Saturday 9 December 2006

Fyrsta færsla

Jæja...þá er ég búinn að opna þetta blogg. Sniðugt.

Hugmyndin með þessari síðu er að halda dagbók yfir aðgerðir mínar í eldhúsinu - uppskriftir og svoleiðis. Reyna að hafa þetta á svona dagbókarformi - og skrá þannig reglulega hvað fer fram í eldhúsinu mínu - þetta er auðvitað stolin hugmynd. Ég var nýlega að lesa bók eftir Nigel Slater sem heitir Kitchen Dairies og þar rekur hann eldamennsku sína í eitt ár - frábær bók - og alveg þjóðráð að herma eftir. Ef maður getur ekki fengið góðar hugmyndir þá bara stelur maður þeim frá einhverjum öðrum.

Það er nú eiginlega hægt annað en að koma þá allavega með eina góða uppskrift í upphafi.
Þessi frábæri pasta réttur var í matinn hjá mér seinasta sunnudagskvöld. Hugmyndin var fengin frá Armando Percuoco sem er ítalskur kokkur búsettur í Ástralíu og rekur veitingahús í Sydney.

Truffle eggjapasta

Ef maður fylgir uppskriftinni til hlýtar þarf maður að geyma nokkur egg í kassa með hvítum trufflum (jarðsveppum - fokdýrir sveppir sem vaxa neðanjarðar við rætur eikatrjáa og einhverra annarra trjátegunda). Ég gerði ódýrari útgáfu af þessum rétt.

Sauð upp pela af matreiðlsurjóma, blandaði 1 msk af trufflu olíu saman við þegar suðan var kominn upp og leyfði þessu að sjóða aðeins niður. Á meðan sauð ég spaghetti í miklu vatni - söltuðu. Þegar spaghettíið var soðið, hellti ég vatninu af og setti svo pastað aftur í pottinn og rjóma/trufflublönduna saman við. Leyfði því að standa - með lokið á - á meðan ég steikti egg á pönnu. Léttsteikt þannig að þau voru ennþá ansi blaut.

Því næst er pastanu hrært rækilega og sett á disk og skreytt basil. Saltað og piprað. Eggið lagt ofan á og ríkulegu magni af parmisanosti raspað yfir.

Því næst er þessu blandað saman og borðað. Mér fannst þetta ákaflega gott en Snædísi (konunni minni) fannst trufflan aðeins væmin ...en samt kláraði hún matinn sinn og vel það!



Rosemount GTR passaði ekki alveg með þessum mat - þar sem það er fullsætt á bragðið.

No comments:

Post a Comment