Sunday 5 April 2009

Besta skúffukakan; Súkkulaðikaka í þriðja ættlið - Valdís bakar!




Mamma kenndi mér að gera þessa skúffuköku þegar ég var á aldri við Valdísi dóttur mína. Það er þannig að ég kann þessa uppskrift utanbókar - Ég hef bakað þessa köku mörg hundruð sinnum - gæti ég best trúað. Frá því að ég lærði að gera hana, þá 8 ára gamall og þangað til núna. Mest bakaði ég hana fyrir vini mína á táningsárunum. ég held meira að segja að ég hafi sett hraðamet í að setja í þessa köku - 12 mínútur - frá því að smjörið er tekið úr ísskápnum þangað til að kakan fer í ofninn.


Hún er líka einföld - bragðgóð og einhvern veginn hef ég aldrei fengið leið á henni. Fátt er betra en að gæða sér á heitri skúffuköku, með súkkulaðikremi og stóru glasi af ískaldri mjólk.

Besta skúffukakan; Súkkulaðikaka í þriðja ættlið - Valdís bakar!

Hráefnalisti

375 gr hveiti, 450 gr sykur, 1,5 tsk salt, 1,5 tsk lyftiduft, 3/4 tsk matarsódi, 6 msk gott kakóduft. Hið vota; 3 3/4 dl nýmjólk, 3 egg, 190 gr smjöri.

Fyrst er að blanda þurrefnunum saman; Sigta hveitið, lyftiduftið, matarsóda, kakóið. Bæta svo við sykrinum og saltinu.


Það þarf alltaf að ýta á eftir þessu með sleikju. Hún er líka nauðsynleg til þess að gæða sér á deigafgöngum sem sitja innan á skálinni á meðan kakan bakast (syndsamlega gott)


Blanda þurrefninum saman í hrærivélinni. Svo setja 2/3 af mjólkinni og svo mjúkt smjörið (ég mýki það í örbylgjunni). Blanda þessu saman í nokkrar sekúndur þar til þetta er farið að líkjast þykku súkkulaði sementi. Þá er að bæta eggjunum saman við og restinni af mjólkinni. Blanda vel saman við þangað til að þetta verður að fallegu hægt rennandi deigi.

Smyrja ofnskúffuna með smjöri. Hella deiginu í mótið - gæta þess að skilja nóg af deigi eftir til þess að gæða sér á á meðan kakan bakast ... þetta er mikilvægt og vanrækt skref finnst dóttur minni! Bakað í 180 gráðu heitum ofni í 30 mínútur - gætið að tímanum. Ofnar eru ólíkir. Ég sting alltaf hnífi í kökuna og ef ekkert festist á hnífnum - þá er hún til. Einnig sér maður hvernig hún togar sig frá köntunum.

Ég gerði kremið að þessu sinni eftir ganasuppskrift (held að þetta sé rétt skrifað). Súkkulaði 1,2 hlutur á móti 1 hlut rjóma, smá smjörklípu má einnig setja útí til að fá fallegan gljáa á kremið. Auðvitað á svo að sáldra kókós yfir en ég átti hann bara því miður ekki til.

Önnur útgáfa af kremi; Sigta 100 gr flórsykur, 1 msk kakóduft í skál. Hita svo 50 ml vatni með 1 msk af smjörklípu útí og blanda varlega saman við þurrefnin. Dreifa á kökuna, sleikja upp rest og svo sáldra með kókós.



Bon appetit!

No comments:

Post a Comment