Showing posts with label flatbaka. Show all posts
Showing posts with label flatbaka. Show all posts

Sunday, 17 January 2021

Ævintýralega góðar flatbökur - Öfug Margaríta, chorizo og döðlur, salami og rauðlauk, parma e ruccola og ostaveisla með rifsberjum

 

Sumarið 2019 verður lengi í minnum haft. Við fórum í þriggja vikna ferð til Ítalíu. Ég fór nokkrum dögum á undan fjölskyldunni þar sem mér hafði verið boðið í Primograno uppskeruhátíð Rustichella D'Abruzzo í Pescara. Þetta voru stórskemmtilegir dagar í Pescara - sem liggur við Adríahaf. 

Þar kynntist ég fjölda matreiðslumanna sem margir hverjir eru stjörnur í heimalandi sínu. Þau fengu að kynnast mér - gigtarlækni frá Íslandi. Ég nefndi við félaga mína á hátíðinni eitt kvöldið að fjölskyldan væri væntanleg nokkrum dögum síðar og við ætluðum til Napolí til að finna bestu pizzur í heimi. Einn þáttakenda, Barbara Pollastrini, vippaði upp símanum og hringdi í vin sinn, Franco Pepe og reddaði mér borði á besta flatbökustað í heimi - Pepe in Grani í smábænum Caiazzo sem er fyrir utan Napolí. 

Og þangað fórum við. Franco Pepe tók á móti okkur og sýndi okkur allan veitingastaðinn og bauð okkur borð á veröndinni með stórkostlegu útsýni. 

Og þar snæddum við bestu flatbökur veraldar. 

Ævintýralega góðar flatbökur - Öfug Margaríta, chorizo og döðlur, salami og rauðlauk, parma e ruccola og ostaveisla með rifsberjum

Þessar uppskriftir eru því tilraun til að ferðast á bragðlaukunum til Ítalíu. 

Þessa uppskrift hef ég stuðst við síðustu árin og hún heppnast alltaf vel. 

Fyrir 3-4 meðalstórar flatbökur
 
700 g hveiti til brauðbaksturs
300 ml ylvolgt vatn
25 g þurrger
25 g sykur (má sleppa)
2 msk jómfrúarolía
2 tsk salt


Byrjið á því að vekja gerið í ylvolgu vatninu ásamt sykrinum. Látið standa í 10 mínútur þangað til fer að freyða. Setjið hveitið í skál ásamt salti og olíu. Hellið gervatninu út í hveitið og hnoðið vandlega saman í 10 mínútur, þá ætti deigið að vera mjúkt og teygjanlegt. Látið hefast í tvær til þrjár klukkustundir.

Sláið loftið úr deiginu og fletjið út eins þunnt og mögulegt er. Lagið svo flatbökur eins og hugmyndaflugið leyfir.

Bjó svo til þessa auðveldu tómatsósu. 

Fyrir 4-6 flatbökur

3 hvítlauksrif
1 gulur laukur
1 dós niðursoðnir San Marzanó tómatar
1 msk tómatþykkni
2 msk balsamedik
handfylli steinselja
handfylli basil
salt og pipar
2 msk jómfrúarolía

Saxið lauk og hvítlauk smátt og steikið í olíunni þar til laukurinn er mjúkur og glansandi. Bætið tómötunum við og látið sjóða. Saltið og piprið.

Hrærið tómatþykkninu og balsamedikinu út í og sjóðið niður um þriðjung. Rífið kryddjurtirnar saman við sósuna rétt áður en hún er tilbúin. Smyrjið á pítsudeig, bætið við uppáhaldsálegginu ykkar, bakið og njótið vel!  

Og svo gerði ég líka basilolíu. Tvö búnt af fersku basil var blandað saman við 250 ml af góðri jómfrúarolíu. Ég notaði Olio Principe frá Sikiley. 


Þetta er öfug Margaríta. Innblásin af Franco Pepe - þegar hann setti þessa flatböku fyrst á matseðilinn á veitingastaðnum sínum var þessu líkt við guðlast. Að ráðast að Margarítunni - grunnstoð ítalskrar flatbökumenningar. Og hún er algerlega stórkostleg. Svo dásamlegt að ég er með tvær myndir af henni! 


Penslaði botninn með jómfrúarolíu og setti síðan tvo rifna buffalómozzarellaosta og bakaði svo við 300 gráður þar til bakan var fallega gullin. Þá dreifði ég tómatsósunni yfir og skreytti með basilolíu. Geggjuð! 


Þessi var líka dásamlega ljúffeng með rifinni chorízópylsu, döðlum og þunnt skornum kastaníusveppum. 


Og svo þessi - með salami, rauðlauk og svo skreytt með fersku basil. Nammi namm. 


Þessi er auðvitað klassík - pensluð með hvítlauksolíu, rifinn ostur og bökuð. Skreytt með klettasalati og parmaskinku. Sælgæti. 


Og að lokum - ostaveisla. Með rifnum osti, parmaosti, gráðosti og camembert. Skreyttur með ferskum rifsberjum. 


Með matnum nutum við ítalsks rauðvíns - Borgo dei Guidi sem er blanda af Sangiovese og Cabernet Sauvignion. Þetta er kraftmikið rauðvín í góðu jafnvægi og ljúfu eftirbragði. Sælgæti. 

Verði ykkur að góðu! 

 
-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa


Friday, 27 March 2020

Ofureinfaldar flatbökur - með kartöflum, spergilkáli og gráðaosti svo önnur með rauðlauk, spínati, döðlum og cashew hnetum og að lokum fjögurra osta með bláberjum í eftirrétt



Ég er varla sá eini sem dettur í hug að eldaflatbökur í lok vikunnar. Það er bæði fljótlegt og svo ef maður vandar valið á áleggjunum þá er getur það verið alveg einstaklega ljúffengt. 

Ofureinfaldar flatbökur - með kartöflum, spergilkáli og gráðaosti, svo önnur með rauðlauk, spínati, döðlum og cashewhnetum og í eftirrétt - fjögurra osta með bláberjum 

Fyrir flatbökubotnana

Ef maður er alveg að brenna út á tíma - er auðvitað hægt að kaupa tilbúið deig út í búð - en það er líka auðvelt að gera sitt eigið deig. 

Innihaldslýsing

700 gr hveiti
300 ml volgt vatn
2 msk jómfrúarolía
25 gr ger
25 gr sykur
2 tsk salt

Fyrst er það deigið. Setjið hveitið í skál. Svo saltið. Og á eftir því olíuna.Vekið gerið í volgu vatni ásamt sykrinum og þegar að það er búið að freyða í um 15 mínútur er hægt að byrja að hella því varlega saman við. Hnoðið vandlega í fimm til tíu mínútur. Setjið svo viskastykki yfir og setjið til hliðar til að hefast í um klukkustund.

Nýtni er dyggð - flatbaka með kartöflum, spergilkáli og rifnum gráðaosti

Hér nýtast afgangar vikunnar vel.

3-4 msk hvítlauksolía
2-3 soðnar kartöflur
1/2 haus spergilkál
handfylli af rifnum pizzaosti
4-5 msk af rifnum gráðaosti
salt og pipar



Penslið botninn með hvítlauksolíu, sáldrið rifnum pizzaosti yfir. Raðið svo soðnum kartöflum í sneiðum og á milli spergilkáli í litlum bitnum. Sáldrið svo nóg af gráðaosti á milli. Bakið í eins heitum ofni og mögulegt er á flatbökusteini. Það tryggir af botninn verði stökkur og ljúffengur.


Þrungin af bragði. Þessi er fyrir fullorðna fólkið - og er í uppáhaldi hjá mér.

Asískt ævintýri - flatbaka með rauðlauk, spínati, basil, döðlum og cashewhnetum. 

Þessi er dálítið ævintýraleg. Og hún er líka algert sælgæti.

3-4 msk hvítlauksolía
handfylli af rifnum pizzaosti
6-7 döðlur skornar í bita
1/4 rauðlaukur í þunnum sneiðam
handfylli spínant
3-4 basillauf
handfylli cashewhnetur


Penslið deigið með jómfrúarolíu og sáldrið ostinum jafnt yfir bökuna. Dreifið rauðlauk, spínati, rifnum basillaufum og döðlum ofan á. Skreytið með nokkrum cashewhnetum. Bakið í eins heitum ofni og mögulegt er á flatbökusteini. Það tryggir af botninn verði stökkur og ljúffengur.


Eftirréttabaka - með rifnum pizzaosti, gullosti, höfðinga, piparosti - skreytta ferskum bláberjum



Þessi er ótrúlega ljúffeng. Og sigrar eiginlega alltaf. 

3-4 msk hvítlauksolía
handfylli af rifnum pizzaosti
Nokkrar þunnar sneiðar af gullosti
Nokkrar þunnar sneiðar af höfðinga
handfylli rifinn piparostur



Penslið bökuna með hvítlauksolíu, svo er flatbökunni drekkt í ljúffengum ostum. Bakið í eins heitum ofni og mögulegt er á flatbökusteini. Það tryggir af botninn verði stökkur og ljúffengur. Þegar bakan kemur úr ofninum er hún skreytt með bláberjum eftir smekk. Það er líka gott að prófa að nota sultu - rifsberjasultu eða jafnvel chilisultu.



 Þvílík föstudagsveisla.


Auðvitað fengum við okkur rauðvínstár með bökunum. 19 Crimes the Uprising frá því 2018 frá Ástralíu. Þetta vín er blanda úr Shiraz/Syrah, Cabernet Sauvignon, Grenache. Þetta er ansi kraftmikið vín - enda fær það að þroskast að hluta í rommtunnum. Mikill ávöxtur og ljómandi gott jafnvægi á tungu. 

Verði ykkur að góðu. 


-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Saturday, 9 February 2019

Ljúffeng flatbaka með steiktu beikoni, sætum döðlum og piparosti í tilefni alþjóðalega pizzudagsins


Mér skilst að 9. febrúar sé alþjóðlegi flatbökudagurinn. Og það er einmitt í dag! Hafði í raun misst algerlega af þessum hátíðisdegi - sem væri svo sannarlega þess virði að halda upp þar sem flatbökur eru einstaklega ljúffengur matur. Og þessi uppskrift á eftir að gleðja marga.

Pizzur henta líka ákaflega vel til að elda með börnunum sínum. Það þarf ekki að hafa mikið fyrir því að dobbla dóttur mína, Ragnhildi Láru, til að koma og hjálpa mér við baksturinn. Hún er alltaf liðtæk og til í að hjálpa föður sínum í eldhúsinu. 

Ljúffeng flatbaka með steiktu beikoni, sætum döðlum og piparosti í tilefni alþjóðalega pizzudagsins

Innihaldslýsing

700 gr hveiti
300 ml volgt vatn
2 msk jómfrúarolía
25 gr ger
25 gr sykur
2 tsk salt

Tómatsósan

1 lítill laukur
3 hvítlauksrif
2 msk jómfrúarolía
1 dós góðir niðursoðnir tómatar
1 msk tómatpúré
salt og pipar
2-3 msk hökkuð fersk steinselja/basil

Álegg 

Steikt beikon
Piparostur
Döðlur
handfylli af rifnum osti

Fyrst er það deigið. Setjið hveitið í skál. Svo saltið. Og á eftir því olíuna.Vekið gerið í volgu vatni ásamt sykrinum og þegar að það er búið að freyða í um 15 mínútur er hægt að byrja að hella því varlega saman við. Hnoðið vandlega í fimm til tíu mínútur. Setjið svo viskastykki yfir og setjið til hliðar til að hefast í um klukkustund.


Á meðan deigið er að hefast - útbúið þið tómatsósuna. Steikið fyrst laukinn og hvítlaukinn í olíunni, saltið og piprið. Setjið svo tómatana, púréið og hitið að suðu og látið malla við lágan hita í 15-20 mínútur. Setjið svo kryddjurtirnar, saltið og piprið og blandið saman með töfrasprota.


Svo er bara að fletja út deigið.  


Og það er nú lítið mál þegar maður er með svona liðtækan aðstoðarmann! 


Skerið beikon og steikið þar til það er stökkt.


Fjarlægið steininn úr döðlunum og rífið þær niður.

Svo er bara að raða þessari dásemd saman, tómatsósa (má líka vera bara með hvítlauksolíu), stökkt beikon, rifnar döðlur og svo þykkar sneiðar af piparosti.


Bakað í blússheitum ofni þangað til osturinn er bráðnaður og botninn búinn að lyfta sér. 

Það er svo ekki vitlaust að toga tappann úr einhverjum ljúffengum Ítala til að njóta með flatbökunni. Ruffino er Chianti Classico frá Toskana sem passaði vel með nokkuð krefjandi flatböku. Vínið sjálft er létt með ljúfum ávexti. Smá rúsína, kirsuber með smá kryddi í bakgrunn. Góður rauðvínssopi. 


Þetta var ákaflega vel heppnuð flatbaka.

Til hamingju með alþjóðlega flatbökudaginn! 

Saturday, 3 January 2015

Flatbökuveisla annan janúar! Grænmetis og ostapizzur ráða ríkjum!

Við í Púkagranda eitt ætlum að gerast grænmetisætur nú í janúar. Þetta var áramótaheit fjölskyldunnar í ár (en þó bara í janúar) og það er kannski ekki svo vitlaus hugmynd eftir gengdarlaust kjötát síðustu misseri.

Og ég er auðvitað kjötæta par excellance og hef verið alla tíð - það ætti að vera öllum lesendum heimasíðunnar minnar morgunljóst. Hérna úir og grúir af kjötuppskriftum af öllu tagi - hægt er grúfla í þeim hérna. Í bókunum mínum - Tími til að njóta og Veislan endalausa var enginn sérstakur kafli fyrir grænmetisrétti en ég var þó með kafla um meðlæti í báðum bókum þar sem grænmeti var í fyrirrúmi. 

En núer kominn tími til að prófa að leyfa grænmetinu að vera í hásæti - í einn mánuð! Hugmyndin er ekki neinn kúr, heldur bara til að storka sjálfum sér. Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega fyrir grænmetisrétti (mér finnst þeir ekkert vondir - kjöt hefur alltaf fengið að vera aðal!). Ég held þannig muni ég læra eitthvað nýtt í eldhúsinu - ný brögð og nýjar aðferðir! Hver veit?

Flatbökuveisla annan janúar! Grænmetis- og ostapizzur ráða ríkjum!

Einhver mun segja að þetta sé auðveld byrjun - en það tekur auðvitað smá tíma til að venda stóru skipi. Flatbökur eru því kjörnar. Við gerðum auðvitað nokkrar með skinku og svo aðrar með afgangi af nautalund frá því um áramótin - en eins og tengdamóðir mín sagði oftar enn einu sinni þá er nýttni dyggð.


Alltént lét ég kjötið vera. Bróðir minn sá um að setja í deigið fyrr um daginn þar sem ég hafði verið í vinnu á gigtardeildinni og þegar heim var komið blasti við fallegt flatbökudeig!

Hér er hráefnalisti fyrir dúndur flatbökudeig.

700 g hveiti til brauðbaksturs
300 ml ylvolgt vatn
25 g þurrger
25 g sykur (má sleppa)
2 msk jómfrúarolía
2 tsk salt

Brósi jók uppskriftina um 50% og ég flatti deigið mjög þunnt þannig að úr urðu átta mjög þunnar flatbökur sem voru bakaðar á steini í ofninum.


Ég gerði eina flatböku með marglitum þunnt skornum papríkum, jalapenó pipar, gulum baunum rjómaosti, osti og rauðum chili.

Aðra með kúrbít, papríkum, rauðlauk, rjómasosti, osti og svörtum ólívum. 


Villi Bjarki var mér innan handar við flatbökugerðina eins og svo oft áður og er að ná tökum á því að fletja út deigið og dreifa sósu eftir kúnstarinnar reglum. 


Þessi var svo með hvítlauksolíu, soðnum kartöflum og svartmygluosti. Hefði ég verið á Íslandi hefði ég notað ostinn Ljót sem er bragðmikill blámygluostur með kraftmikið bragð - eitthvað á pari við breska Stilton ostinn.


Alger dásemd - hún var mitt uppáhald!


Þessi var valin vinsælasta flatbakan. Með fimm ostum; venjulegum röspuðum osti, mozzarella, Boursin hvítlauksosti, þunnum sneiðum af gráðaosti og Manchego osti (sem er gerður úr kindamjólk og kemur frá Spáni). Algert sælgæti - best með smáræði af kirsuberjasultu!


Þvílíkt lostæti!


Með matnum nutum við svo þessarar búkollu, Lindemans Shiraz Cabernet sem er ástralskt rauðvín, blanda af Shiraz og Cabernet þrúgum. Þetta er ljómandi góð búkolla. Með ágætri fyllingu af ferskum berjum, smá tanníni og eftirbragði sem sómdi sér ágætlega með ostapizzunum!

Það er alltaf veisla!

Wednesday, 11 December 2013

Frönsk flatbaka, Pissaladière - auk annarra tegunda - Villi bakar pizzur!

Við gerum eins og margar fjölskyldur pizzur á föstudagskvöldum. Það hefur eiginlega orðið að hefð á okkar bæ. Og það er líka alveg ágætt að sameinast í lok vikunnar og að allir fjölskyldumeðlimir fái að föndra sína eigin pizzu. Og þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég blogga um þessa flatbökugerð fjölskyldunnar. Sumum hverjum myndi finnast þetta nóg komið - hversu mörg orð er eiginlega hægt að eyða í rétt sem er raunar lítið annað en brauð með áleggi? En það er nú svo, að þetta er einn vinsælasti réttur heims.

Auðvitað gerum við nokkrar tegundir af flatbökum - allir fá að gera sína uppáhaldstegund. Börnin velja gjarnan það sama en stundum hafa þau sleppt af sér beislinu og leyft ímyndunaraflinu að ráða för. Fyrir rúmu ári fóru þau mikinn í eldhúsinu og gerðu "tilraunapizzur" - hægt er að skoða það hérna. Snædís hefur alveg fests í Pizza Bianca - sem er án tómatsósu og er ansi ljúffeng - hef jafnframt greint frá því á síðunni minni - sjá hérna. Ég held að ég hafi prófað flest í þessum bransa - að grilla þær - sjá hérna, að loka þeim og innbaka, sjá hér. Ég hef prófað ýmiskonar álegg - sett á þær allt milli himins og jarðar, hérna veisluafganga, kartöflur (sem var ljúffengt) og svo þessa með humri og þistilhjörtum - namminammi! Og aldrei verð ég þreyttur á þessu! ALDREI!

Ég hef upp á síðkastið verið að færa mig upp á skaftið hvað ansjósur varðar. Þær eru sannkallað leynivopn í matargerð - gefa ótrúlega ríkt bragð og lyfta öðru bragði með kröftugu "umami" bragði sem fyllir bragðlaukana.

Frönsk flatbaka, Pissaladière - auk annarra tegunda - Villi bakar pizzur! 

Ekta Pissaladière er frá Provence í Frakklandi en mér skilst að líkar flatbökur séu til í Liguria á Ítalíu. Liguria liggur, jú, að Frakklandi og einmitt að Provence-Alpes-Côte d'Azur. Það er kannski til lítils að þræta um uppruna þó að ég gæti best trúað að margir eldheitir Ítalir og Frakkar myndu án efa vilja rekja upprunann til sín.

Þessi flatbaka er oftast án tómatsósu - en ég ákvað að brjóta þá reglu þar sem ég hafði gert svo góða og einfalda sósu sem mér fannst synd að láta fara til spillis. Einnig datt mér í hug að tómatarnir myndu milda ansjósubragðið lítillega sem er ágætt þegar maður er að læra að elska ansjósur meira og meira. 

Innihaldslýsing

700 gr hveiti
300 ml volgt vatn
2 msk jómfrúarolía
25 gr ger
25 gr sykur
2 tsk salt

Tómatsósan

1 laukur
3 hvítlauksrif
2 msk jómfrúarolía
1 dós góðir niðursoðnir tómatar
1 msk tómatpúré
salt og pipar
2-3 msk hökkuð fersk steinselja/basil 

Álegg

15 ansjósuflök
30 kalamataólívur
2 hvítir laukar
2-3 hvítlauksrif



Það er um að gera að láta börnin sjá um þetta! Villi var að þessu sinni aðalmaðurinn í eldhúsinu!


Setjið hveitið í skál. 


Svo saltið. Og á eftir því olíuna.


Vekið gerið í volgu vatni ásamt sykrinum og þegar að það er búið að freyða í um 15 mínútur er hægt að byrja að hella því varlega saman við.


Hnoðið vandlega í fimm til tíu mínútur. 


Setjið svo viskastykki yfir og setjið til hliðar til að hefast í um klukkustund.


Á meðan deigið er að hefast - útbúið þið tómatsósuna. Steikið fyrst laukinn og hvítlaukinn í olíunni, saltið og piprið. Setjið svo tómatana, púréið og hitið að suðu og látið malla við lágan hita í 15-20 mínútur. Setjið svo kryddjurtirnar, saltið og piprið og blandið saman með töfrasprota.


Deigið ætti að ná að tvö til þrefaldast. 


Svo er bara að fletja út deigið. 


Litla systir fylgist með full aðdáunnar! 


Næst er að skera laukinn niður í sneiðar og steikja hann við lágan hita í 30-40 mínútur til þess að karmellisera hann. Gleymið ekki að salta og pipra. 


Raðið síðan ansjósum á pizzuna, lauknum, ólívum og smátt skornum hvítlauk. 


Þessi mynd er hér til að minna mig á að nefna að við gerðum fleiri flatbökur er bara Pissaladière, Snædís fékk sína Bianca, Valdís fékk eina með túnfisk og kapers og svo Villi sem vildi bara einfaldleikann að þessu sinni, skinku! 


Með matnum drukkum við þetta ljúffenga vín - Vina Maipo Gran Devocion Syrah Petite Sirah frá því 2009. Þetta er vín frá Chile og er blanda af 80% Syrah, 20% Petite Sirah. Þetta er vín sem hefur fengið góðar viðtökur - Það hefur fengið að þroskast á eikartunnum í meira en eitt ár. Bragðið er kryddað og ávaxtakennt með eikuðu eftirbragði! Ljúffengt. 



Þetta var kraftmikil og bragðgóð pizza. Umamibragðið kom sterklega í gegn og sveik ekki! Hvet ykkur til að prófa þessas bragðmiklu flatböku!