Thursday 28 September 2017

Hin nýja íslenska kjötsúpa- ljúft blæbrigði við klassískan rétt - með mirepoix, púrru, hnúðkáli, íslensku perlubyggi og ferskum kryddjurtum


Kjötsúpa er án efa einn af þeim réttum sem við gætum tilnefnt sem þjóðarrétt Íslendinga. Og hin sígilda uppskrift er auðvitað dásamlega góð - mild og saðsöm. Mér finnst hún eiginlega best á öðrum eða þriðja degi - þegar maður er að hita hana upp aftur - þá hefur allt ólíka bragðið í súpunni náð að blandast mun betur og ná ennþá meira jafnvægi og dýpt. 

En það ágæt að prófa að breyta af og til út af hefðunum - rétt til að prófa - stundum batnar uppskriftin lítillega og þá verður maður frekar glaður - og ef það heppnast ekki, þá er nú lítið mál að snúa til baka. 

Mér hefur alltaf þótt þurrkuðu súpujurtinar hálf dapurlegar. Það má vel vera að þær verði í lagi þegar þær eru búnar að liggja í heitu vatninu um stund en það eru engar líkur á því að þær séu betri en nýtt grænmeti. Og þegar það stendur okkur til boða - af hverju í ósköpunum ættum við að nota eitthvað sem er gamalt. 

Hin nýja íslenska kjötsúpa- ljúft blæbrigði við klassískan rétt - með mirepoix, púrru, hnúðkáli, íslensku perlubyggi og ferskum kryddjurtum

Þegar maður sækir að svona helgum vé er eins gott að maður mæti vel vopnaður, og þegar ég segi vopnaður á ég auðvitað við að ég sé með góð hráefni á takteinunum. 

Fyrir 10-12 

3 kg blandað súpukjöt
2 kg kartöflur
2 bollar perlubygg
4 handfylli grænkál
8 gulrætur
2 hnúðkál
1 púrra
2 rauðlaukar
2 sellerístangir
heill hvítlaukur
2 salvíugreinar
handfylli steinselja
10 einiber
1 msk blóðberg
lambakraftur eins og þarf
salt og pipar
Lea & Perrins Worchestershire sósa eftir smekk
smjör og olía til steikingar


Ég keypti tvo sagaða lambaframparta - skolaði þá undir krananum og þerraði vandlega. Saltaði ríkulega og pipraði.


Hitaði svo pottinn rækilega, bræddi smjör í smá skvettu af jómfrúarolíu og brúnaði kjötið að utan.


Skar rauðlauk, sellerí, þrjár gulrætur ásamt púrrunni og steikti í 10 mínútur þangað til grænmetið var mjúkt. Saltiði og pipraði.


Svo raðaði ég kjötinu aftur ofan í pottinn og blandaði vandlega saman við grænmetið.


Svo bætti ég meira vatni í pottinn, svo lambakrafti og hitaði varlega að suðu. Ég reyndi hvað ég gat að fleyta froðunni ofan af súpunni, þannig verður hún fallegri þegar hún er borin á borð.


Tvær til þrjár msk af blóðbergi var bætt saman við.


Nokkur ilmandi einiber.


Nokkur bragðmikil salvíublöð.


Og svo steinselja.


Og ekki gleyma hvítlauknum - hann gefur ljúfan hita í súpuna sem gerir ekkert annað en að mýkja upp í manni andann og bæta hjá manni andardráttinn.


Það er gott að leyfa þessari súpu að sjóða varlega í tvær klukkustundir eða svo. Þá er ágætt að hugleiða lífið og merkingu þess á meðan maður flysjar gulræturnar, hnúðkál og kartöflur og sneiðir niður í nokkuð álíka bita. Skerið einnig grænkálið niður.

Mér finnst að íslenskt perlubygg eigi að vera í íslenskri kjötsúpu. Mér finnst það vera mun rökréttara en að nota hrísgrjón.


Setjið tvær til þrjár handfyllir út í súpuna ásamt grænmetinu og sjóðið í um 25 mínútur þangað til að allt grænmetið er mjúkt í gegn. Saltið og piprið.


Slagorð Lea & Perrins - brings food alive - er ekki alvitlaust enda er þetta bara umami í flösku. Bætið nokkrum dropum saman við og smakkið til. 


Það sjá allir að þetta á eftir að verða gott!


Með matnum drukkum við þetta ljúfa vín - Poggio Teo Chianti Classico frá Valianó, sem er vínekra í miðju Toskana héraði. Ég hef nú gerst svo góður að hafa heimsótt þessa vínekru nú í vor og staðið á miðri ekrunni og notið þess að teyga vínið. Þetta vín er gert úr Sangiovese þrúgum.

Þetta er djúprúbinrautt í glasi, pakkað af ávexti á nefi, og þroskuðum ávexti á tungu. Mér fannst það passa ljómandi vel með nýju kjötsúpunni minni.


Nú er ekkert annað fyrir ykkur en að prófa. 

Bon appetit. 

No comments:

Post a Comment