Thursday 14 December 2006

The Ultimate Raindeer Meatballs

Fórum tveir kollegar á hreindýraveiðar í byrjun september. Áttum leyfið saman, hann á gikknum ég á kíkinum. Náðum þessum fallega tarfi eftir talsverðan eltingarleik við hjörðina. Fallþungi var um 70 kg og fékk ég helmingin af kjötinu í minn hlut eftir verkun um 20 kg af úrvals kjöti. Fengum nokkra pakka af hreindýrahakki og varð þessi uppskrift til í tengslum við það.

Bandarískur kokkur að nafni Tyler Florence hafði dáldið með tilurð þessarar uppskriftar að gera þar sem hún byggir á hans bollum sem nefnast Tyler's Ultimate Meatballs - alls ekki sem verstar - eiginlega alveg frábærar. Uppskriftin hans byggði á því að ræða við frægan ítalskan kokk og svo annan þekktan bandarískan og taka svo það sem hann hafði lært var af þeim og þróa eigin uppskrift. Ég breyti litlu frá hans uppskrift nema hvað ég er að nota hreindýrahakk - geymi bollurnar aðeins eftir að þær eru blandaðar og geri svo tómatsósu með þessu. Úr verður því mín uppskrift - ekki satt?

Ragnar's Ultimate Raindeer Meatballs

Ágæt blanda af íslenskri villibráð - og ítölsku eldhúsi. Fyrst er 6-8 brauðsneiðar af góðu brauði (skorpan af) bleytt upp úr mjólk. Þvínæst 500-600 gr af hreindýrahakki sett í skál og saltað með Maldon salti og nýmöluðum pipar. 3 (jafnvel meira...jafn vel mikið meira - fer eftir ást manns á hvítlauk - sjálfur myndi ég setja meira) smátt skorin eða kreist hvítlauksrif sett úti. Handfylli af fersku basil og ferskri steinselju eru saxaðar niður og sett úti. Handfylli af furuhnetum eru ristaðar á pönnu - svo barðar í Morteli og sett útí. Um 70 gr af nýrifnum parmesan osti er bætt við. Því næst er brauðið tekið úr mjólkinni og mjólkin kreist úr og sett útí ásamt einu eggi. Hnoða vel saman. Geyma í ískáp í nokkra klukkutíma. Steikt á pönnu þannig að þær brúnist aðeins. Endilega ekki elda meira en medium - medium rare. Ekkert welldone hér takk fyrir.

Tómatsósan er afar einföld. 1 rauðlaukur og 2-4 hvítlauksrif eru söxuð niður og steikt í olífuolíu á pönnu - ekki brúnað - bara þar til orðið mjúkt og glært að sjá. Mikilvægt er að láta laukinn hitna í olíunni - þannig kemur mýkra og jafnvel smá sætubragð af hvítlauknum. Því næst eru 1-2 dósir af niðrusoðnum tómötum sett út og hitað. Ein lítil dós af tómatpaste sett útí. Ferskar kryddjurtir, basil og steinselja, söxuð og sett útí. Saltað og piprað. Stundum eru þessar sósur aðeins súrar og þurfa að fá einhverja sætu - þarna má nota sykur en einnig tómatsósu - en bara smávegis því sósa má ekki verða sæt, bara að jafnvægi ríki í þessu. Stundum hef ég sett smá rauðvínsslettu (skemmir aldrei) saman við.

Bollurnar eru settar í eldfast mót, sósunni hellt yfir. Parmesan ostur eða jafnvel mozzarella er settur yfir og osturinn látinn bráðna í heitum ofni í smá stund.

Borið fram með góðu pasta - fabrizzia di rustichella (örugglega vitlaust stafað hjá mér - en þetta er í brúnum pokum og er einstaklega bragðgott pasta), góðu brauði - helst heimagerðu og einhverju einföldu salati. Að venju - gott rauðvín með þessu...eitthvað gott ítalskt.

No comments:

Post a Comment