Showing posts with label gráðaostur. Show all posts
Showing posts with label gráðaostur. Show all posts

Friday, 27 March 2020

Ofureinfaldar flatbökur - með kartöflum, spergilkáli og gráðaosti svo önnur með rauðlauk, spínati, döðlum og cashew hnetum og að lokum fjögurra osta með bláberjum í eftirrétt



Ég er varla sá eini sem dettur í hug að eldaflatbökur í lok vikunnar. Það er bæði fljótlegt og svo ef maður vandar valið á áleggjunum þá er getur það verið alveg einstaklega ljúffengt. 

Ofureinfaldar flatbökur - með kartöflum, spergilkáli og gráðaosti, svo önnur með rauðlauk, spínati, döðlum og cashewhnetum og í eftirrétt - fjögurra osta með bláberjum 

Fyrir flatbökubotnana

Ef maður er alveg að brenna út á tíma - er auðvitað hægt að kaupa tilbúið deig út í búð - en það er líka auðvelt að gera sitt eigið deig. 

Innihaldslýsing

700 gr hveiti
300 ml volgt vatn
2 msk jómfrúarolía
25 gr ger
25 gr sykur
2 tsk salt

Fyrst er það deigið. Setjið hveitið í skál. Svo saltið. Og á eftir því olíuna.Vekið gerið í volgu vatni ásamt sykrinum og þegar að það er búið að freyða í um 15 mínútur er hægt að byrja að hella því varlega saman við. Hnoðið vandlega í fimm til tíu mínútur. Setjið svo viskastykki yfir og setjið til hliðar til að hefast í um klukkustund.

Nýtni er dyggð - flatbaka með kartöflum, spergilkáli og rifnum gráðaosti

Hér nýtast afgangar vikunnar vel.

3-4 msk hvítlauksolía
2-3 soðnar kartöflur
1/2 haus spergilkál
handfylli af rifnum pizzaosti
4-5 msk af rifnum gráðaosti
salt og pipar



Penslið botninn með hvítlauksolíu, sáldrið rifnum pizzaosti yfir. Raðið svo soðnum kartöflum í sneiðum og á milli spergilkáli í litlum bitnum. Sáldrið svo nóg af gráðaosti á milli. Bakið í eins heitum ofni og mögulegt er á flatbökusteini. Það tryggir af botninn verði stökkur og ljúffengur.


Þrungin af bragði. Þessi er fyrir fullorðna fólkið - og er í uppáhaldi hjá mér.

Asískt ævintýri - flatbaka með rauðlauk, spínati, basil, döðlum og cashewhnetum. 

Þessi er dálítið ævintýraleg. Og hún er líka algert sælgæti.

3-4 msk hvítlauksolía
handfylli af rifnum pizzaosti
6-7 döðlur skornar í bita
1/4 rauðlaukur í þunnum sneiðam
handfylli spínant
3-4 basillauf
handfylli cashewhnetur


Penslið deigið með jómfrúarolíu og sáldrið ostinum jafnt yfir bökuna. Dreifið rauðlauk, spínati, rifnum basillaufum og döðlum ofan á. Skreytið með nokkrum cashewhnetum. Bakið í eins heitum ofni og mögulegt er á flatbökusteini. Það tryggir af botninn verði stökkur og ljúffengur.


Eftirréttabaka - með rifnum pizzaosti, gullosti, höfðinga, piparosti - skreytta ferskum bláberjum



Þessi er ótrúlega ljúffeng. Og sigrar eiginlega alltaf. 

3-4 msk hvítlauksolía
handfylli af rifnum pizzaosti
Nokkrar þunnar sneiðar af gullosti
Nokkrar þunnar sneiðar af höfðinga
handfylli rifinn piparostur



Penslið bökuna með hvítlauksolíu, svo er flatbökunni drekkt í ljúffengum ostum. Bakið í eins heitum ofni og mögulegt er á flatbökusteini. Það tryggir af botninn verði stökkur og ljúffengur. Þegar bakan kemur úr ofninum er hún skreytt með bláberjum eftir smekk. Það er líka gott að prófa að nota sultu - rifsberjasultu eða jafnvel chilisultu.



 Þvílík föstudagsveisla.


Auðvitað fengum við okkur rauðvínstár með bökunum. 19 Crimes the Uprising frá því 2018 frá Ástralíu. Þetta vín er blanda úr Shiraz/Syrah, Cabernet Sauvignon, Grenache. Þetta er ansi kraftmikið vín - enda fær það að þroskast að hluta í rommtunnum. Mikill ávöxtur og ljómandi gott jafnvægi á tungu. 

Verði ykkur að góðu. 


-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Saturday, 23 April 2016

Grillveislan: Grísakótilettur með gráðosti, puru og eplasósu





Það eru spennandi tímar framundan. Á föstudaginn næstkomandi eftir vinnu mun ég skunda til Heathrow og bregða mér til Íslands - og mér finnst ástæðan vera ansi góð. Við ætlum að fagna útgáfu þriðju matreiðslubókarinnar minnar - Læknirinn í Eldhúsinu - Grillveislan. 

Hún mun koma út laugardaginn 30. apríl 2016. Við munum blása til útgáfuveislu í Eymundsson á Skólavörðustíg. Við kveikjum undir grillinu fyrr um daginn og bjóðum alla velkomna til að að fagna með okkur klukkan 17.00. Það verður boðið upp á heilgrillað lamb og auðvitað meðlæti og svo ljúffengan bjór, Bola, til að væta kverkarnar! 

Bókin hefur verið í vinnslu síðan fyrir ári. Þetta atvikaðist þannig að  ég brá mér í kaffi til Tomma og Önnu Margrétar, útgefendanna minna, en þau voru þá búsett í Lundi. Tommi hafði nýlega keypt sér fallega sænska grillbók og spurði svona hálfkæringslega hvort það væri einhver vandi að henda í eina grillbók! 

Og svarið var einfalt! Það var stórskemmtilegt að elda og skrifa þessa bók. 


-
Útgáfu-grillveisla 
laugardaginn 30. apríl 
klukkan 17:00 
Eymundsson - Skólavörðustíg
Allir eru velkomnir!!!
-

En þó að þessi bók - Læknirinn í Eldhúsinu - Grillveislan, hafi átt hug minn allan síðustu mánuði þá hefur heilmikið verið um að vera. Við erum búin að fjárfesta í húsi á Íslandi og í síðustu viku keyptum við flugmiða til Íslands - aðra leið. Ég er að fara að vinna á Landspítalanum og svo verð ég einnig með stofu í Klíníkinni í Ármúla í samstarfi við fleiri kollega. Snædís getur tekið hluta af sínu starfsnámi á Íslandi og mun ljúka námi strax eftir áramótin. Börnin eru skráð í skóla, Valdís er búin að sækja um menntaskóla, Villi er kominn í Ártúnsskóla og Ragga Lára er á biðlista fyrir leikskóla. 
Við erum að undirbúa flutning frá tveimur löndum, förum til Svíþjóðar í júní til að setja búslóðina okkar í gám. Svo þurfum við einnig að koma nokkrum hlutum í skip hér í Englandi. Það er, sko, nóg að gera - og svei mér þá - ef það er ekki bara skemmtilegt!

Jibbí!

Grísakótilettur með gráðosti, puru og eplasósu


Grísakótilettur eru frábærar á grillið – sérstaklega þegar maður er að flýta sér. Og það er mikilvægt að hafa væna fiturönd á svíninu – það er bæði gott á bragðið og svo verndar það líka sjálft kjötið frá því að þorna á meðan það er eldað.

Hér er byrjað að elda kótilettuna á miklum hita í mínútu á hvorri hlið og svo eru þær settar til hliðar og grillaðar áfram á óbeinum hita þangað til að þær eru tilbúnar. Mér finnst erfitt að meta hvenær svínakjöt er tilbúið og þar af leiðandi finnst mér best að nota kjöthitamæli. Og ég leyfi kjötinu ekki að fara hærra en 70 gráður. Munið að kjötið heldur áfram að eldast í nokkrar mínútur eftir að það er tekið af grillinu.

Í nafngift þessarar uppskriftar aðskil ég kótilettuna frá purunni þar sem hún er tekin af kjötinu og elduð sér, þar sem það tekur lengri tíma að fá hana fullkomna en tekur að elda kótilettuna.

Fyrir sex

6 sneiðar grísakótilettur með purunni
150 gr stilton ostur (eða annar ljúffengur blámygluostur)
2‒3 msk jómfrúarolía
1 grein rósmarín
salt og pipar

Eplasósan

4 epli
75 ml vatn
2-3 msk hlynsíróp
1 kanilstöng



Skerið puruna af kótilettunni og látið hana þorna í ísskáp í eina klukkustund. Nuddið hana svo upp úr olíu, saltið ríkulega og setjið í 200 gráðu heitan ofn þangað til að hún poppast (15‒20 mínútur).
Nuddið grísakótiletturnar upp úr jómfrúarolíu, smátt skornu rósmaríni og salti og pipar.



Blússhitið grillið og grillið sneiðarnar í eina mínútu á hvorri hlið þannig að þær karmelliserist vel. Setjið þær á óbeinan hita.


Skerið ostinn í sneiðar og raðið ofan á hverja kótilettu. Grillið þangað til að kjarnhiti hefur náð 70 gráðum. Hvílið í 5 mínútur.


Það er eitthvað fallegt við ost sem er að bráðna á heitri steik! 


Það er lygilega einfalt að fá puruna vel heppnaða - þessi varð alveg eins og kex! 


Eplasósan er ákaflega einföld. Flysjið eplin og skerið í grófa bita og setjið í pott, ásamt kanilstönginni, og hitið þangað til að eplin fara að taka smá lit. Hellið sírópinu og vatninu saman við og sjóðið vökvann niður. Eldið eplin þangað til að þau eru orðin mjúk í gegn. Stappið þau gróflega niður með sleif og látið kólna í ísskápnum. Vel er hægt að gera eplasósuna áður þar sem hún geymist vandræðalaust í ísskápnum í nokkra daga.

Með matnum drukkum við þetta ljúffenga rauðvín - Trivento Golden Reserve Malbec frá því 2013. 


Þetta vín er frá Argentínu - Mendoza dalnum og hefur unnið til verðlauna. Þetta vín er dökkrautt, eiginlega rúbinrautt í glasi. Ilmurinn með þéttum ávaxtailm. Bragðið kraftmikið með sultuðum ávexti, kryddað, jafnvel súkkulaðikeimur. Ljómandi eftirbragð. 



Hlakka til að sjá sem flesta á laugardaginn næsta! 

Bon appetit!

Thursday, 21 August 2014

Læknisráð í eldhúsinu: Dúndur hakkabuff með spældu eggi og besta steikta lauknum - nokkur heilræði!

Ég ætti kannski að hefja þessa færslu á því að biðjast afsökunar á því hverju ég er að blogga þessa færslu - hakkabuff og spælegg - common Ragnar!! Oftast blogga ég, jú, um veislumat, eitthvað sem best passar á veisludögum, jafnvel til hátíðartilbrigða. En sama hvað maður óskar þess heitt þá er bara helgi tvo daga í viku.

Og einhver myndi kannski segja að þetta sé nú full hvunndags til að bera á borð. En því svara ég að þessi réttur er í miklum metum hjá ansi mörgum. Sumir Danir myndu ganga svo langt að kalla þennan rétt sinn eigin. Og þessi réttur er í sérstöku uppáhaldi hjá mér - gott ef ekki hjá föður mínum líka. Þegar ég var að vinna á heilsugæslustöð í Horselunde í Danmörku var það alltaf ákveðinn viðburður að elda þennan rétt í hverri ferð sem ég fór Lollands.

Þessi færsla er ekki hugsuð sem uppskrift heldur þrjú ráð um hvernig má taka hversdagslegan mat, sem oft er ansi venjulegur, og hvernig má lyfta honum upp í efstu hæðir. Stundum þarf bara svo lítið annað til en bara smá tíma til að breyta einhverju úr hversdagslegu í eitthvað sem gefur hversdeginum þó ekki nema örlítinn veislubrag! Og hérna eru nokkrar uppástungur!

Læknisráð í eldhúsinu: Dúndur hakkabuff með spældu eggi og besta steikta lauknum - nokkur heilræði!

Það er ekki alltaf veislumatur á borðum hjá mér. Stundum elda ég líka bara kjötbollur eða steiktan fisk. En eftir því sem maður les meira um matargerð og æfir sig meira þá lærir maður nokkur brögð sem breyta venjulegum mat í eitthvað annað og meira.


Varðandi laukinn. Til að karmellissera lauk þarf langan tíma. Margar bækur segja 10-15 mínútur en það eru bara helber ósannindi. Það er hreinlega ekki hægt, ekki nema með því að svindla með því að hella sírópi á pönnuna eftir 10 mínútur og steikja með síðustu mínúturnar. Það er í sjálfu sér ágætt svindlbragð til að nota þegar maður er að brenna út á tíma en það er ekki það sama og að steikja laukinn varlega í 35-45 mínútur til að galdra fram hans eigin sykur. Lauksætan er nokkuð einstök. Gefið ykkur nægan tíma. 

Annað er að skella einum eða tveimur stjörnuanísum með á pönnuna. Það hjálpar að draga fram umami bragðið í lauknum og lyfta honum ennþá frekar. Hafið ekki áhyggjur - það verður ekkert anísbragð af lauknum. 

Steikið laukinn í miklu smjöri og saltið vel og piprið. Og voila - besti steikti laukur allra tíma. 

Það má líka halda áfram með laukinn og umbreyta honum í lauksósu eða jafnvel lauksúpu en það er önnur færsla! 



Kaupið gott nautakjöt sem inniheldur 15-20 prósent fitu. Þannig mun það halda mýkt sinni og ekki verða þurrt við eldun. Kjöt sem inniheldur minna en 10 prósent mun gefa síðri niðurstöðu. 

Það er um að gera að lauma einhverju inn í hakkabuffið. Mér finnst gott að lauma smá osti inn í buffið. Í þetta sinn notaði ég blámygluost, en stundum nota ég gryere - bara einhvern ostu sem bráðnar og rennur inn í kjötið. Einhverstaðar hef ég lesið um að lauma smjörklípu inn í kjötbolluna, en ég á það eftir. 


Brúnið kjötið í smjöri að utan. Þetta á ekki að taka langan tíma. Bara að loka því!



Hugmyndin er að loka kjötinu, leggja það svo í eldfast mót, laukinn yfir og klára það inn í 180 gráðu heitum ofni í 10 mínútur á meðan þið gerið sósuna.


Besta sósan er gerð á pönnunni sem kjötið var steikt á. Setjið hveiti út á pönnuna til að gera smjörbollu (roux - fyrir 30 g af smjöri notið 30 g af hveiti). Hellið svo á pönnuna góðu kjötsoði og hitið að suðu og sjóðið niður - bætið rjóma saman við! Smakkið til með salti, pipar, sultu og jafnvel smá Worchestershire sósu til að gefa sósunni auka kick!


Eggin eru best steikt í nóg af fitu. Sérstaklega smjöri - þannig er það nú bara! Einhverjum kann að blöskra þetta mikla smjör, en það er bara ekkert óhollt, þvert á móti!


Ennþá betra er að hella smávegis af smjörinu yfir eggin til að flýta fyrir elduninni og gefa þeim ennþá betra bragð. Að sjálfsögðu þarf að salta og pipra!

Þá er ekkert eftir annað en að setjast að borðum. 

Það er alltaf tími til að njóta - líka á þriðjudögum!

Monday, 14 May 2012

Ljúffengt úrbeinað og fyllt lambalæri - með döðlum og gráðaosti ogeinfaldri rjómasoðsósu




Ég hef verið staddur talsvert úti á landi síðastliðnar tvær vikur. Við hjónakornin vorum vart komin heim frá London þegar ég þurfti að fara á námskeið á norðvestanverðum Skáni eins og ég nefndi í síðustu færslu. Þessa vikuna hef ég verið staddur úti í héraði rétt suð-austan við Gautaborg á fallegri sveit. Hlakka til að snúa heim aftur - enda er þar alltaf best að vera.

Það verður líka nóg að gera. Við höfum verið að reyna að nota síðastliðnar helgar til að koma garðinum í sæmilegt horf fyrir sumarið. Um síðustu helgi tókst mér að setja niður þrjár tegundir af kartöflum. Ég setti niður nokkrar Maris Piper, nokkrar Asterix og svo talsvert af möndlukartöflum sem eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Ætla síðan að setja niður nokkrar tegundir af grænu káli til að hafa fyrir öll salötin sem eiga vera á boðstólnum í sumar. Þessa helgi þarf að lyfta grettistaki í að bera á pallinn og koma öllum kryddjurtum á rétt ról - ekki seinna vænna. Það er fátt betra en að geta gengið út í garð og plokkað þær kryddjurtir sem maður þarf á að halda.



Þetta lambalæri gerði ég þegar tengdamóðir mín brá sér í heimsókn til okkar nýverið. Hún skellti sér á tilboð hjá Iceland Express og skrapp til okkar yfir helgi. Hún kom færandi hendi með fangið fullt af góðgæti og þá meðal annars þetta lambalæri sem við elduðum á laugardagskvöldinu. Þegar ég var yngri (ég ætla að bíða aðeins með að segja ungur - þar sem ég held að ég sé ennþá ungur...er það ekki annars?) þá hreifst ég mjög af Jamie Oliver. Hann hafði þann háttinn á að stinga í lærið og troða svo kryddjurtum og fleira ofan í sárið og baka síðan. Þessi uppskrift er að hluta afturhvarf til fortíðar nema núna úrbeinaði ég lærið. Og það er auðveldara en margur heldur. Bara beittan hníf - og elta svo beinið og skera í kringum það!

Gómsætt fyllt lambalæri - með döðlum og gráðaosti og með einfaldri rjómasoðsósu
Eins og ég nefndi þá er ekki snúið að úrbeina lambalæri. Það eru til leiðbeiningar á netinu sem er hægt að kíkja á áður. Lykillinn er að vera með beittan hníf og eins og ég nefndi skera meðfram beininu. Maður byrjar á því að taka lykilbeinið. Svo þegar það er komið þá blasir mjaðmakúlan við og þá er ekkert annað en að skera frá henni með lærbeininu niður á hnéliðinn og þar suðureftir niður á hækilinn. Svo skrapar maður bara kjötið frá beininu. Beinin notar maður svo til þess að búa til soðsósuna!



Ég rakst á þessar döðlur útí matvörubúð hjá mér. Ferskar, dísætar og safaríkar! Og fullkomnar fyrir lambalæri. Byrjaði á því að nudda olíu á lærið, salt og pipar.



Síðan nokkrar niðursneiddar döðlur, síðan steinselja.



Og svo að lokum talsvert af góðum gráðosti!



Lærinu er síðan lokað og bundið utan um það með snæri. Lærið er sett í ofnpott, látið hvíla ofan á smáræði af niðurskornum lauk, gulrót og sellerí til að lyfta því upp frá botninum. Síðan setti ég 1-2 bolla af vatni í botninn, til að fanga allan vökva sem rennur af lærinu við eldun. Setti svo lokið á pottinn og bakaði við 160 gráður þangað til að kjarnhiti var kominn í 60 gráður. Þá var lærið tekið út og látið standa í hálftíma á meðan sósan var gerð.



Rétt áður en lambið var borið fram var það sett undir blússheitt grillið til þess að fá stökkan hjúp utan um það. Það tekur ekki nema mínútu þannig að það borgað sig ekki að líta af því.

Og svo var það sósan. Hún var einföld. Bjó til smörbollu. 30 gr af smjöri í pott og þegar það er bráðið þá hræði ég 30 gr af hveiti saman við. Þá er maður kominn með smjörbollu, roux! Næsta skref var að hella soðinu saman við og hræra vel. Láta suðuna koma upp og smakka svo til. Það þarf alltaf að skerpa á sósum og maður á ekkert að hætta fyrr en maður er ánægður með niðurstöðuna. Bætti við smá lambakrafti, salti, pipar og smá sultu. Og þá varð hún ljómandi góð!

Með matnum vorum við með soðnar möndlukartöflur frá Norrbotten og ljúffengt salat. Blönduð grænlauf og svo gula og rauða papriku.







Með matnum drukkum við að sjálfsögðu smáræði af rauðvíni. Að þessu sinni gæddum við okkur á Fleur de Cap Cabernet frá því 2009. Þetta er vín frá Suður Afríku. Ég hef einhvern tíma smakkað hvítvín frá þessum framleiðanda og fannst það alveg ljómandi. Þetta er góður sopi með ágæta fyllingu, tannín og kröftugt berjabragð. Eikað og ljúft eftirbragð.



Tími til að njóta!

Sunday, 25 March 2012

Grilluð pólenta með parmaosti og einföldu salati - veisla úr afgöngum!

Nýlega eldaði ég gómsæta lambaskanka með gorganzola polenta. Og sá réttur var algerlega gómsætur. En eins og svo oft áður þá eldaði ég of mikið af meðlæti. Þetta er krónískt vandamál í mínu eldhúsi! Það er engin nýlunda að ég eldi of mikið og ég reyni að vera nýtinn. Ég veit að tengdamóðir mín myndi snúa sér við í ógrafinni gröfinni ef hún vissi að ég færi ekki vel með afgangana - enda er nýtni dyggð.

Það er líka oft þannig að ég næ að snúa afgöngunum í eitthvað annað og stundum er það meira að segja spennandi. Fyrir ári síðan var ég áskrifandi að bandaríska blaðinu Bon appetit og þegar kynntar voru til leiks uppskriftir þá fylgdu oft með hugmyndir að því hvernig mætti nýta afganga. Mjög sniðugt.

Alltént þá er þetta svo örfærsla - mér fannst ég verða að skrifa um þetta þar sem maturinn smakkaðist svo vel. Og þar sem við borðuðum þetta í hádeginu daginn eftir var meira að segja hægt að notast við salatið sem hafði verið gert kvöldinu áður, sem meðlæti.

Grilluð pólenta með parmaosti og einföldu salati - veisla úr afgöngum!


Pólenta er malað maizenamjöl sem þenst verulega út þegar það er soðið í vatni. Við suðuna lætur það frá sér sterkju sem gerir það að verkum að það verður silkimjúkt þegar það er heitt. Þegar það kólnar stífnar það og tekur á sig brauðkennt form.

Ég hafði haft rænu á því að breiða það út á bretti áður en það kólnaði og geymdi það í ísskápnum yfir nóttina. Þetta var auðvitað engin sérstök eldamennska. Bara að skera pólentuna í þríhyrninga (ætli það hafi ekki verið það flóknasta). Pólentan hafði verið bragðbætt með gorgonzólaosti þannig hún var pökkuð af djúpum blámyglyosti! Fátt er jú betra!



Hitta pönnuna þannig að það nánast rjúki úr henni. Pensla síðan hverja sneið með smáræði af hvítlauksolíu. Grilla síðan í 1-2 mínútur á hvorri hlið, rétt til að fá rákir á yfirborðið og svo til að hita pólentuna í gegn.
Leggja á disk og setja smávegis af blönduðu salati með! Síðan þarf maður bara að vera rausnarlegur með parmaostinn. Þetta var meiriháttar hádegisverður!



Tími til að njóta!

Ps. Kæru lesendur - ef þið kunnið vel við lesturinn mitt væri ég afar þakklátur ef þið mynduð smella á "like" hérna fyrir neðan - eða jafnvel í gluggann sem er á hægra megin á síðunni og er tengdur facebook síðunni minni - The Doctor in the Kitchen.

Kærar kveðjur, Ragnar