Wednesday 27 June 2012

Djéskotigóð Djöflaegg - með dijon sinnepi og graslauk á sumarsólstöðum

Þetta er réttur sem ég held að hafi fallið í gleymsku fyrir áratugum síðan. Samkvæmt heimildum mínum fóru menn að gera djöflaegg á tímum Rómverkja og er þessi réttur þekktur víða. Ég man eftir því sem krakki að hafa borðað þetta í einhverri veislunni en ekki séð þetta á hlaðborðum síðan ég sleit barnskónum. En sem forfallinn eggja "enþúsíast" er ekkert betra en að rifja upp svona sígilda slagara. Og þessi eggjaréttur er fantagóður. Uppskriftin fékk nafnið djöflaegg - deviled eggs - á átjándu öld þegar menn fóru að krydda eggin með papríku eða pipar - ætli þetta hafi ekki verið kallað eitthvað annað áður.

Ég gerði djöflaeggin fyrir sameiginlega veislu okkar vinanna í Púkagrandanum í Lundi. Þar héldum við upp á sumarsólstöður - Midsommar - sem er mikil hátíð hér í Svíþjóð. Föstudagurinn eftir Jónsmessu er frídagur og þá gleðjast Svíar, dansa í kringum maísúluna eins og froskar skreyttir blómakrönsum, borða síld, syngja og skála! Við reyndum að gera okkar besta til að fylgja Svíunum eftir - með smávægilegum breytingum þó. Jónas og Hrund, nágrannar mínir og vinir, buðu okkur heim ásamt fjölda annarra til samskotaveislu!

Svíar eru vanir því að borða marineraða síld, rauðlauk, sýrðan rjóma, rúgbrauð, radísur, nýjar kartöflur með dilli, lax og auðvitað egg! Eggin eru þó venjulega bara soðin og lagð á borð. Djöflaegg eru eiginlega páskamatur í Svíþjóð - eða var það allaveganna áður - en við innflytjendur hljótum að fá að teygja og toga sænska siði eins og okkur passa best? Eða hvað?

Djöflaegg - með dijon sinnepi og graslauk á sumarsólstöðum 

Fyrst er auðvitað að sjóða egg. Harðsjóða eggin. Eins og lög gera ráð fyrir; sjóða upp vatnið, lækka hitann þannig að það bubblar aðeins. Sumir segja að maður eigi að salta vatnið - ég veit ekki, svo gerið eins og þið viljið. Sjóða í 10 mínútur og svo kæla.

egg

Láta eggin síðan kælast í nokkrar mínútur áður en maður vindur sér í að flysja af skurnina.

gulan burt

Ég skar eggin niður í helminga og plokkaði rauðuna burt (mér finnst nú eiginlega að þetta eigi að heita eggjagula!) og setti í skál.

gulan

Það er ágætt að styðjast við eftirfarandi hlutföll. Fyrir hverjar tólf "eggjagulur", setja tvær kúfaðar teskeiðar af góðu dijon sinnepi, 100 ml sýrðan rjóma (eða majónes), 1 teskeið af túrmeriki, salt og pipar. Síðan má bara setja það sem maður vill. Það er hægt að hræra saman við lauk, kryddjurtir, önnur krydd eða bara það sem ykkur dettur í hug - the imagination is the only limit!

fylla með sprautu

Ég hafði skotist til Kaupinhafnar fyrr um daginn og litið við í uppáhaldsbúðinni minni. www.hwl.dk - þar er hægt að fá leikföng fyrir alvöru- og áhugakokka. Ég keypti mér eitt og annað; kjötexi, slátrarahníf, sigti, skeiðar, sleif, svona sprautupoka eins og sjást á myndinni og nokkrar tegundir af stútum - en ekki kjötsög eins og mig langaði að skella mér á (þurfti svo að nota hana fyrir næstu uppskrift en vík að því síðar)

Setti eggjagulublönduna í pokann og sprautaði í eggin.

graslaukur

Skar síðan niður graslauk, sem ég sótti ferskan útí garði.

djöflaegg

Eggjunum var síðan raðað á disk og graslauknum stráð yfir.

miðsumarmatur

Það var fleira á borðum en bara egg. Við vorum með margar tegundir af síld, lax, bæði reyktan, grafinn og heitreyktan, radísur, nýjar soðnar kartöflur með smjöri og dilli, fullt af jarðarberjum. Hrund gerði sitt dásamlega rúgbrauð (best ever) og svo gerði Addý jarðaberjatertu sem bræddi hörðustu karlmenn!

Svo var sungið (td.: 600 bönder ... Eslöv! (án lags - hrópað) þýðist: 600 sýslumenn ... Selfoss!)

Bon appetit!

P.s: Minni en og aftur á Fésbókar síðuna mína: The Doctor in the Kitchen! Endilega hjálpið mér að komast upp í þúsund likes! Ég skal éta grísahaus ef það tekst!

4 comments:

 1. Þegar ég var skiptinemi úti í BNA voru djöfluð egg fastur liður í kokteilboðum og þau voru ansi tíð á mínu heimili því foreldrarnir voru svo virk í alls kyns félagastarfsemi. Þetta var ein af 5 eða 6 sortum af fingramat sem bókstaflega allar bandarískar húsmæður snöruðu fram við svoleiðis tækifæri. Alveg stórsniðugur réttur og hægt að gera alls kyns útgáfur.

  Sögnin 'to devil' þýðir að elda mat með sterkum kryddum, rauðum pipar, sinnepi o.s.frv. Þannig að ég vil meina að það eigi að kalla þetta djöfluð egg. Egg sem einhver er búinn að djöflast í frammi í eldhúsi.

  ReplyDelete
 2. Ragnar Freyr Ingvarsson27 June 2012 at 20:31

  Sæl Anna

  Gaman að heyra að þú hefur smakkað þetta áður. Mér finnst magnað að þessi réttur hafi, í mínum kredsum, fallið í gleymskunnar dá.

  Þetta er frábær réttur - og ég mun gera hann aftur og aftur.

  Hann var síðan ennþá betri daginn eftir - á ristuðu brauði með afgangs reyktum laxi skreyttur djöflaeggi - hreint út sagt magnað!

  mbk, Ragnar

  ReplyDelete
 3. Þú þarft þá auðvitað að verða þér úti um þennan grip:

  http://www.amazon.com/HIC-Porcelain-Deviled-Dish-13-inch/dp/B000I1YJDU/ref=sr_1_9?ie=UTF8&qid=1341093516&sr=8-9&keywords=deviled+eggs+tray

  ReplyDelete
 4. Ragnar Freyr Ingvarsson5 July 2012 at 20:37

  Sæl Anna

  Þetta er komið á listann!

  mbk, Ragnar

  ReplyDelete