Thursday 12 October 2017

Ljúffengt bleikju-tacos með mangó-chilisalsa, snöggpækluðum gulrótum og ferskum kóríander


Ég reyni að elda fisk tvisvar í viku - auðvitað ætti ég að gera það oftar - sérstaklega núna þegar við búum á Íslandi og aðgengi að spriklandi ferskum fiski er náttúrulega einstakt. Ég fer eiginlega alltaf til félaga minna í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum - ég hef vanið komur mínar þangað - og veit að hverju ég geng. Að þessu sinni fékk ég hjá þeim fjallableikju sem var alveg splunkuný.

Það er ekki oft sem ég fæ að nota kóríander í mat á mínu heimili. Það er vegna þess að eiginkona mín, Snædís, er með algera andúð á þessu ljúfmeti. Hún, líkt og 17% Vesturlandabúa, finnur sápubragð þegar hún smakkar á þessari jurt. Það hefur gert það að verkum að ég nota það afar sjaldan - nema þá þegar ég geri tacos og þá getur hver skammtað fyrir sig.

Ljúffengt bleikjutacos með mangó-chilisalsa, snöggpækluðum gulrótum og ferskum kóríander

Kryddið sem ég notaði á fiskinn er kryddblanda sem við erum að þróa saman, við Ólöf og Omry, hjá Krydd og Tehúsinu. Það er einkar ljúffengt á bragðið og ég hlakka til að kynna það nánar fyrir ykkur.

Fyrir fjóra

Hráefnalisti

800 g fjallableikja
2 msk hvítlauksolía
2-3 tsk kryddblanda frá fjarlægum höfum
safi úr einni sítrónu
salt og pipar

1 mangó
1 rauður chili
1 rauðlaukur
2 tsk steinselja/mynta
2 msk jómfrúarolía
1 tsk rauðvínsedik
salt og pipar

2 gulrætur
2 msk rauðvínsedik
salt og pipar

Blandað grænmeti
handfylli kóríander


Penslið fjallableikjuna með hvítlauksolíu.


Dreifið svo kryddinu yfir og penslið flökin vandlega. Saltið og piprið.


Kreistið sítrónuna yfir bleikjuna.


Það er leikur einn að útbúa gulræturnar. Flysjið þær einfaldlega í skál og hellið edikinu yfir, saltið og piprið og látið liggja í 30 mínútur. 


Skerið mangóið í smá bita, ásamt rauðlauknum, chilipiparnum og blandið saman. Setjið næst olíuna,  edikið og kryddjurtirnar saman við. Saltið og piprið. Það er gott að láta salsað standa í þrjú korter til að allt bragðið nái að knúsast.



Steikið bleikjuna í olíu/smjöri þangað til að hún er steikt í gegn.



Með matnum nutum við þessa ljúffenga hvítvíns, Masi Masianco. Ég varð enn hrifnari að Masi vínunum eftir að við heimsóttum Valpolicella í maí - og Masi fyrirtækið. Við fengum að kynnast eigendum fyrirtækisins og það var einstaklega verðlaunandi að kynnast vínunum með þeim sem framleiða vínið. Þetta vín er blanda úr Pinot Grigio og Verduzzo þrúgunum - það er fallega gult í glasi, hefur léttan sítrónukeim í bland við örlítið sætan ávöxt. Passar ljómandi vel með fiskrétt eins og þessum. 


Svo er bara að raða matnum upp - hita burrito-köku í ofni eða á pönnu, smá salsa, handfylli af blönduðu grænmeti, vænn biti af heitri og ilmandi góðri bleikju, nóg af mangó-chilisalsa, gulrætur og nóg af fersku kóríander. 

Verði ykkur að góðu! 

No comments:

Post a Comment