Saturday 9 December 2006

Kósí kvöld og stormviðvörun - nautasteik með bernaise

Nautasteik með Bernaise

Þetta er eitthvað sem við hjónin eldum þegar við viljum gera það sem Danir kalla að "hugge sig".  Það er stormviðvörun í kvöld og ekki veitir af að láta sér líða vel. Þessi réttur hefur verið í miklu uppáhaldi hjá fjölskyldunni lengi. Eiginlega getur þessi eldamennska ekki verið mikið einfaldari. Hérna er fyrst og fremst verið að reiða á gott hráefni og svo svindli með Bernaise sósuna.

Bernaise sósa (konan mín gerir þessa - uppskrift frá tengdaföður mínum): Hollandiase sósa úr pakka (frá Knorr - ekkert Tóró eitthvað segir konan mín - sjálfur myndi ég aldrei elda neitt svona úr pakka og þori varla að viðurkenna opinberlega að við gerum svona - bara resúltatið er svo déskoti gott að ég get lítið gagnrýnt þetta). Eldað eftir leiðbeiningum. Bernaise essens er notaður - ég veit ekki einu sinni hvað er í þessu...og svo til að setja smá persónulegt tötsh þá eru ferskar kryddjurtir klipptar útí, ekki fáfnisgras eins og á að gera heldur yfirleitt steinselja. Sennilega ætti þessi sósa ekkert að heita Bernaise...hún ætti að heita Snædísósa - alltént á hún lítið skilt við ekta Bernaise sem er í smjör og eggjasósa sem er bragðbætt með fáfnisgrasi, skarlottulauk og kerfil. Einnig er yfirleitt smá víni og edik bætt við - Þetta er eiginlega það sama og er í Hollandaise sósu - nema hvað kryddið er ólíkt og í Hollandaise sósu er sítrónusafi aðalbragðgjafinn.

Nautakjötið (núna innra læri) var fyrst piprað rækilega - og hér greinir kokkum mikið á - hvort að það sé saltað fyrir eða eftir steikingu - sumir segja að það eyðileggi matinn alveg að salta fyrir og næsti maður segi það algerlega nauðsynlegt. Hvað sem því líður þá er nautakjötið steikt á pönnu í smjöri, nema þegar faðir minn er í mat þá í olíu þar sem hann þolir ekki smjör og finnst alger lágúra að nota svoleiðis í matargerð. Yfirleitt steiki ég samt úr smjöri þegar hann kemur í mat og lýg svo bara að honum - hann fær þá að dást að bragðinu haldandi það að þetta sé bara steikt úr olíu - Smjör er frábært.

 Með þessu eru bara soðnar kartöflur og Spergilkál. Meiriháttar.

Og auðvitað er með þessu gott rauðvín - að þessu sinni var drukkið Monte Garbi Ribasso 2002. Excellent.


No comments:

Post a Comment