Sunday 8 November 2020

Blóðmör (blóðbúðingur) með sænsku, jafnvel ensku, sniði með tvennskonar mús


Blóðmör eða blóðbúðingur verður seint kallaður fallegasti matur sem um getur. Og fólk skiptist gjarnan í tvo hópa - þeir sem borða blóðmör, og svo hinir sem gera það alls ekki. Það tók mig nokkuð langan tíma að læra að kunna meta blóðmör. Mér þótti til dæmis ekki blóðmör góður fyrr en ég fór að steikja hann og bera hann fram með rifsberjasultu eða sætu sinnepi. Svo kynntist ég bæði sænskri og enskri útgáfu og þær geta verið mjög ljúffengar. Sérstaklega bresku blóðpylsurnar sem fylgja með "Full english breakfast

Blóðmör (blóðbúðingur) með sænsku, jafnvel ensku, sniði með tvennskonar mús

Hráefnalisti

1 líter lambablóð 
1 laukur
1 epli
250 ml pilsner
175 g rúgmjöl
175 g perlubygg
250 g lambafita
50 ml birkisíróp
2 tsk salt
1 tsk allrahanda
1/4 múskathneta
10 piparkorn
8 negulnaglar
2 einiber
1 msk þurrkað majoram
50 g smjör

1 rófa
1 sæt kartafla
100 g smjör
100 ml mjólk 
1 tsk sykur
salt og pipar

500 g kartöflur
50 g smjör
50 ml mjólk
1 tsk sykur
salt og pipar


Skerið laukinn smátt niður og steikið í smjörinu. Saltið og piprið. Hakkið lambafitina gróflega. Setjið í skál ásamt rúgmjöli og byggi. Bætið lambafitunni saman við. 


Bætið svo við blóðinu ásamt sírópinu. Steytið negulnaglana, einiberin og piparinn í mortéli og bætið saman við. Hrærið vandlega.


Raspið hnetuna og bætið allrahanda og majoram saman við. 

Hrærið vandlega með sleif eða sleikju. 

Setjið í vel smurt bökunarform, hyljið með álpappír og bakið í 180 g heitum forhituðum ofni í 60-90 mínútur. 


Búðingurinn er tilbúinn þegar unnt er að stinga hnífi í hann án þess að hann litist af blóði þegar hann er dreginn út. 

Látið kólna í ísskáp í nokkrar klukkustundir. 


Ég gerði tvennskonar kartöflumús með blóðmörnum. Notaði nýja íslenska rófu og sæta kartöflu sem ég flysjaði og skar í bita. Sauð í söltuðu vatni. Þegar þær voru mjúkar hellti ég vatninu frá og stappaði saman með smjöri, mjólk, sykri, salti og pipar. 

Kartöflurnar fengu sömu meðferð. 


Skar svo búðinginn í sneiðar og steikti upp úr smjöri við lágan hita, eina mínútu á hvorri hlið. Bar fram með kartöflumúsinni, heimagerðri bláberjasultu og sætu sinnepi. 

Bar fram með ísskaldi nýmjólk. 

Þessi búðingur var frábær tilraun. Ég hef aldrei reynt að gera minn eigin blóðmör. Eftir á að hyggja hefði ég átt að nota aðeins meiri fitu og aðeins færri negulnagla. Líklega hefði ég átt að sjóða byggið áður. En maður lifir og lærir. 


-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa



No comments:

Post a Comment