Saturday 31 May 2008

Grilluð nautaspjót, grænmeti og hrísgrjónasalat með kínversku ívafi

 

Fjölskyldan var að flytja, rétt eins og kom fram í síðustu færslu. Við seldum íbúðina okkar í Skaftahlíðinni og fluttum yfir í Lönguhlíðina (næstu götu) til foreldra minna. Þau höfðu boðið okkur velkominn til sín og við þáðum þeirra góða boð. Það er pínu þröngt á þingi en það er ekki annað en hægt að hafa það gott undir þeirra þaki. Sonur minn virðist eiga í smávegis erfiðleikum með þetta og hefur verið skapmikill með eindæmum síðustu vikur, en virðist núna vera að róast.

Ég og bróðir minn deilum sama áhugamáli. Við erum báðir miklir matgæðingar og höfum einkar gaman af því að standa við eldhúsborðið, skipta með okkur verkum, spjalla um daginn og veginn, skála í bjórglasi og elda...og elda svo aðeins meira.


Maður tekur eftir því þegar maður er að flytja hve mikið af drasli maður á. Þó að maður fari með endalausar ferðir í Sorpu þá virðist maður vera eins og sjórinn að veðra klettana, tekur tíma og meiri tíma. Eitthvað vannst þetta þó! Við fengum hjálp frá okkar nánustu, bróðir minn var alveg ómetanlegur - hann bar endalaust af dóti. 

Það síðasta til að fara á milli húsa var grillið mitt. Það er hægt að segja ýmislegt um grillið. Einhver kenndi mér að segja það góða fyrst - það góða er að grillflöturinn er stór, hellan er fín og bæði virkar. Annað er drasl. Ég er búinn að eiga þetta grill - Charbroil Big Easy í tvö ár, og veturna á milli var það undir klæðum. Það breytti þó litlu því allir fletir sem ryðgað gátu eru búnir að ryðga. Eina ástæðan fyrir því að ég hennti því ekki í öllum látunum er sú að grillið virkar ennþá og líka það að það kostaði hartnær 45 þúsund krónur. Næst þegar ég fæ mér grill fæ ég mér Weber eða eitthvað almennilegt úr ryðfríu stáli ekki einhverja spilaborg.

 

Grilluð nautaspjót, grænmeti og hrísgrjónasalat með kínversku ívafi

1 kíló af nauta ytralæri var skorið í stæðilega munnbitastórabita - þetta er svona kjöt sem er líklegt til þess að vera seigt þannig að mér fannst það liggja í augum uppi að það þyrfti aðeins lengri marineringu. Þetta var í marineringu í nær 8 klst - ekki hefði sakað upp á bragðið að gera að hafa það lengra - jafnvel sólarhring. Allavega þá setti ég kjötið í skál; hellti 100 ml af terayki sósu, skar niður 4 hvítlauksrif afar  
smátt, setti, 2 mskaf jómfrúarolíu, 1 msk af engifedufti, 1 msk af paprikudufti, skvetta af púrtvíni og svo auðvitað salt og pipar. Þessu var svo blandað vel saman og látið liggja eins og ég nefndi í 8 klst.

Hrísgrjónasalatið var eins einfalt of hugsast getur (ég er alltaf með svona frasa en þetta er satt). Ég með algera dellu fyrir hrísgrjónasalötum. Þau eru bragðgóð, létt, ljúffeng og mjög fyllandi meðlæti sem passaði vel núna þar sem ég var að metta marga munna en ekki með svo mikið af kjöti. Fyrst voru tveir bollar af jasmín hrísgrjónum soðin skv leiðbeiningum. Það fékk svo að kólna aðeins á meðan grænmetið var undirbúið. Þá var gulrót, sellerístöng, laukur og hvítlaukur skorinn smátt niður ásamt 


nokkrum sveppum sem ég átti afgangs og steikt á pönnu þar til mjúkt í smávegis af grænmetisolíu. Þetta tekur nokkrar mínútur. Þá er hrísgrjónunum bætt saman við og þeim velt saman við grænmetið. Steikt í smá stund þar til þetta hefur blandast vel og þá er tveimur eggjum bætt við salatið. Blandað vel saman - eggin kekkjast fljótlega. Þá er einhverjum góðum bragðefnum bætt við - t.d soya sósu, teriyaki, saltað og piprað og jafnvel bætt við smá sykri.

Grænmetið var auðvelt; paprikur, seppi, kúrbítur, laukur var skorinn niður í hentugar sneiðar og þræddar á spjót. Penslað með hvítlauksolíu og saltað og piprað. Bakað eins og lög gera ráð fyrir þar til það mýkist og fær á sig fallegar rendur.


Með matnum fengum við okkur Lindemans Bin 50 Shiraz frá 2006. Þetta er vín sem er svona "bang for the buck" kostar um 1390 kr í ÁTVR (hvar annars staðar!) Lindemans var í tísku hér um árið - svona kannski eins og Peter Lehman er núna. Þessi fyrirtæki eru í mikilli samkeppni. Lindemans vínin eru mörg hver ansi góð og þetta sérstaklega - og sérstaklega þegar maður hefur verðið í huga. Það er kröftugt, með miklu berjabragði og djúpu og fínu eftirbragði sem varir dálitla stund. The Wine spectator gefur víninu góða einkunn - alls 87 stig af 100 mögulegum. Þetta vín smellpassaði með matnum. Því miður hafði ég bara keypt eina flösku! 

Bon appetit!

No comments:

Post a Comment