Sunday 7 October 2018

Snöggsteiktar nautasteikur ala Marco Pierre White í grænpiparsósu með ofnbökuðum kartöflum og fersku salati


Ég hef verið að horfa á Michelin- og sjónvarpskokkinn Marco Pierre White á Youtube upp á síðkastið. Fyrir þá sem ekki vita þá var hann líklega einn af fyrstu stjörnukokkum Bretlands. Hann rak nokkra veitingastaði, af þeim var Harvey's í London þekktastur og hann þjálfaði aðrar verðandi stjörnur eins og Gordon Ramsey. Hann var þekktur skapofsamaður og tók Gordon upp eftir honum þegar hann fór að reka eigin eldhús með öskrum, blóti og ragni eins og frægt er orðið. Á miðjum áttunda áratugnum var hann yngsti kokkurinn til að fá þrjár Michelin stjörnur, þá aeðins 33 ára gamall (met hans var þó slegið nokkrum árum síðar). Árið 1999 - öllum að óvörum - hengdi hann upp svuntuna sína og hætti að starfa í eldhúsi. 

Eitthvað þurfti hann þó að gera til að draga fram lífið og rekur í dag veitingastaði, hefur gefið út fjölda matreiðslubóka og komið fram í sjónvarpi - og er forríkur.  Það orkaði þó tvímælis þegar hann gerðist talsmaður Knorr fyrirtækisins, sem flestir þekkja, og sagði þá vera leynivopn sitt í eldhúsinu og hafa verið það um langt árabil. Hneykslunaralda gekk yfir fylkingu matreiðslumanna sem margir gera allt frá grunni! 

Eins og flestir þá nota ég kraft (bæði teninga, duft og vökva) - það er auðvitað fljótlegt. En maður verður ekkert sérlega innblásinn þegar maður les innihaldslýsinguna - þarna er auðvitað salt og fita auk bragðaukandi efna eins og gerextract og mónósódíum glútamat og svo smá kjöt. Ekki að það sé eitthvað slæmt - en kannski ekki eitthvað sem þriggja stjörnu kokkur myndi státa sig af. Þannig að ég varð að prófa. 

Snöggsteiktar nautasteikur að hætti Marco Pierre White í grænpiparsósu með ofnbökuðum kartöflum og fersku salati

Þetta telst seint vera merkileg eldamennska - en þar sem þetta heppnaðist vel þá fannst mér skemmtilegt að greina frá því. 

Svo má jafnframt benda á að ég er ekki talsmaður Knorr - maður má nota hvaða kraft sem er, frá hvaða merki sem er! Þetta var bara það sem ég átti til í skúffunni. 

Hráefnalisti fyrir 6 

6 steikur (200-250g)
3 msk jómfrúarolía
2 kjötkraftsteningar 
pipar
smjör til steikingar

Fyrir sósuna

4 msk Worchestershire sósa
400 ml rjómi
3 msk þurrkuð græn piparkorn
salt og pipar eftir smekk

kartöflur
4 msk hvítlauksolía
ferskt timjan
salt og pipar

blanda af íslensku grænmeti


Ég notaði sumsé venjulegan nautatening.


Og maukaði hann vel niður í jómfrúarolíu með fingrunum.


Svo var nautakraftsmaukinu bara nuddað vandlega inn í kjötið. 


Næst var að steikja kjötið að utan í nógu af smjöri þangað til að það var fallega karmelliserað á hvorri hlið. Ég steikti í tæpar 2 mínútur á hvorri hlið og setti svo steikurnar til hliðar á meðan ég útbjó sósuna.


Og þetta er með aleinföldustu sósum sem ég hef gert! Hellti Worchestershiresósunni á pönnuna og sauð upp og svo niður um helming. 


Næst, nóg af rjóma - sem var líka látin krauma og sjóða niður um þriðjung. 


Svo var bara að bæta grænum piparkornum saman við og láta krauma í tvær til þrjár mínútur í viðbót.


Svo var lítið annað að gera en að koma steikunum fyrir og bera á borð fyrir svanga gesti.

Við höfðum auðvitað byrjað á kartöflunum. Fyrst skornar niður í helminga, velt upp úr hvítlaukolíu og svo bragðbættar með salti, pipar og fersku timjan. Bakað í forhituðum 180 gráðu heitum ofni í 45 mínútur.

Salatið var heldur ekki flókið, enda þarf það ekkert að vera það. Bara að raða fersku íslensku grænmeti ofan á fersk salatblöð sem búið er að skola. Smá fetaostur til að lyfta því upp og gefa aðra áferð.




Ég greip þessa flösku með mér þegar ég var á leið í gegnum tollinn síðast. Þetta vín hef ég smakkað einu sinni áður fyrir tæpum tveimur árum. Ég hef lengi verið hrifinn af Malbec vínum frá Argentínu - sér í lagi eftir að ég heimsótti landið vegna ráðstefnu fyrir fimm árum. Þetta vín er frá 2015 - dökkrautt, næstum blekað, í blasi - ljúfir tónar af berjum, jafnvel bláberjum, eik. Flauelsmjúkt á tungu með ljúft og breitt eftirbragð. 


Svo var bara að raða á diska og setjast niður og njóta.

Og það er óhætt að hvetja ykkur til að prófa - þetta varð einstaklega bragðgóð og bragðmikil steik!

Bon appetit! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

No comments:

Post a Comment