippaði auðvitað eins og mér einum er lagið. Hafði ekki bakkað upp tölvuna í tæpar þrjár vikur og sá því fyrir mér að að hluti af rannsóknargögnunum mínum sem og sumarleyfismyndirnar væru fyrir bí. Í morgun hafði ég síðan samband við tölvugaurinn - sem sagði mér að það væri alltaf hægt að bjarga þessu. Mér létti stórkostlega!

Ég hafði þó haft vit á því að bakka upp gögnin mín fyrir nokkrum vikum þannig að að tapið er ekki stórkostlegt - en það er alltaf fúlt að lenda í svona. Sér í lagi þegar forvörnin er svo einföld! Jæja, maður lærir svo lengi maður lifir. Er ekki nær að snúa sér að matnum.

Í einni af hverfisbúðunum hefur hangið nautakjöt sem hefur verið hengt upp á mismunandi tímapunktum síðan í vor. Glæsilegir nautahryggir og lundir hafa fengið að hanga í þar til gerðum skáp í að minnsta kosti 10 vikur. Niðurstaðan var vægast sagt girnileg. Kjötið hefur fengið á sig dökkan og fallegan lit og leit afar spennandi út.



Allt í steik! Kolagrilluð langhangin nautasteik með kryddsmjöri, heitu sveppasalati og kartöflugratíni
Það góða við að grilla steik er að svona matseld er einföld - en þó er auðvelt að klúðra henni. Helstu mistökin felast í því í að ofelda steikina. Slíkt er að mínu mati bannað. Oft er talað um þrjár leiðir til að elda steik; rare, medium rare og svo ruined (ónýtt!). Fátt er ógirnilegra en að tyggja einhvern skósóla!



Fyrst var að huga að því að gera kryddsmjörið. Ég hafði keypt smjör í Frakklandi sem ég hafði ætlað í svona hlutverk - franskt smjör með grófu sjávarsalti, namminammi. Fyrst var að láta 100 gr af smjöri ná herbergishita, bæta við smátt skornum berki af hálfri sítrónu, 2 smátt skornum hvítlauksrifjum, smávegis af smátt saxaðri sítrónumelissu og steinselju og svo auðvitað nýmöluðum pipar. Þessu er síðan hnoðað saman og svo rúllað út í pylsu, sett í álpappír og inn í kæli.


Síðan er að huga að því að gera gratínið - sem að þessu sinni var alveg klassíkt. Kartöflurnar voru skornar næfurþunnt niður í matvinnsluvél. Raðað í eldfast smurt mót. 300 ml af matreiðslurjóma hellt út á, salt, pipar, smávegis af nýmuldum negul. Svo setur maður auðvitað ost ofaná. Bakað í ofni, 180 gráðu heitum, í tæpan klukkutíma - jafnvel fimm korter.



Áhugi minn á sveppum hefur stóraukist seinustu vikurnar - það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum sem kíkir á bloggið mitt. Þetta er ekki villisveppasalat - allt fengið úr búð - enda var þessi máltíð elduð áður en að sveppatímabilið byrjaði.



Hita grill - blússhita! Grilla fyrst sveppina - blöndu af venjulegum hvítum sveppum, skógarsveppum og svo portobellosveppum. Salta og pipra auðvitað og setja síðan til hliðar á grillinu.


Steikurnar eru penslaðar með olíu, saltaðar og pipraðar og síðan eldaðar í 1-2 mínútur á hvorri hlið, allt eftir þykkt steikanna og svo hita grillsins. Látnar standa í nokkrar mínútur undir álpappír til að jafna sig áður en maður gæðir sér á þeim.



Á meðan steikurnar hvíla er um að gera að klára að gera heita sveppasalatið. Sveppunum er blandað í skál, safa úr hálfri sítrónu settur yfir, smá lögg af góðri jómfrúarolíu, saltað og piprað og svo er nokkrum matskeiðum af niðurskorinni steinselju blandað saman við.





Með matnum fengum við okkur rauðvín. Að þessu sinni varð fyrir valinu vín frá Spáni - Montecillo Gran Reserva frá því 2003. Vínið er dálítið rústrautt í glasi, ansi kröftugur ilmur, ber. Bragðið er einnig kröftugt, dáldið kryddað með löngu og góðu eftirbragði.

Kjötið var hreint út sagt afbragð. Meyrt og bragðmikið. Ég var feginn að hafa ekki verið með þunga sósu - kjötið fékk að njóta sín á þennan hátt betur en ella.





Bon appetit!



No comments:

Post a Comment