Showing posts with label kryddjurtasósa. Show all posts
Showing posts with label kryddjurtasósa. Show all posts

Sunday, 15 November 2020

Þunnt skorinn, vel marineraður og snögg-grillaður lambahryggur með kryddjurtasósu og grísku salati

 

Það var svo ljúft veður liðna helgi að ég fékk þá flugu í höfuðið að grilla. Sumir vetrardagar bara kalla á að maður kyndi upp í grillinu - og eldi kvöldverð undir berum himni. En þegar á hólminn var svo komið sendi ég karl föður minn út með kjötið. En hann þurfti ekki að standa lengi við grillið þar sem ég hafði látið skera lambahrygginn í mjög þunnar sneiðar - svo þær væru eldsnöggt á grillinu.  

Ég hef ætlað að gera þetta um nokkuð skeið - en ekki látið verða af því fyrr en nú. Íslenskar kótilettur, lambakonfekt, er gjarnan skorið aðeins þykkara. Ég fékk svona þunnt skornar lambakótilettur þegar ég var í heimsókn hjá Ramon Bilbao í Rioja haustið 2018. Hugmyndin á bak við þessar þunnt skornu kótilettur er að maður nái lambafitunni stökkri og ljúffengri án þess að ofelda sjálft kjötið.  

Þunnt skorinn, vel marineraður og snögg-grillaður lambahryggur með kryddjurtasósu og grísku salati


Þetta er ekki flókin matseld en það er skynsamlegt að leyfa kjötinu að meyrna í ísskáp í nokkra daga og svo marinerast í nokkrar klukkustundir. Ég fékk Geira í Kjötbúðinni á Grensásveginum til að saga hrygginn niður með þessum hætti. 

1 lambahryggur - skorinn þunnt
3-4 msk góð jómfrúarolía (ég notaði bragðbætta olíu frá Olio principe)
2 msk Yfir holt og heiðar 
handfylli ferskt timjan, steinselja og mynta 
salt og pipar

Fyrir kryddsósuna

1 dós sýrður rjómi
2-3 msk majónes
1/2 dós af bragðbættum rjómaosti
2 hvítlauksgeirar
handfylli ferskt timjan, steinselja og mynta 
salt og pipar

Grískt salat 

græn lauf
kjarnhreinsuð agúrka
rauðlaukur
kalamata ólífur 
fetaostur
fersk mynta 

Kartöflusalat

700 g soðnar og flysjaðar kartöflur (láta kólna) 
4-5 msk pæklaður rauðlaukur
2-3 msk sýrður rjómi
2-3 msk majónes
1 msk hlynsíróp
salt og pipar


Ég byrjaði eldamennskuna um hádegisbil. Kjötið hafði þá fengið að meyrna í ísskáp í þrjá til fjóra daga og svo á frammi á borði yfir nótt. Skolaði af því og þerraði og setti í ílát. Bætti olíunni, öllu kryddinu - bæði því þurrkaða og því ferska og salti og pipar saman við og lét marinerast í nokkrar klukkustundir. 


Ilmurinn af þessu kjöti var himneskur. 


Sósan var ofureinföld. Blandaði saman sýrðum rjóma, majónesi og rjómaosti. Hakkaði svo heilmikið af kryddjurtum (þeim sömu og ég hafði notað í marinerínguna) og hrærði saman við. Smá hlynsíróp og smakkaði svo til með salti og pipar. 


Salatið var líka einfalt. Bara að skola grænu laufin og leggja á disk, sneiða gúrkuna og kjarnhreinsa, sneiða rauðlaukinn, sáldra yfir svörtum kalamata ólívum, ásamt fetaosti. Skreytt með myntu. Saltað og piprað. 


Pabbi sá um að grilla. Hann er með ferlega heitann brennara á grillinu sínu. Kjötið þurfti ekki nema 90 sekúndur á hvorri hlið. 


Kartöflusalatið var líka fljótlegt að matreiða. Kartöflurnar voru flysjaðar, soðnar í söltu vatni og settar í skál til að kólna. Sýrðum rjóma og mæjónesi blandað saman, ásamt hökkuðum pækluðum rauðlauk (heimagerðum að sjálfsögðu - sjá hérna). 


Þetta var ljómandi gott rauðvín. Trapiche Medalla Cabernet Sauvignion frá 2017. Þetta er kraftmikið vín, gott að leyfa því að anda svolítið, þurrt á tungu, ríkur ávöxtur og ágætlega eikað með ljúfu eftirbragði. 


Sannkölluð veislumáltíð. 

Verði ykkur að góðu! 


-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Monday, 6 August 2018

Sólargrill í Reykjavík - Marineraðar lambalundir með sæt kartöfluskífum, kúrbítsneiðum og kryddjurtasósu


Nú í sumar hef ég varið bróðurpartinum af frítíma mínum í tökur á þáttaröðinni, Lambið og miðin, sem sýnd verður næsta vetur á Sjónvarpi Símans. Ég hef notið þeirra einstöku forréttinda að fá að vinna afar náið með bróður mínum, tökumönnunum Árna, Elvari og nú síðast Sindra og svo að sjálfsögðu Kristjáni Kristjánssyni - sem hefur framleitt þættina með mér og leikstýrt. Það veitir manni óneitanlega mikinn innblástur að vinna með öðlingum eins og þessum sem deila ástríðu manns á góðum mat og ljúfum stundum. 

Mér á án efa eftir að verða tíðrætt um þetta sumar, þar sem það hefur verið algerlega ógleymanlegt. Við hófum ferðalagið á Norðurlandi við Mývatn, Reykjahlíð, Tungulendingu og Naustavík á Skjálfanda. Næst fórum við allt Snæfellsnesið og heimsóttum Hellnar, Búðir, Kirkjufell, Stykkishólm og svo Flatey. Við lukum ferðalaginu að þessu sinni undir Eyjafjöllum, í Merkigili, Bakkafjöru og svo í Vestmannaeyjum. Við kynntumst mörgu ógleymanlegu fólki og ég á mér heita ósk um að við náum að miðla þessum upplifunum til ykkar á sjónvarpsskjánum. 

Við höfum reynt að nútímavæða rótgrónar, íslenskar uppskriftir og reynt að glæða þær nýju lífi. Þið dæmið um auðvitað hvernig til hefur tekist. Ég hlakka alltént til að deila þessu með ykkur! 

Sólargrill í Reykjavík - Marineraðar lambalundir með sætkartöfluskífum, kúrbítsneiðum og kryddjurtasósu

Nú um helgina voru fyrstu sólardagarnir í Reykjavík. Það var því auðveldara en oft áður að setja á sig grillsvuntuna og koma sér í gírinn. 

Hráefnalisti fyrir fjóra

800 g lambalundir
4 msk jómfrúarolía
1 msk kryddblanda að eigin vali (ég útbjó mína eigin) 

2 sætar kartöflur
2 kúrbítar
4 tómatar
jómfrúarolía
hvítlaukssalt og pipar

2 msk majónes 
2 msk grísk jógúrt
stórt handfylli af blönduðum íslenskum kryddjurtum 
1 tsk síróp
safi úr hálfri sítrónu
salt og pipar


Ég útbjó mér kryddblöndu - eina af þeim sem ég þróaði með Krydd og Tehúsinu í fyrra - Vilt og ótamið og bætti svo meiri pipar saman við - bæði rósapipar og grænum piparkornum. Og svo salt og pipar að sjálfsögðu.



Velti lambalundunum upp úr jómfrúarólíu og nuddaði kryddblöndunni vandlega í kjötið. Lagði á borð í tvær klukkustundir ásamt nokkrum sítrónusneiðum og lét standa í tvær klukkustundir til að marinerast. 


Skar grænmetið í sneiðar, velti upp úr jómfrúarolíu og saltaði og pipraði. 


Svo var bara að útbúa sósuna. Blandaði majónesi og jógúrt saman í skál og hrærði saman við sírópið, sítrónusafa og salti og pipar. Svo skar ég niður fullt af kryddjurtum - steinselju og sítrónumelissu og lét standa í 30 mínútur - til að bragðið fengi að taka sig betur.


Svo var ekkert annað að gera en að fara að grilla. Ég byrjaði á sætu kartöflunum þar sem þær taka lengstan tíma. Næst tómata og kúrbít.


Þegar grænmetið var grillað í gegn var það lagt til hliðar og lundirnar grillaðar ásamt sítrónunum.


Svo var herlegheitunum raðað á disk og gestir boðnir til borðsins.


Með matnum nutum við þessa ljúffenga rauðvíns. Þetta er Marques de Casa Concha Pinot Noir frá 2016 sem er framleitt í Chile í Suður-Ameríku. Þetta vín er ljúffengt. Rauðgegnsætt í glasi, með ilm af þurrkuðum ávöxtum og dökku súkkulaði með svipuðum tónum á tungu og eftirbragði sem sómdi sér vel með matnum. 

Verði ykkur að góðu! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa