Saturday 11 August 2018

Safaríkur þríosta sveitaborgari með stökkum heimafrönskum


Það kemur mér eiginlega endalaust á óvart hversu góð máltíð hamborgarar eru. Bandaríkjamenn eru sannfærðir um að þeir eigi heiðurinn af þessari ljúffengu uppgötvun. En sagan er auðvitað mun lengri. Líklega voru Mongólar fyrstir til að snæða hakkað kjöt í stríðsferðum sínum á þrettándu öldinni. Flestar þjóðir Evrópu hafa líka hakkað kjöt og mótað það í einhverslags bollur. En hver fann upp hamborgarann eins og við þekkjum hann í dag? 

Líklega mega Bandaríkjamenn eiga heiðurinn af því. En ennþá er deilt um hver var fyrstur til. Samkvæmt heimildum mun fyrsti hamborgarinn hafa litið dagsins ljós á Louis Lunch í New Haven í Conneticut fylki árið 1895. Þá herma fregnir líka að sami réttur hafi verið borinn á borð í Seymor í Wisconsin. En kannski voru það Menchen bræðurnir sem tróðu kjötbollu á milli tveggja brauðsneiða á bæjarhátíð í Hamburg í New York fylki. Hvað sem um þetta má segja er hægt að halda því fram að hamborgarinn hafi tröllriðið heiminum. 

Og ekki skrítið. Þetta er ótrúlega ljúffeng máltíð sé vel staðið að gerð hans. 

Safaríkur þríosta sveitaborgari með stökkum heimafrönskum

Ég sótti nautahakkið í Kjöthöllina og fékk þau til að hakka fyrir mig nautaframpart og blanda því saman við nautafitu til að fá fullkomið hlutfall á milli kjöts og fitu. Að mínu mati (og flestra annarra) er best að hafa 80 prósent kjöt á móti 20 prósent fitu. 

Hráefnalisti fyrir 6 manns 

800 g nautahakk
salt og pipar

tómatar
salat
pæklaðar agúrkur
djion sinnep
majónes

nokkrar sneiðar af; 
Havarti
Cheddar 
Ísbúa

600 g kartöflur
salt og pipar


Mótaði hamborgarana í 120-150 g bollur og flatti þær vandlega út.


Ég notaði nokkrar tegundir af osti. Fólk fékk auðvitað að velja sjálft hvaða osta það vildi hafa á hamborgarann.


Hver ostur hefur sína eiginleika. Ég notaði að sjálfsögðu alla ostana á minn borgara.


Til að gera eldamennskuna auðveldari þá útbjó ég ostsneiðarnar á disk þannig að þær voru tilbúnar þegar borgaranum var snúið.


Hamborgarinn var eldaður á blússheitu grilli. Ekki gleyma að salta og pipra.


Þegar hamborgaranum var snúið tyllti ég ostinum ofan á þannig að han fengi að bráðna yfir kjötið.


Það er ágætt að leyfa hamborgaranum að hvíla í nokkrar mínútur á meðan brauðið er ristað á grillinu. Svo er bara að byggja upp hamborgarann; Smyrja brauðið með djion og majónesi, tylla grænmetinu bæði undir og ofan á - og byrja að hlakka til.


Kartöflurnar voru skornar í bita og steiktar í heitri olíu þangað til að þær voru stökkar að utan, gullinbrúnar og mjúkar að innan.Með hamborgarnum bárum við fram ljúffengt rauðvín frá Ástralíu. 19 Crimes er rauðvín frá 2016 og er gert úr blöndu af Shiraz, Grenache og Mataró þrúgum. Vínið ilmar af ávexti, þéttum plómum og hefur svipað bragð á tungu með góðu jafnvægi og þægilegu eftirbragði. Passaði fullkomlega með hamborgaranum. 

Verði ykkur að góðu! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

No comments:

Post a Comment