Wednesday 3 October 2018

Tribjút til Tjöruhúsins, taka tvö - rommkarmelliseraður saltfiskur með gulrótarturnum og gufusoðnu pok-choy


Eins og ég nefndi í færslu í byrjun september, sjá hérna, þá fórum við fjölskyldan í ferðalag um Vestfirðina síðastliðið sumar. Þá heimsóttum við meðal annars Tjöruhúsið á Ísafirði sem er án efa einn besti fiskveitingastaður á Íslandi. Síðan við fórum þangað hef ég mælt með þessum stað við flesta sem hafa áhuga. 

Einn af réttunum sem við borðuðum á veitingastaðnum var eldaður af syni aðalkokksins, en sonurinn er rétt rúmlega tvítugur. Hann virðist ætla að verða föðurbetrungur. Og það er ekkert að því sem faðir hans eldar - réttirnir hans eru vissulega ljúffengir. Ljúffengir! 

Þessi uppskrift er innblásin frá Tjöruhúsinu - mér tókst þó ekki að líkja algerlega eftir því sem við gæddum okkur á í veitingahúsinu - en þetta er tilraun mín til að útbúa eftir minni, bragðlaukaminni, það sem við fengum að borða þar. 


Ef sonur kokksins á Tjöruhúsinu les þetta, þá má hann gjarnan senda mér sína uppskrift. Og þó að mín hafi heppnast vel, þá var hans útgáfa enn betri. 

Tribjút til Tjöruhúsins, taka tvö - Rommkarmelliseraður saltfiskur með gulrótarturnum og gufusoðnu pok-choy

Þetta er auðvitað alger fusion eldamennska. En svona verða stundum góðar uppskriftir til - með tilraunum. 

Það er líka gaman að elda með íslensku hráefni, eins og saltfiski, og svo auðvitað splunkunýtt íslenskt grænmeti. Og það er nóg í boði af því um þessar mundir - eins og það er öll haust! 

Hráefnalisti fyrir 6 manns

1,2 kg saltfiskur - hnakkastykki
100 g smjör
2 msk hveiti
pipar
100 g púðursykur
4-5 msk romm
30 g smjör
handfylli pekan hnetur

600 g stórar gulrætur
3-4 greinar rósmarín
5-6 lauf fersk salvía
3 msk hvítlauksolía
50 g smjör
2-3 msk hunang (eða hlynsíróp)

250 g pak choy
safi úr heilli sítrónu
2 msk jómfrúarolía
1 msk sherrý edik
salt og pipar



Ég gerði karamellu, setti sykurinn í botninn á stórum pottinn, og kveikti undir - á lágum hita og beið eftir því að sykurinn bráðnaði. Þegar hann fór að bráðna á jaðrinum dró ég hann inn að miðju þannig að hitinn dreifist jafnar um pönnuna og sykurinn bráðni jafnt. Þegar sykurinn var bráðnaður bætti ég við rommi og smjöri. Lét standa í augnablik á meðan ég sinnti saltfisknum. 


Á meðan smjörið bráðnaði á pönnu, velti ég saltfisknum upp úr hveiti og pipraði aðeins. Steikti svo fiskinn upp úr smjörinu.


Bætti handfylli af pekanhnetum á pönnuna og steikti með í nokkrar mínútur.


Hellti svo rommsírópinu á pönnuna. 


Steikti svo áfram í nokkrar mínútur - alls um 10 mínútur. 


Gulræturnar tóku lengri tíma - þannig að ég hefði átt að byrja færsluna á þeim - þær taka um klukkustund í ofninum. Byrjaði á því að flysja þær og skera í nokkuð jafnstóra bita. Gat dobblað Snædísi til að hjálpa mér. Það þurfti engar sérstaka fortölur. 


Gulrótunum var svo raðað í eldfast mót sem ég hafði penslað með hvítlauksolíu. Bragðbætti með smjöri, ferskum kryddjurtum og svo hunangi. Bakaði í 180 gráðu heitum ofni í klukkustund eða svo. 


Nú er hægt að fá íslenskt pok choy - sem er í raun bara afbrigði af því sem við þekkjum sem kínakál - en þetta afbrigði er það sem er algengast í heiminum. 


Ég ákvað að gufusjóða það yfir kjúklingasoði og nokkrum sítrónusneiðum í nokkrar mínútur.


Svo var bara að leggja það á disk og bragðbæta með olíu, sítrónusafa, ediki, salti og pipar.


Með matnum drukkum við þetta ljúffenga rauðvín frá norðanverðu Rioja héraði - Ramon Bilbao. Þetta vín er unnið úr 100% Tempranillo þrúgum. Þetta vín tók ég þátt í að velja til innflutnings nú í vor þegar mér var boðið í heimsókn til Rioja. Þetta er bragðmikið vín - fullt af frísklegum berjatónum, milt kryddað með ljúffengu eikarbragði. Passaði ákaflega vel með saltfiskinum. 


Og hér er hann kominn - rommkarmelliseraður saltfiskur með gulrótarturnum og gufusoðnu pok-choy. 

Afar ljúffengt! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

3 comments: