Monday 23 June 2008

Næst besta lasagna allra tíma með góðu salati, brauði og góðu rauðvíni!

lasagnaíofni Ég kalla þetta næstbesta lasagna allra tíma vegna þess að konan mín, hún Snædís, gerir besta lasagna sem ég hef smakkað. Og eins og íslenskir pólitíkusar þá er ekki rétt að skipta um skoðun. En hennar lasagna er talsvert frábrugðið þessu. Þetta var mín útgáfa af lasagna - villibráðarútgáfa. Ég er búinn að vera að horfa í frystinn og stari þar reglulega á þessa nokkru bita sem ég á eftir af hreindýrakjöti sem ég var með í að veiða hér um árið. Það fer að verða aðkallandi að borða þetta og loka þannig hringum að dýrið sem ég veiddi verði aftur hluti af fæðukeðjunni en ekki bara íbúi í frystiskápnum mínum. Þetta er ekki mikil sumaruppskrift...en ég er eiginlega í kappi við tímann að klára úr frystinum!

Þegar svona miklu er tjaldað til þá reynir maður aðeins að vera frumlegur. En þegar maður hefur til viðmiðunnar besta lasagna allra tíma þá er þetta allt fremur illa viðhreyfanlegt - þannig að "the devil is in the detail" - eða hið góða - hvað sem því líður voru salatgerð1 breytingar fyrst og fremst fólgnar hráefninu; nautakjöt verður að hreindýrakjöti, smávægar breytingar á okkar bechamelsósunni, litlar áherslubreytingar. Meira vín í sósuna og svoleiðis. Þannig verður breytingin á endanum talsverð þrátt fyrir að ennþá heitir rétturinn lasagna - bara formsins vegna.

Andstætt því sem margir halda þá tekur ekki svo langan tíma að gera lasagna - það fer kannski hvað maður kallar langan tíma - í asi nútímans er kannski stuttur tími aðeins of stuttur fyrir svona matargerð. Þetta tekur í heild sinni svona fimm korter - með öllu - "from prep to plate" eins og sagt er í atvinnueldhúsum. 

lasagna tilbúið Næst besta lasagna allra tíma!.

Fyrst er að gera kjötsósuna. Ein og hálf gulrót, 2 sellerísstangir, ein rauðlaukur, 6 stór hvítlauksrif steiktar í olíu í smá stund þar til fer að mýkjast. Saltað og piprað til þess að kreista fram bragðið. Kjötinu er því næst bætt á pönnuna og brúnað. Þegar kjötið er eldað þá er tveimur ríflegum glösum af rauðvíni bætt saman við. Ég notaði Wolf Blass Eaglehawk úr kassa. Mér finnst ágætt að nota vín sem ég gæti vel hugsað mér að drekka í mat. Það er alger vitleysa að nota vín sem er skemmt - slíkt hefur mér alltaf þótt vera fráleitt, að nota eitthvað í mat sem þú myndir ekki ella leggja þér til munns. Þá er einu glasi af vatni, 2 msk af villibráðarkraft, 1 dós af niðursoðnum tómötum, 1 dós af tómatapaste, 2 tsk oregano, 2 tsk af paprikudufti, 30 steinhreinsuðum kalamataolívum, salti og pipar, handfylli af fersku basil og ferskri steinselju. Suðunni er leyft að koma upp og eldað í 30 mínútur á meðan restin af matnum er undirbúinn.

lasagnanærmynd1 Við hjónin erum eiginlega hætt að gera Bechamel sósu, manni blöskraði hálfpartinn við smjörmagninu og því byggði ég þessa uppskrift á hugmynd sem ég fékk frá Jamie Oliver. 1 stór dós af kotasælu, 3 dósir af 10% sýrðum rjóma, 1 dós af ansjósum í olíu, salt og pipar og svo einn niðurskorinn kamenbertostur (alla jafna myndi ég ekki gera þetta en þar sem ég var að vinna með svo virðulegt hráefni fannst mér ekki annað hægt en að djassa þetta vel upp - munið að þetta dreifst í tvö stór eldföst mót - þannig að þetta hlýtur að vera skárra en að nota smjörsósuna).

Eldfasta mótið er smurt léttlega með hvítlauksolíu, smávegis af hvítu sósunni er sett í botninn og svo er lasagnaplötum sett á það, þá aftur hvítri sósu, kjötsósu og svo plötur aftur og þetta endurtekið þar til að allt er uppurið. Endað á þunnu lagi af kjöt-/hvítri sósu og svo er smávegis af osti sáldrað yfir. Bakað í ofni við 180 gráðu hita í um 30 mínútur eða þar til að osturinn er bráðinn og orðinn fallega gullinn.

salat Með matnum var prýðisgott salat, lagt flatt á disk, fyrst þunnt skornar rauðar papríkur, svo þunnt skornir fallegir tómatar, þá þunnt skorin eggaldin - pensluð með hvítlauksolíu og grilluð í stutta stund, þá mozzarellaostur og svo nokkur basillauf. 

Með matnum nutum við Rosemount Show Reserve Cabernet Sauvignon Coonawarra frá 2002. Átti til flösku sem ég keypti um daginn á meðan vínið var undirverðlagt (á þessum síðustu og verstu tímum er sjaldgæft að maður sé að græða nokkuð. Þegar ég keypti það var það á 1450 krónur en er núna verðlagt á tæpan 2500 kall. Ekki að það sé ekki þess virði - það er bara ekkert slæmt að fá þessi gæði á útsöluverði. Þetta er vín með mikið berja og ávaxtarbragð samt á djúpu nótunum - eik í bakgrunni með löngu eftirbragði - tannín. Þetta vín ætti örugglega að geymast...en fjandinn þessi vín smakkast alltaf best í kvöld!

lasagna klárað


No comments:

Post a Comment