Thursday 18 August 2011

Dásamleg Ítölsk Pott-steik með kartöflumús, tómatsalati og góðu rauðvíni

Það var snemma í seinustu viku að ég ákvað að elda þennan rétt. Af einhverri ástæðu fór ég að rifja upp ferðalag til Boston sem ég og Snædís fórum í árið 2005. Þá var Snædís ólétt af stráknum okkar, honum Vilhjálmi Bjarka sem varð sex ára í síðustu viku. Á því ferðalagi fórum við á nokkra ágæta veitingastaði, m.a. ítalska veitingastaðinn Maggiano's Little Italy sem er við Colombus Avenue. Við rötuðum þarna inn snemma á sunnudagskvöldi og fengum ágætis borð. Þetta er huggulegur staður með dökkum viðarinnréttingum og rauðköflóttum dúkum á borðum. Okkur var færð brauðkarfa sem hefði náð að seðja hungur í meðalstóru þorpi í þróunarlöndunum - dísus! Efst á matseðlinum var í boði "All Authentic Italian Pot Roast - only on Sundays". Og auðvitað varð ég að prófa þetta - en ekki hvað?



Og ég var ekki svikinn! Bragðið var djúpt og arómatískt...og svínakjöt er stundum bara alveg fullkomið. Bragðið af svínakjöti getur oft orðið alveg frábært, sér í lagi feitir bitar, sem hafa verið eldaðir lengi. Fitan einhvern vegin eldast burtu en skilur eftir kjötið - meyrt - þannig að það bráðnar undir tönn. Og þessi réttur er þannig. Hann er fullkominn fyrir bita eins og svínahnakka - vel fitusprengdan. Svoleiðis biti passar vel fyrir langa eldun við lágan hita.

Sumir myndu halda því fram að svona réttir sé matur sem passar best fyrir köld vetrarkvöld. Og það er vissulega rétt. Það hefur samt verið svo ári haustlegt upp á síðkastið. Sumarið hefur verið heldur dapurlegt svona "veðurfræðilega" séð. Það hefur verið skýjað, rignt meira en góðu hófi gegnir og verið hvasst af og til. Ekki að undra að maður sé farinn að hugsa um haustið sem venjulega hefur ekki látið á sér kræla fyrr en um miðjan september í fyrsta lagi...allavegana síðan að við fluttum hingað. Og þess vegna eldar maður svona dásamlegan rétt. Endilega prófið þennan, ég lofa að hann á ekki eftir að svíkja!

Dásamleg ítölsk pott-steik með kartöflumús, tómatsalati og góðu rauðvíni



Þetta er réttur sem maður byrjar að elda um miðjan dag og þarf síðan ekkert að huga að aftur fyrr en um kvöldmatarleytið. Bara gleyma matnum í ofninum við lágan hita og huga að öðru hverju á meðan.



Fyrst er að gera að grænmetinu. Skera niður heilan hvítan lauk, 3-4 stæðilegar nýjar gulrætur, 2-3 sellerístangir, 5-6 hvítlauksrif og síðan hálfan fennelhaus, skera allt heldur gróft niður.

Síðan er að þurrka 1,5 kg af beinlausum grísahnakka að utan (þá karmelliserast hann betur) og síðan salta og pipra og nudda svo smá hveiti í kjötið. Þá er að hita olíu í stórum potti og þegar fer að rjúka úr pottinum er steikin sett í pottinn og steikt við háan hita til að loka henni. Lokuð á öllum hliðum. Sett til hliðar.



Þá er hitinn lækkaður og smáræði af olíu er bætt í pottinn og grænmetinu skellt útí og steikt í nokkrar mínútur. Salta og pipra smávegis til þess að hjálpa til að draga vökva úr grænmetinu og losa "fondinn" sem varð til við steikingu á kjötinu og situr oft fast við botninn eða hliðarnar á pottinum. Grænmetið er steikt þangað til mjúkt og þá er kjötið sett aftur í pottinn.

Þá hellir maður tveimur dósum af niðursoðnum tómötum saman við, jafnmikið af vatni, 400 ml af rauðvíni, smávegis af kjötkrafti og hrært saman. Síðan setti ég 2-3 greinar af rósmaríni og 5-6 greinar af timiani út í pottinn. Lokahnykkurinn var að setja nokkra Karljóhann sveppi saman við. Þeir höfðu verið þurrkaðir fyrir nokkrum vikum (settir í skál - sjóðandi vatn saman við og látið standa í 30 mínútur) og þegar þeir hafa þanist eilítið út í vatninu er því bætt í pottinn (bæði sveppunum og vökvanum). Hrært saman, saltað og piprað og suðunni leyft að koma upp - og soðið í nokkrar mínútur. Þá er potturinn settur í forhitaðan 120-130 gráðu heitan ofn og látið vera þar í 3-4 tíma.



Kjötið verður algerlega lungamjúkt við þessa meðferð og nánast dettur í sundur þegar það er tilbúið. Þegar komið er að kvöldverðartíma er kjötbitinn færður á disk og leyft að hvíla í nokkrar mínútur á meðan sósan er smökkuð til og soðin aðeins niður til að þykkja hana - kannski í 10 mínútur. Það þurfti ekki að gera mikið við hana þar sem hún var núna orðinn kraftmikil með eindæmum og einstakega ljúffeng.



Við sóttum nokkrar kartöflur út í garð. Þær voru þrifnar, flysjaðar og svo soðnar í ríkulega söltuðu vatni þangað til mjúkar. Þá var vatninu hellt af. Því næst voru þær stappaðar, saltað og piprað, smá smjörklípa og mjólk bætt saman við og hrært vel vel saman.



Við gerðum þetta sáreinfalda tómatsalat með blönduðum fallegum smáum tómötum sem við höfðum keypt á markaðnum um morguninn. Við keyptum kannski 5-6 tegundir af tómötum, sem við skárum niður í helminga og settum í skál. Gerði smá dressingu úr balsamikediki, jómfrúarolíu, salti og pipar og sáldraði yfir. Blandaði síðan handfylli af ferskri niðurskorinni steinselju og basil saman við.




Með matnum drukkum við gott ítalskt rauðvín frá Toskana héraði. Da Vinci Chianti frá 2008 varð fyrir valinu í þetta sinnið. Þetta vín er gert úr blöndu af Sangiovese þrúgum (90%) og svo Merlot þrúgum sem fær síðan að liggja á eikartunnum í hálft ár. Vínið er fallega rúbinrautt. Ilmar af plómum og vínberjum. Mjúkt á tungu með smávegis tannínum og ljúfu eftirbragði. Passaði ákaflega vel með matnum að mér fannst.



Bon appetit.

6 comments:

  1. Ég les bloggið þitt eins og trúaður maður biblíuna.

    Hér sótti ég síðast í dag uppskrift að ofnbökuðu laxaflaki.

    Einn af mínum uppáhaldsréttum er kjúklingaréttur mömmu þinnar sem hún pikkaði upp af dönskum restaurant.

    Pottsteikin hér að ofan verður prufuð við fyrsta tækifæri.

    Takk innilega fyrir mig.

    ReplyDelete
  2. Ef ég hefði ekki verið að kyngja afganginum af lúðusúpu a la Malla, sem hún eldaði í tilefni af afmæli frumburðarins, hefði ég slefað bókstaflega. Nú slefa ég í huganum og býð eftir betri svengd!

    ReplyDelete
  3. Ég skoða reglulega bloggið þitt og hef eldað heilmikið úr því. Nú langar mig til þess að vita hvort hægt sé að nota annað en svínakjöt í þennan dásamlega pottrétt.
    Takk fyrir allar hugmyndirnar!

    ReplyDelete
  4. Ragnar Freyr Ingvarsson25 August 2011 at 09:57

    Sael Ester

    Eg hugsa ad thessi rettur yrdi lika alveg dasamlegur med nautakjöti og eda villibrad eins og hreindyri. Kannski lambaframpartur?

    Tho myndi eg alltaf radleggja ad nota "odyrari" bita af kjötinu; öxl, hnakka - a saensku högrev, ensku chucksteak.

    Bara ad thad se vel fitusprengt thannig ad thad tholi svona langa eldun.

    Gangi ther vel!

    ReplyDelete
  5. Er mjög spennt fyrir að prófa þessa uppskrift á morgun - ákvað að nota tækifærið þar sem það eru einstaklega fín grísahnakkstykki á tilboði á dönskum dögum í Hagkaup.!


    Ein spurning varðandi svona grísahnakkastykki hefur þú reynslu af því að gera pulled pork í samlokur og svona ?

    ReplyDelete
  6. Sæl gangi þér vel vel pottsteikina
    Pulled pork verđur í næstu bók!
    Mbk
    Ragnar

    ReplyDelete