Monday 6 August 2018

Sólargrill í Reykjavík - Marineraðar lambalundir með sæt kartöfluskífum, kúrbítsneiðum og kryddjurtasósu


Nú í sumar hef ég varið bróðurpartinum af frítíma mínum í tökur á þáttaröðinni, Lambið og miðin, sem sýnd verður næsta vetur á Sjónvarpi Símans. Ég hef notið þeirra einstöku forréttinda að fá að vinna afar náið með bróður mínum, tökumönnunum Árna, Elvari og nú síðast Sindra og svo að sjálfsögðu Kristjáni Kristjánssyni - sem hefur framleitt þættina með mér og leikstýrt. Það veitir manni óneitanlega mikinn innblástur að vinna með öðlingum eins og þessum sem deila ástríðu manns á góðum mat og ljúfum stundum. 

Mér á án efa eftir að verða tíðrætt um þetta sumar, þar sem það hefur verið algerlega ógleymanlegt. Við hófum ferðalagið á Norðurlandi við Mývatn, Reykjahlíð, Tungulendingu og Naustavík á Skjálfanda. Næst fórum við allt Snæfellsnesið og heimsóttum Hellnar, Búðir, Kirkjufell, Stykkishólm og svo Flatey. Við lukum ferðalaginu að þessu sinni undir Eyjafjöllum, í Merkigili, Bakkafjöru og svo í Vestmannaeyjum. Við kynntumst mörgu ógleymanlegu fólki og ég á mér heita ósk um að við náum að miðla þessum upplifunum til ykkar á sjónvarpsskjánum. 

Við höfum reynt að nútímavæða rótgrónar, íslenskar uppskriftir og reynt að glæða þær nýju lífi. Þið dæmið um auðvitað hvernig til hefur tekist. Ég hlakka alltént til að deila þessu með ykkur! 

Sólargrill í Reykjavík - Marineraðar lambalundir með sætkartöfluskífum, kúrbítsneiðum og kryddjurtasósu

Nú um helgina voru fyrstu sólardagarnir í Reykjavík. Það var því auðveldara en oft áður að setja á sig grillsvuntuna og koma sér í gírinn. 

Hráefnalisti fyrir fjóra

800 g lambalundir
4 msk jómfrúarolía
1 msk kryddblanda að eigin vali (ég útbjó mína eigin) 

2 sætar kartöflur
2 kúrbítar
4 tómatar
jómfrúarolía
hvítlaukssalt og pipar

2 msk majónes 
2 msk grísk jógúrt
stórt handfylli af blönduðum íslenskum kryddjurtum 
1 tsk síróp
safi úr hálfri sítrónu
salt og pipar


Ég útbjó mér kryddblöndu - eina af þeim sem ég þróaði með Krydd og Tehúsinu í fyrra - Vilt og ótamið og bætti svo meiri pipar saman við - bæði rósapipar og grænum piparkornum. Og svo salt og pipar að sjálfsögðu.Velti lambalundunum upp úr jómfrúarólíu og nuddaði kryddblöndunni vandlega í kjötið. Lagði á borð í tvær klukkustundir ásamt nokkrum sítrónusneiðum og lét standa í tvær klukkustundir til að marinerast. 


Skar grænmetið í sneiðar, velti upp úr jómfrúarolíu og saltaði og pipraði. 


Svo var bara að útbúa sósuna. Blandaði majónesi og jógúrt saman í skál og hrærði saman við sírópið, sítrónusafa og salti og pipar. Svo skar ég niður fullt af kryddjurtum - steinselju og sítrónumelissu og lét standa í 30 mínútur - til að bragðið fengi að taka sig betur.


Svo var ekkert annað að gera en að fara að grilla. Ég byrjaði á sætu kartöflunum þar sem þær taka lengstan tíma. Næst tómata og kúrbít.


Þegar grænmetið var grillað í gegn var það lagt til hliðar og lundirnar grillaðar ásamt sítrónunum.


Svo var herlegheitunum raðað á disk og gestir boðnir til borðsins.


Með matnum nutum við þessa ljúffenga rauðvíns. Þetta er Marques de Casa Concha Pinot Noir frá 2016 sem er framleitt í Chile í Suður-Ameríku. Þetta vín er ljúffengt. Rauðgegnsætt í glasi, með ilm af þurrkuðum ávöxtum og dökku súkkulaði með svipuðum tónum á tungu og eftirbragði sem sómdi sér vel með matnum. 

Verði ykkur að góðu! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

No comments:

Post a Comment