Thursday 8 May 2008

Ljúffengur ofnbakaður kjúklingur með rótargrænmeti, einföldu salati ogostasoðsósu




Ekki fyrir svo löngu síðan fengum við kollega mína og maka þeirra í mat. Þetta er góðir vinir mínir og við erum búnir að þekkjast síðan við byrjuðum í læknadeildinni. Við erum líka nokkuð samstíga, allir að læra lyflækningar á Landspítalanum og erum allir á leiðinni út í haust. Það var gaman að setjast niður svona utan veggja spítalans - það er nú samt þannig að umræðuefnin leita alltaf tilbaka á kunnuglegar slóðir, ræðum um uppákomur í vinnunni, með öðrum orðum tölum bara um vinnuna. Þó var nú mikið skeggrætt um þær breytingar sem verða á okkar högum þegar við flytjum næsta haust.

Þessi uppskrift er sígild á mínum bæ. Ég er mikill aðdáandi ofnbakaðs kjúkling og þá sérstaklega þegar ég grilla hann á teini - ekkert betra. Núna vorum við bara svo mörg í mat að ekki var hægt að grilla á teini, heldur var kjúklingum nánast staflað upp á ofnskúffu. Þetta var glæsileg sjón, nokkrir kryddaðir kjúklingar í röðum. Ég hef eitthvað verið að forvitnast hvort að hægt sé að nálgast lífrænan kjúkling, eða free range hænur en hef ekki orðið neins vísari. Það væri gaman ef einhver gæti beint mér á rétta braut.


Ég segi oft að hlutirnir séu einfaldir, sem er í raun alveg rétt. Það er fátt sem ég geri í minni eldamennsku sem er flókið eða krefst mikillar tæknilegrar kunnáttu. Hins vegar má segja að ég fari oft lengri leiðina að hlutunum eins og til dæmis við sósugerð. Ég byrja eiginlega alltaf að á því að búa til hefðbundið grænmetissoð. Stundum hef ég gert kjúklinga, gæsa, nauta, andasoð frá grunni en alltof sjaldan. Þar svindla ég stundum og nota gott soð - mér finnst Oscars vera ágætt og gefa frá sér ágætt soð án málmbragðs sem oft fylgir tengingasoði. Eins hef ég verið að nota fljótandi soð sem hafa reynst mér hreint ágætlega.

Ljúffengur ofnbakaður kjúklingur með rótargrænmeti, einföldu salati og ostasoðsósu

Hráefnalisti

4 kjúklingar
smjör

Þessi uppskrift á rætur sínar að rekja í bækur/þætti Jamie Oliver - þetta var eiginlega uppskrift sem ég sá á vídeóspólu með matreiðsluþáttum hans sem mér var gefin og er eiginlega fyrsta uppskriftin sem ég man eftir að hafa veitt mér mikinn innblástur í eldhúsinu.Fyrst var að útbúa kryddsmjör sem var gert á eftirfarinn hátt; 100 gr af mjúku söltuðu smjöri, 5 msk af góðri jómfrúarolía var sett í skál. Þá heilmikið af fersku basil, steinselju, timian, safi úr 1 sítrónu sítrónu, salt og piprar er hnoðað saman og sett undir haminn. Hamnum er lyft varlega upp þannig að pláss myndast á milli hans og kjötsins. Þetta er einfalt, bara renna hendinni undir haminn og skilja hann frá kjötinu, bara að passa sig að rjúfa ekki gat á hann þannig að kryddsmjörið renni ekki út. Kjúklingurinn er settur í 180 gráðu heitan ofn og bakað þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Tekur um 90 mínútur. Látin hvílast í 10 mínútur áður en hann er skorinn.


Sósan var einföld soðsósa með smá varíans. Tvær gulrætur, tvær sellerísstangir, einn laukur, einn skarlotulaukur, 6 hvítlauksrif eru saxaðar niður og steiktar "saute'ed" í 10 mínútur í 2 msk af jómfrúarolíu. Þannig sleppir grænmetið sínum krafti og er þá tilbúið fyrir næsta stig sem er að hella rúmlega líter af vatni hellt saman við. Kjúklingakrafti er bætt við skv. leiðbeiningum og þá er soðið soðið í 1 klst með lokið á. Þá er soðinu hellt í gegnum sigti og sett síðan aftur í pottinn. Smakkið og saltið og piprið eftir smekk. Því næst er sósan þykkt með roux (smjörbolla; 30 gr smjör og smá hveiti blandað saman í potti og soðinu hellt varlega saman við). Því næst er 1/3 af camenbert bætt saman við og svo einni msk af rifsberjasultu. Saltað og piprað aftur eftir smekk. Til að gefa sósunni fallegri lit bætti ég 30-40 ml rjóma útí og leyfði henni að sjóða upp aftur og þykkna.


Rótargrænmeti er ljúffengt. Ég hef oft sett þetta á netið áður, einnig hef ég sett þessa uppskrift í Gestgjafann. Hún var í villibráðablaðinu og einnig í bestu uppskriftum ársins. Þið verðið ekki svikinn af þessu. Nokkrar stórar gulrætur, kartöflur og sætar kartöflur eru flysjaðar og skornar niður í góða bita. Þvínæst er nokkrum matskeiðum af jómfrúarolíu hellt yfir grænmetið og því velt um þannig að það hjúpi vel. Þá er maturinn saltaður með Maldon salti, grófum nýmöluðum pipar sáldrað yfir og svo er laufum af nokkrum greinum af rósmarín og 6 niðurskorinn hvítlauksrif blandað saman við. Bakað í ofni í rúman klukkutíma þar til að kartöflurnar eru mjúkar og gullnar.

Borið fram með einföldu salati; græn lauf, smávegis af tómötum, sólkjarnafræjum, mozzarellaosti, basil og steinselju, sáldrað yfir með jómfrúarolíu og salti og pipar.

Með matnum drukkum við Penfold bin 28 Kalimna Shiraz 2006. Þessi tegund vín hefur unnið amk. tvívegis til verðlauna á alþjóðlegum vínhátíðum.Virkilega gott rauðvín. Þetta er vín sem er blandað úr þrúgum frá nokkrum ekrum í Barossa dalnum í Ástralíu. Bragðmikið, ávaxtaríkt og kannski dáldið rjómakennt vín, það bar aðeins á áfengisbragði en það passaði bara vel með matnum sem var fullur af ögrandi kryddjurtum.

No comments:

Post a Comment