Showing posts with label gulrótarturnar. Show all posts
Showing posts with label gulrótarturnar. Show all posts

Wednesday, 3 October 2018

Tribjút til Tjöruhúsins, taka tvö - rommkarmelliseraður saltfiskur með gulrótarturnum og gufusoðnu pok-choy


Eins og ég nefndi í færslu í byrjun september, sjá hérna, þá fórum við fjölskyldan í ferðalag um Vestfirðina síðastliðið sumar. Þá heimsóttum við meðal annars Tjöruhúsið á Ísafirði sem er án efa einn besti fiskveitingastaður á Íslandi. Síðan við fórum þangað hef ég mælt með þessum stað við flesta sem hafa áhuga. 

Einn af réttunum sem við borðuðum á veitingastaðnum var eldaður af syni aðalkokksins, en sonurinn er rétt rúmlega tvítugur. Hann virðist ætla að verða föðurbetrungur. Og það er ekkert að því sem faðir hans eldar - réttirnir hans eru vissulega ljúffengir. Ljúffengir! 

Þessi uppskrift er innblásin frá Tjöruhúsinu - mér tókst þó ekki að líkja algerlega eftir því sem við gæddum okkur á í veitingahúsinu - en þetta er tilraun mín til að útbúa eftir minni, bragðlaukaminni, það sem við fengum að borða þar. 


Ef sonur kokksins á Tjöruhúsinu les þetta, þá má hann gjarnan senda mér sína uppskrift. Og þó að mín hafi heppnast vel, þá var hans útgáfa enn betri. 

Tribjút til Tjöruhúsins, taka tvö - Rommkarmelliseraður saltfiskur með gulrótarturnum og gufusoðnu pok-choy

Þetta er auðvitað alger fusion eldamennska. En svona verða stundum góðar uppskriftir til - með tilraunum. 

Það er líka gaman að elda með íslensku hráefni, eins og saltfiski, og svo auðvitað splunkunýtt íslenskt grænmeti. Og það er nóg í boði af því um þessar mundir - eins og það er öll haust! 

Hráefnalisti fyrir 6 manns

1,2 kg saltfiskur - hnakkastykki
100 g smjör
2 msk hveiti
pipar
100 g púðursykur
4-5 msk romm
30 g smjör
handfylli pekan hnetur

600 g stórar gulrætur
3-4 greinar rósmarín
5-6 lauf fersk salvía
3 msk hvítlauksolía
50 g smjör
2-3 msk hunang (eða hlynsíróp)

250 g pak choy
safi úr heilli sítrónu
2 msk jómfrúarolía
1 msk sherrý edik
salt og pipar



Ég gerði karamellu, setti sykurinn í botninn á stórum pottinn, og kveikti undir - á lágum hita og beið eftir því að sykurinn bráðnaði. Þegar hann fór að bráðna á jaðrinum dró ég hann inn að miðju þannig að hitinn dreifist jafnar um pönnuna og sykurinn bráðni jafnt. Þegar sykurinn var bráðnaður bætti ég við rommi og smjöri. Lét standa í augnablik á meðan ég sinnti saltfisknum. 


Á meðan smjörið bráðnaði á pönnu, velti ég saltfisknum upp úr hveiti og pipraði aðeins. Steikti svo fiskinn upp úr smjörinu.


Bætti handfylli af pekanhnetum á pönnuna og steikti með í nokkrar mínútur.


Hellti svo rommsírópinu á pönnuna. 


Steikti svo áfram í nokkrar mínútur - alls um 10 mínútur. 


Gulræturnar tóku lengri tíma - þannig að ég hefði átt að byrja færsluna á þeim - þær taka um klukkustund í ofninum. Byrjaði á því að flysja þær og skera í nokkuð jafnstóra bita. Gat dobblað Snædísi til að hjálpa mér. Það þurfti engar sérstaka fortölur. 


Gulrótunum var svo raðað í eldfast mót sem ég hafði penslað með hvítlauksolíu. Bragðbætti með smjöri, ferskum kryddjurtum og svo hunangi. Bakaði í 180 gráðu heitum ofni í klukkustund eða svo. 


Nú er hægt að fá íslenskt pok choy - sem er í raun bara afbrigði af því sem við þekkjum sem kínakál - en þetta afbrigði er það sem er algengast í heiminum. 


Ég ákvað að gufusjóða það yfir kjúklingasoði og nokkrum sítrónusneiðum í nokkrar mínútur.


Svo var bara að leggja það á disk og bragðbæta með olíu, sítrónusafa, ediki, salti og pipar.


Með matnum drukkum við þetta ljúffenga rauðvín frá norðanverðu Rioja héraði - Ramon Bilbao. Þetta vín er unnið úr 100% Tempranillo þrúgum. Þetta vín tók ég þátt í að velja til innflutnings nú í vor þegar mér var boðið í heimsókn til Rioja. Þetta er bragðmikið vín - fullt af frísklegum berjatónum, milt kryddað með ljúffengu eikarbragði. Passaði ákaflega vel með saltfiskinum. 


Og hér er hann kominn - rommkarmelliseraður saltfiskur með gulrótarturnum og gufusoðnu pok-choy. 

Afar ljúffengt! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Monday, 6 April 2015

Páskamaturinn: Hefðbundið lambalæri með ekta rjómalagaðri sveppasósu, gulrótarturnum sousvide og blómkálsgratíni

Ég verð seint kallaður trúaður maður - er trúleysingi fram í fingurgóma en sem nautnaseggur finnst þó gaman að vel flestum hátíðum hvort sem það eru jól, páskar, Jónsmessa, þakkargjörð eða hvað sem er. Það þarf ekki mikið til að koma mér í gírinn og vilja elda góðan mat. Þó er það svo að ég þarf varla á einhverjum hátíðum að halda til að vilja halda veislu, en þær eru samt ári góð afsökun fyrir veisluhöldum.


Og við erum með góða gesti þessa helgi. Tengdamútta er búin að vera hjá okkur síðastliðna viku en hvarf aftur til Ísland eftir föstudaginn langa. En frænka okkar, Petra, verður hjá okkur - hún og Valdís eru bestu vinkonur og hafa haft það gott saman síðustu daga. Bróðir minn kemur líka frá Stokkhólmi og verður mér innan handar í eldhúsinu eins og hann gerir gjarnan. 

Ég sótti lambalærið til Íslands síðustu helgi. Þar var ég ásamt örverpinu mínu, Ragnhildi Láru, í nokkra daga þar sem ég var að gera upp íbúð sem við keyptum í félagi við foreldra mína. Mér bauðst líka að halda námskeið í Salt eldhúsi sem mér fannst ákaflega vel heppnað, skrifaði færslu um það - sjá hér. Það var gaman að kynnast áhugasömu fólki - nautnaseggjum eins og sjálfum mér - sem hafa jafn gaman af því að laga góðan mat. Nokkrir þáttakendur eru orðnir vinir mínir á Fésbókinni og það er skemmtilegt að fylgjast með þeim í eldhúsinu. Sá að einn þáttakandinn, Ásgeir, er núna að prófa að elda hreindýratungu sous vide - það verður ábyggilega ljúffengt - enda hentar þessi eldunaraðferð sérstaklega vel þegar kemur af því að umbreyta seigum bitum í meyran og ljúffengan snæðing. 

Hefðbundið lambalæri með ekta rjómalagaðri sveppasósu, gulrótarturnum sousvide og blómkálsgratíni

Þetta er ekki flókin uppskrift! Það er alltaf gaman að reyna að gera rótgrónar og ljúffengar uppskriftir ennþá ljúffengari. Og með íslenskt lambalæri þarf ekki að gera mikið, nema að nú var ég að leika mér með salt sem ég fékk sent fyrir tveimur árum frá Saltverki. Þau sendu mér allar gerðirnar til að prófa - ég kláraði flögusaltið strax (alveg frábært) en hef verið eitthvað tregur að prófa hinar tegundirnar - þangað til nú. Það er ótrúlega gaman að leika sér með grunnhráefni eins og salt og pipar - undirstöðuna í vel flestum réttum. Það er ljóst að maður á mikið eftir ólært.

Eins er það með sveppasósuna. Ég er augljóslega að fara í gegnum eitthvert tímabil rjómalagaðrar sveppasósu í lífi mínu. Og mín sveppasósa er einföld - en augljóslega mjög breytileg - og það eru sveppirnir sem skipta öllu máli! Auðvitað er hægt að leika sér að sveppategundunum en það er hægt að ná ótrúlega miklu bragði út úr venjulegum sveppum bara með steikingunni. Með því að brúna þá í rólegheitinum er hægt að lokka dásamlegan hnetukeim úr sveppunum sem er næstum því óviðjafnanlegur!

Fyrir sex

Lambalærið

1 lambalæri (2,2-2,5 kg)
jómrúarolía
Kryddblanda af eigin vali (herbes de provance - eða gera sína eigin)
Salt með blóðbergi (artic thyme)
Pipar (ég notaði langpipar - piper longum - skyldur venjulegum pipar bara aðeins heitari)
Gulrætur, sellerí, laukur og lárviðarlauf undir lambið.
2 dl rauðvín
2 dl vatn

Gulræturnar

600 g gulrætur
60 g smjör
2 msk hlynsíróp
1 tsk lakkríssalt

Blómkálsgratínið

1 blómkálshaus
3 msk hvítlauksolía
1 peli rjómi
150 gr góður ostur
Salt og pipar

Sveppasósan

250 gr sveppir
1 laukur
3 hvítlauksrif
70 gr smjör
150 ml rjóma
200 ml vatn
1 lambateningur
Allur vökvi af kjötinu
Salt og pipar eftir smekk.


Ég hef notað blóðbergsaltið nokkrum sinnum áður og er mjög hrifinn. Lambakjöt og timian passa auðvitað mjög vel saman og blóðbergið (sem er timianafbrigði) gerir það svo sannarlega líka. Ég nuddaði fyrst olíu inn í kjötið. Svo saltinu - og alveg ríkulega af því, kannski tvær matskeiðar.


Nágranni minn gaf mér þessa kryddblöndu síðastliðið haust og hún ilmar mjög vel, eins og franskt síðsumar! Stundum geri ég mínar eigin blöndur úr ferskum kryddjurtum, eða blanda ferskum við þurrkaðar. Svo er ekkert að því að nota keyptar kryddblöndur ef svo ber undir. 


Eftir að hafa verið nuddað með olíu og kryddblöndu var lærið lagt á beð af grænmeti ásamt nokkrum lárviðarlaufum. Hellti víni og vatni í botninn á pottinum - til að safna í soði í sósuna.


Ég prófað einnig þetta piparafbriði - piper longum - sem er sjaldgæft í þessum heimshluta en er talsvert notað í indverskri matargerð, í Nepal og í indónesískri og malasískri matargerð. Það hefur allt sem góður pipar hefur til brunns að bera nema hvað hann er öllu heitari en klassíska piparkornið - piper nigrum


Flysjaði og skar niður gulræturnar í bita/turna. 


Kryddaði síðan með þessu lakkríssalti - það er nokkuð kröftugt bragð af því og því ágætt að prófa sig varlega fram. Gulrætur og anís passa vel saman og því nokkuð líklegt að þetta yrði ljúffengt. Sú yngsta, Ragga Lára, var yfir sig hrifin. 


Allt sett saman í poka, blandað vel og svo lokað í vakúmpökkunarvél. 


Sett í pott með 85 gráðu heitu vatni í eina klukkustund. 


Eftir klukkustund var hellt úr pokanum á heita pönnu og vökvinn sem kemur með soðinn nær alveg niður. Skreytt með hakkaðri steinselju. 


Namminamm! Allir sáttir.


Penslið eldfasta mótið með hvítlauksolíu og leggið sneiðar af blómkáli saman við. Saltið og piprið. Hellið rjómanum yfir og raspið svo ostinn ofaná. Bakið við 160 gráður í fjögur til fimm kortér eða þar til osturinn er fallega gullinbrúnn og ilmar dásamlega!


Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég blogga um sveppasósur - en það er þróun í þeim hjá mér, þ.e.a.s. mér finnst ég verða betri og betri í að búa þær til og eins og ég nefndi áðan þá finnst mér það hafa mest með það að gera hvernig ég höndla sveppina og svo auðvitað soðið sem lagt er til í sósuna.

Byrjið á að skera laukinn og hvítlaukinn smátt, sveppina gróft. Bræðið smjörið í pottinum og steikið sveppina, laukinn og hvítlaukinn við lágan hita. Ekkert á að brenna, bara hægt og bítandi að brúnast. Þegar eldhúsið er orðið fullt af dásamlegum sveppailm og hnetukeim er rjómanum, vatninu og teningum hellt saman við og soðið upp, Sjóðið síðan niður þangað til að sósan er af þeirri þykkt sem þið óskið.

Þegar lambið er tilbúið er öllu soði af því hellt saman við sósuna. Hrærið vel saman við og smakkið til með salti og pipar. Sætið með sultu ef sá gállinn er á ykkur.


Eldið lambið við 160-180 gráður þangað til að kjarnhiti er kominn í 54 gráður. Takið það þá út og látið hvíla í 30 mínútur. Þannig nær það vel að jafna sig. Brúnið það að lokum undir heitu grilli í tvær til þrjár mínútur. 

Með matnum drukkum þetta ljómandi rauðvín frá Spáni. Campo Viejo Reserva frá því 2008. Þetta vín er gert úr 100% Tempranillo þrúgum eins og öll Rioja vín. Þetta vín er þurrt með góðri fyllingu. Bragðið er af dökkum þroskuðum ávexti, vanillu með ágætri eikartónum í lokin.


Svo er ekkert annað að gera en að njóta.

Veislan heldur áfram! 

Saturday, 3 October 2009

Kryddhjúpaðar grísalundir með kantarellusveppasósu, kartöflugratíni ogofnbökuðum gulrótum


Mamma er komin í heimsókn, hún var á ráðstefnu í Vín þar sem hún var að kynna doktorsverkefnið sitt. Við erum ansi stolt af henni - að vera að ljúka doktorsverkefni á næsta ári - sama ári verður hún sextug. Það er aldrei of seint að læra.

Við fórum í bæjarferð í dag, klæddum okkur upp í regnjakka og alles - það er raunverulegt haust komið núna - með rigningarsudda, hvassviðri...fölnuð laufblöð fjúkandi á milli fótanna á manni, með vindinn í fangið - Góður dagur fyrir gönguferð?


Við þurftum að sinna nokkrum erindum, skór á börnin og svoleiðis. Ég kom við hjá uppáhalds- slátraranum mínum - Holmgrens - og keypti nokkrar grísakótelettur og leyfði þeim að heyra hvernig gengi með verkefnin mín sem ég er með í gangi - "Serrano" skinku, hunangslagað beikon og svo ítalskt beikon - pancetta - sem ég hengdi upp út í gærkvöld. Greini nánar frá þessu í næstu færslum. Annars er ég á morgun að fara af stað með nýtt verkefni - Project hangilæri! Það verður áhugavert að sjá hvernig rætist út þessu.

Stoppaði einnig við í akademiebokhandeln og rakst þar á nýju bókina hans Jamie Oliver - Jamie's America - sem segir frá kynnum hans við Ameríku - og þær matarhefðir sem tíðkast þar - og þvert á það sem maður myndi halda er þetta ekki frásögn um skyndibita. Þá tók ég einnig eintak af sænskri matreiðslubók - Smörgåsbord - og er með uppskriftir fyrir veisluborð - flestar uppskriftir eru fyrir 20-30 manns, ekki slæmt.

Aðstæður fyrir að blogga gætu ekki verið öllu betri - ég sit í eldhúsinu mínu - klukkan er eitthvað að ganga sjö, það er komið myrkur, vindurinn blæs og það rignir. Rétt í þessu hljóp héri niður götuna framhjá eldhúsglugganum - staldraði við í smástund á miðri götunni áður en hann hvarf út í haustmyrkrið. Er með kveikt á kertaljósum, bjórglas við hliðina á tölvunni og smátár af Auchentoshan 12 ára gömlu single malt vískií í staupi - Yann Tiersen - C'était ici, frá 2002 á fóninum - dásamlegt - svona eiga laugardagskvöld að byrja.

Kryddhjúpaðar grísalundir með kantarellusveppasósu, kartöflugratíni og ofnbökuðum gulrótum

Núna er rétti tíminn fyrir kantarellusveppi. Það er haust og þá fara margir Svíar í gönguferðir í skógunum sínum og leita að sveppum. Verslanir eru fullar af ólíkum sveppategundum - en þar leikur kantarellu- sveppurinn aðalhlutverkið. Hann er fallega brúngulur - með kraftmikinn ilm sem stígur upp í nefið. Það er klár munur á þessum sveppum og til dæmis skógarsveppum eða bara venjulegum hnappasveppum. Til að byrja á sósunni er einn fremur stór skarlotulaukur skorinn í smá bita, 2-3 hvítlauksrif einnig skorin, sett út á heita pönnu með vænum bita af bræddu smjöri. Saltað og piprað, og svo er laukur steiktur við meðalháan hita þar til hann er glansandi og fallegur - en ekki farinn að brúnast. Þá veit maður að maður fær það besta úr bragðinu frá lauknum - þegar hann er farinn að karmelliserast. Þetta getur tekið 10-20 mínútur - háð hitanum. Sumir lækka hitann og setja lokið á pönnuna í 20 mínútur. Þá er sveppunum bætt saman við og þeir steiktir þar til mjúkir. Ilmurinn í eldhúsinu verður seiðandi - ég lofa. Þá er bætt við um hálfum lítra af svínasoði, pela af rjóma, saltað og piprað. Þessu er leyft að krauma við lágan hita þar til maturinn verður tilbúinn - þá er sósan þykk og glansandi.



Svínalundina keypti ég ferska í City Cross, hræbillegt alveg. Svínakjöt er með því ódýrasta sem hægt er að nálgast í verslunum að kjúklingum undantöldum. Alltént þá eru tvær lundir skornar í skammtastóra bita. Hver biti er saltaður og pipraður og steiktur upp úr jómfrúarolíu á heitri pönnu - bara rétt þannig til að brúna bitann að utan. Þá er kjötið tekið af pönnunni og penslað með skánsku sinnepi (eða bara frönsku grófkornasinnepi) og síðan velt upp úr ferskri kryddjurtablöndu - steinselju, salvíu, bergmyntu og basil og auðvitað meira af salti og pipar. Bakað inn í ofni - við 160 gráður þangað til að kjarnhiti nær um það bil 70 stigum. Leyft að hvíla í 15 mínútur undir álpappír áður en maturinn er borinn fram - til þess að ná aftur vökvajafnvægi á kjötbitann.





Sem meðlæti vorum við með bæði einfalt kartöflugratín og síðan gulrætur með rósmarín. Kartöflurgratínið var einfalt; niðursneiddar kartöflur, blanda af osti, rjóma, salti, pipar, nýmöluðu múskati. Gulræturnar voru innblásnar frá gyðju bresk eldhúss - Nigellu Lawsson úr bók hennar Feast, þá sker maður myndarlega bita af gulrótum í nokkurnveginn jafnlanga bita, sáldrar olíu yfir, saltað og piprað og fersku rósmaríni stráð yfir. Þvínæst er rétturinn bakaður í 45-60 mínútur í heitum ofni, kannski 200 gráður, þangað til að grænmetið er að fullu eldað. Það var gaman að bera fram tvær tegundir af heitu grænmeti með.

Með matnum drukkum við vín sem við höfum ekki drukkið áður. Þetta er vín er frá Argentínu - við rætur Andesfjallanna. Terrazas des los Andes Cabernet Sauvignion frá því 2005. Þetta evarr frábært vín. Klassískt Cabernet Sauvignion að því leyti að það er þykkt og djúpt vínrautt á litinn í glasinu. Ilmurinn er þungur af dökkum ávexti, súkkulaði og eik. Bragðið er álíka ilminum, dökkur sætur ávöxtur, smá krydd og langt mikið eftirbragð - eikað tannín. Ljómandi flaska sem ég á eftir að prófa aftur og passaði matnum vel.

Bon appetit.