Monday 9 June 2008

Tælenskt sjávarréttarseyði, grilluð lúðusteik með salsa og blómkálspuréog bakaðir ávextir í desert
Blaðamenn 24 stunda höfðu samband við mig í vikunni og báðu mig um að vera með innskot í laugardagsblaðinu, það passaði ágætlega því að ég var með kollega minn frá Englandi í heimsókn. Roger Wellesley Duckitt er læknir frá Suður Afríku sem starfar í Englandi. Ég kynntist þessum góða manni í Lissabon þar sem ég var á námskeiði síðastliðið haust. Þar kynntist ég hópi af góðum kollegum og átta úr þessum hópi hafa haldið sambandi síðan að námskeiðinu lauk. Núna um helgina var vísindaþing lyflækna haldið á Selfossi og þar kom hann og hélt erindi um uppbyggingu sérnáms í Englandi. Á fimmtudagskvöldið eldaði ég fyrir hann þessa máltíð.


Ég hafði samband við fiskbúðina mína nokkrum dögum áður og bað þá um að verða mér útum stórlúðsteik - það var ekkert mál. Þjónustan hjá þessu fyrirtæki var með miklum sóma og mér finnst rétt að segja aðeins frá því. Ég hef nokkrum sinnum skipt við þetta fyrirtæki áður og finnst þeir veita afbragðs góða þjónustu og ráðleggingar. Við vorum svo sannarlega ekki sviknir af lúðusteikinni. Hún var stórkostleg.

Tælenskt sjávarréttarseyði, grilluð lúðusteik með salsa og blómkálspuré og bakaðir ávextir í desert
Bregð aðeins út af vananum að vera með hráefnalista. Þetta er sama og ég sendi inn í 24 stundir.

1,5 L af kjúklinga eða fiskisoði, 
300 gr af ósoðnum rækjum, 
300 gr af smárri hörpuskel, 
500 gr af krækling í skelinni
250 gr af Vermicelli núðlum, 
1 rauður chilli pipar, 
1 grænn chilli pipar, 
5 cm af engifer, 
3 hvítlauksrif, 
1/3 búnt af basil, 
1/3 búnt steinselju, 
1/3 af kóríander.


Sjávarfangið er steikt í smjöri með smávegis hvítlauk, ásamt skvettu af hvítvíni þartil eldað. Lagt til hliðar. Núðlurnar eru eldaðar samkvæmt leiðbeiningum og skammtaðar í skál. Þá er steiktu sjávarfanginu dreift yfir, svo er kryddinu; engifer, chilli og hvítlauk, sáldrað yfir, kryddjurtunum og svo í lokin er kjúklinga eða fiskisoðinu hellt yfir. Saltað og piprað.

Borið fram með góðu hvítvíni og sítrónum og límónum til að kreista yfir súpuna til ögra fram bragðið. Við drukkum Castillo di Molina Chardonnay frá því 2006. Þetta er prýðisgott létt hvítvín með talsverðum ávexti. Ekki svo mikið eftirbragð en dvaldi í dálitla stund á tungu. Þetta vín bar vel bragðsterkan mat án þess að fölna í samanburði né hverfa í bakgrunninn. Wine Spectator hefur gefið víni í þessum flokki um 86% í einkunn.


Ofnbökuð lúðusteik með blómkálspure, salsa og hvítvínssteiktum fennel
2,5 kg af þverskorinni lúðusteik var pensluð með góðri jómfrúarolíu og saltað og piprað. Fyrst var það grillað í stutta stund á heitu grilli en svo bakað í ofni í um 20 mínútur við 180 gráðu hita.

Með matnum var borið fram blómkálspúrée sem var afar einfalt. Tveir blómkálshausar voru soðnir eins og lög gera ráð fyrir, vatninu hellt frá, blómkálið sett í matvinnsluvél, 2 msk af rjómaosti, 2 msk af smjöri, 100 ml af rjóma, salti og pipar sett saman við og blandað saman þar til orðið að flauelsmjúkri blöndu.

Salsað var gert úr 5 þroskuðum tómötum, 1 stórum rauðlauk, 4 smátt skornum hvítlauksrifjum, einum kjarnhreinsuðum ch
illipipar, hálfri smátt skorinni papriku, 1/2 búnti af steinselju, 1/2 búnti af kóríander, 5 msk af jómfrúarolíu, salt og pipar og safi úr einni sítrónu. Blandað vel saman og látið standa í ísskáp í um klukkustund.

Einnig var steikt fennel með matnum. 4 fennelhausar voru hreinsaðir og skornir í sneiðar. Þeir voru svo steiktir upp úr smjöri og olíu í um 10 mínútur og svo var 2 glösum af ágætu hvítvíni hellt yfir, ég notaði Montalto frá Sikiley úr kassa, og sauð niður í um 20 mínútur.

Maturinn var svo borinn fram með léttu salati og Masi Masianco hvítvíni frá Ítalíu árgerð 2007 sem er létt og fremur lítið krefjandi hvítvín sem passaði vel með matnum. Þar var mikið af brögðum á ferðinni og mikilvægt að vínið stæli ekki senunni. Það rann ljúflega niður með matnum og nóg var skálað.

Bakaðir ávextir með ís og muldu Nóa kroppi

Í dessert var svo einfaldur eftirréttur. Bakaðir ávextir með ís og muldu Nóa kroppi. Einn ferskur ananas, 3 ferskjur, 4 plómur, nokkur jarðarber voru skorinn í bita og sett í eldfast mót. Vanillusykri (eða bara venjulegum sykri) er sáldrað yfir og ávextirnir eru bakaðir við 180 gráður í 15 mínútur þar til þeir fara að karmelliserast. Þá er þeim dreift í skálar, ís dreift yfir og svo muldu Nóa kroppi dreift yfir.

Notið með góðu kaffi og smávegis af Wolf Blass af Chardonnay Pinot Noir freyðivíni sem hefðbundið ætti að fá sér fyrir forréttinn en við svindluðum og fengum okkur með eftirréttinum. Vorum ekki svikinn af því .Talsverð kampavínsstemming en samt langt frá því að vera á kampavínsverði.


No comments:

Post a Comment