Thursday 5 July 2012

Grill grill grill: fylltar litríkar papríkur, grillaðarkjúklingabringur og gróft flatbrauð

Þrátt fyrir að þetta hafi verið kaldasti júnímánuður í Svíþjóð nánast síðan að mælingar hófust þarf ekki mikla sól til þess að maður fari í grillskap. Það er auðvitað alltaf skemmtileg stemming að grilla - ég held að flestir séu sammála um það. Og á sumrin verður þetta nánast eins og múgæsing. Og ekki að ástæðulausu - grillmatur er svo góður. Og það má eiginlega setja hvað sem er á grillið. Svo þarf ekki alltaf að láta barbekjú sósu (þó að hún sé auðvitað déskoti góð) leika aðalhlutverkið á grillmatnum. Að þessu sinni fékk BBQ sósan að bíða í ísskápnum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég geri fylltar papríkur, þær hef ég gert nokkrum sinnum og meira segja bloggað um það einu sinni áður, sjá hér. Þá fyllti ég þær með steiktu grænmeti, beikoni og smávegis af hvítmygluosti. Að þessu sinni sótti ég innblástur til Miðausturlanda - kúmin (cummin - ekki kúmen/caraway) er bragð sem ég kann sérstaklega vel við. Og þetta krydd var rauði þráðurinn að þessu sinni!

Svo sé ég að fleiri eru að gera fylltar papríkur og greina frá því á blogginu sínu. Eva Laufey Kjaran er ung kona sem er afar metnaðarfullur matarbloggari. Þessa uppskrift, birti hún nýverið í pistli í Smartlandi Morgunblaðsins, sem er ákaflega girnileg og ég á ábyggilega eftir að herma eftir. Hún er líka með heimasíðu sem mér finnst gaman að kíkja á, www.evalaufeykjaran.com. Hún bakar mikið af kökum og býr til annað góðgæti og tekur mikið af fallegum myndum. Check it out!

Grill grill grill: fylltar papríkur, grillaðar kjúklingabringur og gróft flatbrauð

fylltar 1

Papríkurnar leika aðalhlutverkið að þessu sinni. Fyrst sauð ég 250 gr af Puy linsum í söltuðu vatni í 25 mínútur. Vatninu var síðan hellt frá og linsurnar settar til hliðar í augnablik.

Skar svo niður einn lauk, þrjá hvítlauksgeira, hálfa sæta kartöflu og eina gulrót. Hitaði olíu á pönnu og steikti síðan grænmetið þangað til að það var mjúkt. Bætti svo saman við einni kúfaðri teskeið af kúmeni, túrmeriki og kóríander. Saltaði og pipraði. Þá fóru linsurnar saman við ásamt einni dós af hökkuðum tómötum, ein matskeið af tómatpuré og svo ein tsk af sírópi til að balansera bragðið. Hitað að suðu og þá lagt til hliðar. Skar toppinn af fjórum papríkum og hreinsaði kjarnann út. Fyllti með linsunum.

fylltar papríkur 1

Ætlaði að tylla haloumiosti ofan á - en hafði láðst að kaupa hann svo að ég notaði það sem var til - sem var mozzarellaostur. Fetaostur hefði líka verið afbragð, en ég átti hann ekki til heldur.

fylltar eldaðar

Papríkurnar voru settar á óbeinan hita á grillinu og voru tilbúnar á rúmum hálftíma.

kjúklingabringur

Að krydda kjúklingabringurnar var nokkuð einfalt. Útbjó kryddblöndu gerða úr einni teskeið af kúmeni, túrmeriki, papríkudufti, hálfri tsk af möluðum fennelfræjum, salti og pipar. Fyrst penslaði ég bringurnar með jómfrúarolíu og svo makaði ég kryddblöndunni á bringurnar. Grillað í 10 mínútur á hvorri hlið þangað til eldað í gegn.

gróft flatbrauð

Flatbrauðið var gert á eftirfarandi hátt. Fyrst vakti ég 15 gr af geri í 300-400 ml af volgu vatni, ásamt einni msk af sykri. Blandaði 300 gr af hveiti, 300 gr af rúgmjöli, salti og tveimur msk af jómfrúarolíu. Þegar gerið var farið að freyða er vökvanum blandað saman við hveitið. Hnoðað í fimm mínútur. Síðan blandaði ég saman einni dós af kjúklingabaunum og svo einni teskeið af kúmenfræjum. Blandað saman í mínútu en þess gætt að að kjúklingabaunirnar maukist ekki alveg.

Flatt út og penslað með hvítlauksolíu, saltað og piprað. Grillað á báðum hliðum.

matur og rósavín

Borið fram með einfaldri jógúrtsósu. tveir dl af jógúrt, tvær msk af söxuðum myntulaufum, tvö hökkuð hvítlauksrif, salt, pipar og smá skvetta af hlynsírópi.

gallo_ro_769_savi_769_n.png
Gallo White Grenache

Með matnum fengum við okkur smá tár á rósavíni. Á sumrin, þegar heitt er í veðri er gott að fá sér léttvínsglas. Og þegar sólin skín finnst mér rósavín alltaf ansi ljúffengt. Rósavíni er almennt ekki gert hátt undir höfði en eru ansi vinsælt hérna í Svíþjóð. Þetta var létt og gott vín, kalt úr ísskápnum. Gert úr grenache þrúgum þar sem hýðið fær að liggja á safanum í sólarhring til að gefa víninu sinn rósableika lit. Ávaxtaríkt og frískandi.

Bon appetit!

P.s. Takk fyrir undirtektirnar á Facebook - The Doctor in the Kitchen - Gleður sannarlega. Núna þarf aðeins tæplega 400 likes í viðbót og þá mun ég éta grísahöfuð! Endilega hjálpið mér að láta það verða að veruleika!

No comments:

Post a Comment