Thursday 14 September 2017

Ljómandi Klausturbleikja á fjölskrúðugu grænmetisbeði með hvítvínslagaðri rjómasósu


Þessi réttur er ljómandi - hann er fljótlegur, einfaldur og að auki er lítill frágangur þar sem hann er allur eldaður í einni pönnu. Ég hef verið frekar duglegur við að elda fisk síðastliðnar vikur og reynt að elda hann oftar í viku en ég hef vanið mig á áður. Ástæða þess er ekki bara vegna þess að hann er fljótlegur, ferskur og ljúffengur heldur að ég hef verið að prófa mig áfram að fylgja matarræði kenndu við bók sem ég hef verið að lesa undanfarið - The Pioppi Diet.

Í fyrra kynntist ég Aseem Malhotra, breskum hjartalækni, sem kom og hélt erindi á ráðstefnu sem vinur minn og kollegi, Guðmundur Freyr, stóð fyrir - Foodloose. Ég var með matreiðslunámskeið í tengslum við þessa ráðstefnu og kollegar mínir tóku báðir þátt. Dr. Malhotra hefur fengið síaukna umfjöllun í breskum dagblöðum vegna afstöðu sinnar til matarræðis og sjúkdóma. Hann gaf út bók nú fyrir skemmstu þar sem hann færir nokkuð sannfærandi rök fyrir máli sínu - The Pioppi Diet (Pioppi matarræðið) sem hann skrifar ásamt félaga sínum Donal O'Niell.

Og þó að ég kaupi ekki alveg að ítalskt matarræði sé eins og þeir eru að lýsa því (ekkert pasta og ekkert brauð) þá er boðskapur bókarinnar að mestu afar góður. Að borða alvöru mat, mikið grænmeti, meiri fisk og nóg af jómfrúarolíu. Hljómar vel í mínu eyru, og eiginkonu minnar - Snædísar sem er mikið fyrir sjávarfang. Og að verða sér út um ljúffengt sjávarfang er einfalt á Íslandi - Ég fer alltaf í Fiskbúðina á Sundlaugaveginum!

Ljómandi Klausturbleikja á fjölskrúðugu grænmetisbeði með hvítvínslagaðri rjómasósu

Ég keypti þennan "spirulizer" þegar ég var í USA fyrir ári á námskeiði í lyflækningum. Þetta er hentugt til að gera fallega borða úr grænmetinu. Fyrir þá sem langar að skipta pasta út fyrir eitthvað annað má nota þetta apparat til að skera út kúrbít eða sætar kartöflur og nota í staðinn fyrir spaghetti.

En mig langaði aðallega í fallegt beð af grænmeti og því ekki að nota nokkuð nýlegt leikfang sem ég hafði ekki verið nógu duglegur að leika mér með!

Hráefnalisti

Fyrir fimm

1 kg klausturbleikja.
2 kúrbítar
2 hnúðkál
2 stórar gulrætur
1 glas hvítvín
2 hvítlauksrif
100 ml fiskisoð
75 ml rjómi
1 tsk Worchestershiresósa
salt og pipar
3-4 msk jómfrúarolía
1 sítróna
1 msk fersk steinselja


Byrjið á því að skera grænmetið niður í borða (auðvitað má skera það niður á hvaða hátt sem er). Hitið olíuna á pönnu og þegar hún er heit steikið þá grænmetið í nokkrar mínútur. Saltið og piprið. 


Þegar grænmetið er mjúkt og eldhúsið ilmar dásamlega, hellið þið hvítvíninu á pönnuna og sjóðið upp áfengið. Bætið svo soðinu og rjómanum saman við og sjóðið niður um þriðjung. 


Skolið og þerrið bleikjuna og saltið hana og piprið.


Leggið bleikjuna ofan á grænmetið þannig að hún mari upp úr kafinu.


Setjið lok á pönnuna - eða hyljið hana með álpappír í nokkrar mínútur svo fiskurinn fái að eldast í gegn. 


Takið svo lokið af og stingið nokkrum sítrónubátum með inn á milli bleikjuflakanna.


Með matnum drukkum við Castillo di Molina Chardonnay Riserva frá því 2016. Ég man eftir að hafa smakkað þetta vín nokkrum sinnum á árum áður. Og ég man nú af hverju - þetta er ljómandi góður hvítvínssopi. Ilmar af ávexti, sýru - frísklegt og smjörkennt á bragðið - fellur afar vel að fiskrétti sem þessum.


Svo er bara að raða matnum á disk. Og njóta.

Fullkominn réttur þegar líða fer á vikuna.

Bon appetit!


1 comment: