Monday 20 August 2018

Seiðandi svínalundir sous vide með gljáðum perum, bökuðum osti og splunkunýjum íslenskum kartöflum



Sumarfríinu fer senn að ljúka og haustið fer að ganga í garð. Og ég er fullur tilhlökkunar, fullur þakklætis fyrir upplifanir sumarsins. Ég hef verið upptekinn bæði við leik og störf. Vinnan hefur verið krefjandi - starfið á spítalanum hefur verið annasamt - mikið af veiku fólki sem hefur þurft aðstoð spítalans sem hefur barist við að veita fullnægjandi þjónustu sökum, þrátt fyrir mikið plássleysi. En þökk sé ótrúlegu starfsfólki sjúkrahúsins höfum við komist hjá stórslysum og veitt, að mínu mati, frábæra þjónustu á afar strembnum tímum. 

Í fríunum mínum hef ég sinnt áhugamáli mínu af kappi. Ég hef, eins og fram hefur komið á blogginu mínu, verið önnum kafinn ásamt frábæru tökuliði að því að taka upp sjónvarpsseríu fyrir sjónvarp Símans - Lambið og miðin. Við höfum farið víða - Mývatn, Húsavík, Naustavík, Hveravellir, Hellnar, Búðir, Kirkjufell við Grundarfjörð, Stykkishólmur og Flatey - verið undir Eyjafjöllum, í Bakkafjöru og að lokum í Vestmannaeyjum. Við höfum notið þeirra forréttinda að kynnast ótrúlegum hópi fólks sem elskar íslenskan mat og íslenska náttúru. Ég vona innilega að við komum upplifunum okkar og þeirra sómasamlega til skila. Afraksturinn verður sýndur á næsta vetri. 

Þá hef ég líka farið í alvöru frí - fór nokkrar ferðir í sumarbústað foreldra minna í Kjósinni, til Vestfjarða og nú erum við fjölskyldan nýkomin heim úr stórkostlegu fríi í Róm og Toskana. Tengdafaðir minn fagnaði sjötugsafmæli sínu með því að bjóða stórfjölskyldunni í fallegt hús í Alberoro í Toskana þar sem við nutum samvista í vikutíma í dásamlegu veðri. 

Nú sit ég á flugvelli og skrifa þessa færslu - en ég er einmitt á leiðinni til Lundar þar sem ég mun sitja kúrs í vísindasiðfræði við háskólann í Lundi. 

Þessi uppskrift varð til í einni af ferðum okkar í Kjósina. 

Seiðandi svínalundir sous vide með gljáðum perum, bökuðum osti og splunkunýjum íslenskum kartöflum

Hráefnalisti fyrir 10 manns

2 kg svínalundir
salt og pipar
jómfrúarolía

10 perur
50 g smjör
2 msk hunang
handfylli valhnetur
2 msk balsamik edik

1 gullostur
1 stóri dímon
2 hvítlauksrif
2 msk hvítvín
2 msk hvítlaukolía
salt og pipar

1 kg nýjar íslenskar kartöflur

handfylli pæklaðar gúrkur (gherkins) 



Ég byrjaði á því að setja Vouto sous vide tækið í gang. Það er gaman frá því að segja að sala þessa tækis gekk vel fyrir jólin í fyrra og í samvinnu við Margt Smátt munum við koma með fleiri vörur á markað fyrir jólin sem verða í boði sem jólagjafir til fyrirtækja. Við ætlum að sjálfsögðu að halda áfram að bjóða upp á þetta tæki, en verðum líka með lofttæmingartæki, svuntu, hníf og skurðarbretti undir mínu merki og Vuoto. Segi meira frá því þegar nær dregur. 


Ég stillti tækið á 62 gráður og þannig fást svínalundirnar lungamjúkar og góðar. Ég pipraði þær áður en ég setti þær í poka, lofttæmdi og setti svo í vatnsbaðið í 90 mínútur. 


Ég notaði uppáhaldsostana mína í þessa uppskrift, Stóra Dímon sem er ljúffengur blámygluostur ...


 ... og til að hafa smá jafnvægi þá notaði ég líka einn gullost.


Ég lagði þá í eldfast mót sem ég hafði penslað með hvítlauksolíu. Næst var að gata þá vandlega með gaffli. 


Þvínæst hellti ég matskeið af hvítvíni yfir á hvorn ost, tyllti svo hvítlauksrifi ofan á. Svo var auðvitað saltað og piprað. Setti svo álpappír ofan á ostinn og bakaði við 160 gráður í forhituðum ofni í 40 mínútur. 


Osturinn bráðnaði saman í dásamlega ilmandi og seiðandi ostasósu.


Næst var að sjóða kartöflurnar í ríkulega söltuðu vatni í 15 mínútur.


Þá var að undirbúa perurnar. Ég bræddi fyrst smjörið og leysti svo hunangið upp í heitu smjörinu. Bætti svo balsamik edikinu saman við og lét krauma við lágan hita í nokkrar mínútur. 


Þá bætti ég við handfylli af gróflega söxuðum valhnetum og lét krauma í eina til tvær mínútur í viðbót. 


Næst skref var að flysja, helminga og kjarnhreinsa fimm perur og leggja í eldfast mót. Þær voru svo bakaðar í 35 mínútur í 160 gráðu heitum ofni. 


Girnilegt, ekki satt?


Með matnum nutum við þessa víns, Ramon Bilbao Reserva frá 2012. Ég tók þátt í að velja þetta vín til innflutnings ásamt nokkrum öðrum vínspekúlöntum. Þetta er ljúffengt vín framleitt úr Tempranillo þrúgum. Það er fallega dökkrautt í glasi, með þéttum ilm af dökkum ávexti, með ljúffengu ávaxtabragði með smá súkkulaðitónum og mildri eik. 


Svínalundirnar voru svo teknar upp úr vatnsbaðinu, penslaðar með jómfrúarolíu, saltaðar og pipraðar og svo rétt brúnaðar að utan á blússheitu grilli. 


Svo var bara að sneiða lundirnar niður ofan í mannskapinn.  


Perurnar lagði ég á beð af fersku íslensku salati. 


Amma Lilja og Ragga Lára, yngsta dóttir mín, sáu um að rölta um lóðina og týna saman í fallegan blómvönd sem var settur á mitt borðið. 


Svo var bara að njóta. Það er erfitt að lýsa því hversu ljúffengar nýjar íslenskar kartöflur eru þegar þeim er velt upp úr bökuðum osti. Hreint út sagt stórkostlegt.


 Þetta var sannkölluð veislumáltíð!


-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

No comments:

Post a Comment